02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

194. mál, togarakaup ríkisins

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa orðið í sambandi við 17. lið 22. gr. fjárl. fyrir áríð 1951, þá vil ég taka fram, að við sósíalistar erum sammála þeirri skoðun á þessum lið, sem fram kom hjá hæstv. forsrh. og hv. þm. N-Ísf. Og sé þetta lesið yfir, þá er augljóst mál, að ríkisstj. er gefin heimild til að gera ráðstafanir í þá átt, að nokkrir hinna nýju togara verði staðsettir þar á landinu, sem atvinnuskilyrði þykja hvað örðugust, og það er algerlega lagt á vald ríkisstj. að ákveða slíka staðsetningu, og er hún ekki um það á neinn hátt bundin, hvorki við fyrri auglýsingar um sölu skipanna né annað. Ég er þannig á öndverðri skoðun við hv. þm. Borgf. um það, að heimildin sé bundin við það, að þær greiðslur fari fram, sem gert var ráð fyrir, og að þeir sitji fyrir, sem geta talið fram ákveðnar upphæðir. — Ég vil taka það fram, að ég vil ekki fara að deila við hv. þm. Borgf. um atvinnuástand á ýmsum stöðum. En ég heyrði það á ræðu hæstv. forsrh., að ríkisstj. hefði athugað það rækilega, hvernig bezt yrði að ráðstafa skipunum. Og í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að áhuginn fyrir þessum skipum blossaði skyndilega upp á ýmsum stöðum upp úr áramótunum síðustu, en ekki fyrr, þar sem t.d. Siglufjörður o.fl. höfðu áður sent hingað til Rvíkur þessara erinda. En þessi áhugi, sem vaknaði fyrst eftir áramótin, mun hafa staðið í sambandi við hinar góðu sölur, sem þá voru gerðar á ísfiskinum í Englandi. En þegar nú er sýnt orðið, að ekki er að treysta á þennan markað, hefur áhuginn dofnað. – Ég held, að hæstv. ríkisstj. sé treystandi til að afla sér þeirra upplýsinga, sem til þarf að vega það og meta, hvar þessara atvinnutækja er mest þörf; það hefur ekki verið lagt fyrir þingið að taka ákvarðanir um það, enda mun það ekki hafa verið gert áður og ríkisstj. og nýbyggingarráð annazt það á sínum tíma. Þetta er ekki ástæða til að ræða sérstaklega; en ég vænti þess, að ríkisstj. noti þá heimild, sem henni var fengin í umræddri grein fjárl., og láti þau sjónarmið ráða, er þar koma fram. Ríkisstj. er vandi á höndum hvað úthlutun þessa snertir, en svo var einnig á sínum tíma um nýsköpunarstjórnina með sín 30 skip, og það endaði með því, að til þess að leysa þann vanda varð að fjölga skipunum um tvö í viðbót. Hvernig þetta fer úr hendi nú, verður ekki séð, en ég vænti þess, að ríkisstj. geri sitt bezta til þess að sjá svo um, að þessi skip komi í þá staði niður, þar sem þeirra er mest þörf til atvinnuaukningar og þau geta látið rætast þær vonir, sem stærstar eru bundnar við tilkomu þeirra.