03.03.1951
Neðri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

194. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég get tekið duglega undir þessa viðbótartill., sem fram hefur komið. Það hefur verið þannig í sambandi við lög um togarakaup, að alltaf hefur verið um það nokkur tregða hér á Alþingi. Fyrst þegar lögin voru á Alþingi, árið 1949, kom engin heimild. Ég man, að svo var flutt brtt., ég held, að ég hafi verið 1. flm., um að heimila ríkisstj. að selja til bæjar- og sveitarfélaga 85%, og var till. felld, og till. um 75% var einnig felld. Loks kom fram till. um 40%, og var hún samþ. Á næsta þingi, í maí 1949, var þessu breytt, ef ég man rétt, og þá hafðist í gegn að hafa það 75%. Nú er svo komið, að það er orðið 90%, en var til að byrja með 10%, eða hefur alveg snúizt við. — Það er skiljanlegt, að ríkisstj. var treg í þessu máli, en ég hygg, að í sambandi við viðbótartilli. um gömlu togarana sé hún of treg, þar sem aðeins er um 2 millj. kr. að ræða.

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði verið að tala um, að framundan væri hækkun á sjávarafurðum. Ég býst við, að hæstv. forsrh. og ríkisstj. sé kunnugt um, að verð á síld og öðru er að stórhækka. Ég held, að síldarverðið verði hærra en það hefur verið nokkru sinni áður. Svo að þegar athugað er með gömlu togarana í sambandi við síldarverðið, er þetta hörmulegt, ekki sízt ef sækja þarf síldina lengra burt.

Ríkisstj. á ekki að bíða eftir heimildum, heldur á hún að afla þeirra og fá strax úr þessu skorið. Þarf þá að athuga, hvort hægt sé að gera þetta hér heima og hvort það getur gengið fljótt fyrir sig.

Það er auðséð, að það er engu að tapa, þótt viðbótartill. fáist samþ. Viðvíkjandi veðréttinum þá er það aðeins samningsatriði, og ræður ríkisstj. því, að hverju hún gengur, og venjulega þarf hún að fá heimild frá Alþingi varðandi það, svo að það er ekkert að óttast.

En nú er sannleikurinn sá, að nú sem stendur er ekkí auðvelt að fá lán í bönkunum. (Fjmrh.: Það gæti orðið verra fyrir málið. Þá gera eigendurnir það ekki sjálfir.) Ég held, að það sé engin hætta á, að einstaklingarnir geri ekki allt, sem þeir megna að gera. Það er aðeins svo erfitt að gera hlutina án samþykkis ríkisstj. Þess vegna er betra að samþykkja heimildina. Vil ég ekki aðeins benda á væntanlega hækkun, heldur einnig möguleikana, sem eru fyrir hendi.