02.11.1950
Neðri deild: 14. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

59. mál, vinnumiðlun

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við það, sem hv. 8. landsk. sagði hér áðan. Það er greinilegt, að flutningur þessa frv. er stórt spor aftur á bak í félagsmálum okkar. Það var áhugamál meiri hluta bæjarstjórnar Reykjavíkur að leggjast á móti stofnun vinnumiðlunarskrifstofu, og Sjálfstfl. taldi sig ekki hafa nóg áhrif á atvinnulíf bæjarins. Af þessari ástæðu hefur vinnumiðlun ríkisins verið illa séð af bæjarstjórn Rvíkur. Nú hefur hæstv. forsrh. flutt frv. í þá átt að veita bæjarstjórn Rvíkur vilja sinn í þeim efnum og gerzt þannig talsmaður Sjálfstfl. Hvaða ástæður liggja til þess, veit ég ekki, en þær geta síðar komið í ljós. Eins og hv. alþm. er kunnugt, hefur það verið skylda að koma upp vinnumiðlunarskrifstofum í bæjum, ef meiri hluti viðkomandi bæjarstjórnar hefur óskað þess eða ef atvmrh. hefur mælt svo fyrir. Nú er þetta vald tekið af atvmrh., og ég tek undir þau orð hv. 8. landsk., að þetta er spor aftur á bak. Hlutverk vinnumiðlunarskrifstofanna hefur verið tvöfalt. Í fyrsta lagi að safna skýrslum um atvinnuleysi og í öðru lagi að miðla vinnu og gefa upplýsingar í því sambandi. Meðal annarra menntaðra þjóða þykir nauðsynlegt að vita nokkrum sinnum á ári, hvernig ástatt er í atvinnumálum landsins. Ég má segja, að víðast hvar sé skýrslum um þetta safnað 4 sinnum á ári. Það er auðséð á lögum frá 1928 um atvinnuleysisskráningu, að hv. alþm. hefur þá verið ljóst, að nauðsynlegt er að vita nokkuð um þetta mál. Í þeim lögum er sagt, að safna skuli atvinnuleysisskrám tvisvar á ári, og Hagstofa Íslands síðan vinna úr þeim skýrslum og birta niðurstöður. Þessi lög hafa ekki komið til framkvæmda, og því var vinnumiðlunarskrifstofum falið að safna þeim skýrslum.

Mér er kunnugt um, að þetta hefur verið gert, en hagstofan hefur algerlega vanrækt að vinna úr skýrslunum og birta þær. Það eina, sem við höfum fengið að vita um þetta mál, eru þær upplýsingar, sem manntalið gefur, en það fer fram á 10 ára fresti, og þar eð langur tími fer í að vinna úr skýrslum þess, eru upplýsingar, sem við fáum um atvinnuástandið þar, orðnar um 20 ára gamlar. Því höfum við verið harla ófróðir um atvinnuskiptinguna í landinu. Stórþjóðirnar, eins og t.d. Bretar og Bandaríkjamenn, geta sagt mánaðarlega um það, hve margir eru atvinnulausir í landi þeirra, en við, sem erum að byggja upp atvinnulíf okkar, látum okkur þetta litlu skipta.

Með því að leggja nú til, að vinnumiðlunarskrifstofurnar hætti að njóta stuðnings ríkissjóðs, er hætt við, að þær leggist algerlega niður hjá mörgum bæjarfélögum. Á þennan hátt er kippt burtu þeim grundvelli, sem nauðsynlegur er til þess að hagstofan geti gefið út skýrslur um atvinnuskiptingu og atvinnuhættina í heild. Nú má máske segja, að þar sem hagstofan hefur ekki gert þessar skýrslur, þá geri það ekkert til, þótt möguleikinn til að gera þær sé tekinn frá henni. En ég hygg, að nú sé búið að útvega Hagstofu Íslands betri aðstöðu en áður til þess að vinna úr ýmsum skýrslum með vélaafli. Og flutningur þessa máls gefur tilefni til að reyna að koma þessum málum á þann grundvöll, sem lög frá 1928 mæla fyrir. Það er full ástæða til þess að taka nú skrefið áfram og koma okkar skýrslusöfnun í það horf, sem nauðsynlegt er talið hjá siðuðum þjóðum. Það ætti að gera bæjunum að skyldu að hafa vinnumiðlunarskrifstofur, sem söfnuðu skýrslum um atvinnulífið, og sjá svo um, að hagstofan vinni úr þeim, svo að við fengjum að vita a.m.k. 4 sinnum á ári, hvernig ástatt væri í atvinnumálum okkar. Ég vildi skjóta þessu til þeirrar hv. nefndar, sem fær málið til meðferðar, hvort ekki sé rétt, að vinnumiðlunarskrifstofurnar í bæjunum safni skýrslum um atvinnulífið, og hagstofan fái þær svo og vinni úr þeim, svo að við getum vitað sem oftast um tölu atvinnulausra manna í landinu, en ekki verði tekið það spor, sem hæstv. forsrh. gerist hér talsmaður fyrir.