05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

194. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég skal taka það fram, að sama sjónarmið kom fram í Nd. og hjá hv. þm. Barð. um, að heimildina í fjárl. frá í vetur bæri að skilja svo, að þetta kæmi aðeins til greina, ef ekki væri hægt að selja togarana með 10% kaupgreiðslu. Og af því að nokkur óvissa ríkti um það, hvernig bæri að skilja þetta, þótti ríkisstj. rétt að bæta þessu í löggjöfina og láta svo þingið skera úr um það, hvernig ætti að skilja þetta. En verði þetta samþ., þá álítur ríkisstj., að hún hafi rétt til ráðstöfunar á togurunum með vægum kjörum. Ég held það geti ekki orkað tvímælis, að það hafi vakað fyrir flm. og mjög mörgum alþm. að skilja þetta á þann hátt, sem ríkisstj. hefur gert. — Hv. þm. Barð. spurði, hvernig ég liti á, ef um tvo staði væri að velja, sem æsktu eftir að fá togara, en báðir hefðu þeir við svipaða atvinnuörðugleika að etja. Þetta hefur nú ekki verið rætt í ríkisstj., en ég lít svo á, að ef atvinnuörðugleikarnir eru jafnmiklir á báðum stöðunum, þá yrði úthlutað til þess staðar, sem meira gæti greitt. En það er auðvitað matsatriði, hvernig meta beri atvinnuörðugleikana hjá viðkomandi stöðum. Ég get viðurkennt, að með þessu fordæmi geti fleiri komið á eftir, en bindandi fordæmi er þetta ekki. Og ef eitthvað af þessum skipum er látið með vægari greiðsluskilmálum til þeirra staða, þar sem atvinnuörðugleikar eru, þá er það aðeins tilraun ríkisstj. til þess að lyfta undir atvinnulífið á þessum stöðum, — svo að fordæmið er þannig alls ekki nýtt. En slíkar kröfur koma úr öllum áttum um eitthvað svipað, og því er ekki að leyna, að 2. gr. er áframhald af þeim kröfum, sem um er að ræða. Ríkisstj. gekk inn á það, að 2. gr. yrði sett inn, vegna þess að hún hugsar sér, að ef þeir staðir, þar sem aflaleysi og atvinnuleysi hefur orðið, gætu lagt fram einhverja fjárhæð í þessu skyni, þá væri rétt, að ríkið setti nokkurt fé á móti. — Það getur vel verið, að það þurfi að breyta orðalaginu, en auðvitað er það meiningin, að þessir staðir, sem um ræðir, kaupi skipin, en ekki ríkisstj.

Hv. þm. Barð. taldi ekki unnt að ganga lengra í þessum efnum en greiða olíukyndinguna. Þeir þm., sem fluttu þetta mál í Nd., vildu hafa ábyrgðarheimildina hærri út frá því sjónarmiði, að ef líta ætti á þetta sem bætt atvinnuskilyrði á viðkomandi stöðum, þá ætti að minnsta kosti að fást 3/4 af kaupverðinu á þennan hátt. Og af þessum ástæðum held ég, að vafasamt sé að takmarka þetta frekar.

Ég tók fram í framsöguræðu minni áðan, að ríkisstj. muni ekki nota þessa lánsheimild nema því aðeins, að fyrir liggi álit sérfræðinga um það, að hægt sé og auðvelt að gera þessa breytingu, og ég hef ekkert á móti því, að sett verði inn í frv. ákvæði um þetta.

Hv. 4. þm. Reykv. hefur flutt hér brtt. sama efnis og felld var í Nd., um að ganga lengra í þessum efnum og veita ábyrgð fyrir öðrum 2 millj. kr. Ég mælti á móti þessu í framsöguræðu minni og skal ekki fjölyrða um það nú. En ríkisstj. er á móti því að ganga lengra í þessum efnum, vegna þess að hún telur ekki ástæðu til, eins og málið stendur nú.