02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

194. mál, togarakaup ríkisins

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins í tilefni af orðum hv. þm. Borgf., að ég leyfi mér að segja nokkur orð um þetta mál.

Eins og kunnugt er, þá veitti Alþ. hæstv. ríkisstj. rétt fyrir jólin í sambandi við afgreiðslu fjárl. heimild sem greinir í 22. gr. þeirra l., til þess að gera ráðstafanir til, að nokkrir hinna nýju togara, sem nú eru í smíðum, verði staðsettir á þeim stöðum, sem við erfiðast atvinnuástand eiga að búa. Hv. þm. Borgf. vildi túlka þessa heimild þannig, að ríkisstj. hefði því aðeins leyfi til þess að hagnýta sér hana, að ekki fengjust kaupendur að hinum 10 togurum sem nú eru í smíðum í Bretlandi, með áður umræddum kjörum, sem samþ. hafa verið með l. og fyrir liggja Þetta er skilningur hv. þm. á þessari heimild. Ég vil taka það fram, að við, sem að þessu stóðum, lögðum ekki inn í hana þann skilning, nema miklu síður sé. Við gerðum þvert á móti ráð fyrir því, að þó það væru fyrir hendi kaupendur að öllum skipunum með umræddum útboðsskilmálum, þá væri ríkisstj. þó heimilt að staðsetja nokkur þeirra þar, sem atvinnuskilyrði væru örðugust og þeirra væri mest þörf, en fjármagnið eitt yrði ekki látið ráða því, hvar skipin yrðu staðsett, heldur yrði þar einnig litið á atvinnulega nauðsyn staðanna. Þessi samþykkt Alþ. fyrir jólin var einnig í fullu samræmi við kaup hinna fyrri, nýsköpunartogara. Þá námu stofnlánin 75%, ef ég man rétt, og með sérstakri ályktun Alþ. var ríkisstj. heimilað að veita 10% lán til viðbótar, þannig að samtals námu lánin um 85% af andvirði togaranna. Og það er vitað mál, að þessi viðbótarheimild gerði sumum aðilum kleift að eignast skipin, sem ella hefðu ekki átt þess kost, og var þannig bætt úr atvinnuvandamálum fleiri staða en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. — Mér er það fagnaðarefni, að hæstv. forsrh. hefur látið í ljós nákvæmlega sama skilning á heimildinni og fyrir mér vakir, enda raunar ekki við öðru að búast, þar sem brtt. var flutt í samráði við hæstv. ríkisstj. á sínum tíma.

Ég tel svo ekki nauðsyn bera til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég tel tilgangslaust að ræða það við hv. þm. Borgf., hverjir eigi að fá þessi skip. Við getum verið sammála um, að það komi margir staðir til greina, sem þörf hefðu fyrir þau, eins og t.d. Akranes. En spursmálið er fyrst og fremst um það, hvar skipin bæti úr sárastri þörf og hvar atvinnuástandið sé hrapallegast um þessar mundir, og mestu máli skipti að koma til liðs við þá, sem eiga framtíð sína undir þessum atvinnutækjum. En að fara út í jöfnuð milli einstakra staða hér á Alþ. er óhyggilegt og ekki viðeigandi að deila um slíkt, svo miklar vonir sem fólk á hverjum stað byggir á þessum skipum; skal ég ekki hefja hér slíkar umræður, en mun hins vegar treysta hæstv. ríkisstj. til að framkvæma þá heimild, sem Alþ. veitti henni ágreiningslítið fyrir áramótin, og fara samkv. henni þær leiðir í þessu efni, sem ríkust nauðsyn ber til og bætt geta úr sárustum vandræðum og jafnvel neyð þeirra staða, sem búa við hvað örðugust skilyrði atvinnulega.