06.03.1951
Neðri deild: 84. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

115. mál, sala lögveða

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Þetta mál er komið frá hv. Ed. og hefur verið þar alllanga stund. Ég ætla, að ákvæði þessa frv. séu þannig úr garði gerð, að vel megi hlíta því, þó að málið gangi fram. Þetta er til þess að auðvelda innheimtuna, en ætti þó jafnframt ekki að koma að sök þeim, sem á að standa straum af þeim greiðslum, sem verða innheimtar samkvæmt þessum l. Ég sé á meðferð málsins í Ed., að allshn. þar hefur verið ásátt um afgreiðslu þess og borið fram breyt. á 1. gr. frv. og hv. Ed. hefur samþ. hana. Sú breyt., sem þar hefur verið gerð á hinu upphaflega frv., er til þess að tryggja enn betur hagsmuni gerðarþola. Annað atriðið, sem breytt er, er það, að þegar búið er að birta, að taka skuli lögveð, þá er gert ráð fyrir því í frv. með hálfs mánaðar fyrirvara, en eftir breyt. í Ed. með mánaðar fyrirvara. Hitt atriðið er, að frv. gerði ráð fyrir, að eftir að hálfur mánuður væri liðinn, þá mætti selja lögveð, en þetta hefur verið fært í d. upp í 30 daga, þannig að enn betur er séð fyrir hagsmunum þeirra, sem annast greiðslur á slíkum kröfum. Þetta hefur hv. allshn. Ed. verið sammála um og d. fallizt á. Ég ætla þess vegna, að það sé svo fyrir þessum atriðum séð, að vel megi við þessi ákvæði hlíta.