03.03.1951
Neðri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

194. mál, togarakaup ríkisins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til að svara hæstv. fjmrh. örfáum orðum. Hann rökstuddi sín andmæli með því, að þessi fyrirtæki væru svo gamalgróin, að þau þyrftu ekki á þessari ábyrgð að halda. Vildi ég taka það fram, að flest þessara fyrirtækja hafa keypt skip og eytt öllu sínu fé og stofnað til stórskulda og geta því ekki gert þetta nema með aðstoð. Hvað viðkemur veðrétti, þá er það á valdi hæstv. fjmrh. og getur hann tekið þann veðrétt, sem hann telur gildan og er ekki eins áhættusamur og hann gerir ráð fyrir.

Mér finnst, að hæstv. ríkisstj. sé ekki nægilega ljóst, hvað hér er um að ræða. Það er gjaldeyrisöflun, ef 10 eða 12 togarar eru gerðir út. Það gæti hæglega orðið 30–40 millj. kr. beinn gjaldeyrisávinningur fyrir þjóðina, og væri það ekki lítið atriði í þjóðarbúskapnum, ef þetta kæmist á. Ég verð að segja, að hæstv. ríkisstj. sýndi furðulegt tómlæti, ef hún athugaði ekki þessa möguleika. Ég hef ekki nákvæmar tölur, en ég held, að ég áætli varlega, ef ég segi, að það kæmu 3–4 millj. frá hverjum togara á ári. — Ætla ég ekki að orðlengja þetta frekar. Hæstv. ríkisstj. og hennar háttv. menn virðast ekki treysta sér til að samþykkja þessa heimild, og er ekkert hægt að segja við því frekar. Þessi heimild yrði ekki notuð, nema ríkisstj. og eigendur togaranna hefðu fengið fullvissu um, að það væri rétt. En ég held, að þá væri vandfundin betri leið fyrir ríkisstj. út úr gjaldeyrisörðugleikunum, ef þetta tækifæri væri að engu haft.