15.12.1950
Neðri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

59. mál, vinnumiðlun

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil svara hv. 5. þm. Reykv. nokkrum orðum. Hann komst þannig að orði, að ég hefði sagt hér á fundinum í gær, að Sjálfstfl. notaði tíma neyðarinnar til að úthluta bæjarvinnunni. Ég sagði þetta ekki. Ég sagði, að það væri álitið, og það var staðfest af kunnugum manni í ræðu rétt áðan, að Sjálfstfl. notaði tíma neyðarinnar til þess að úthluta bæjarvinnunni sér til pólitísks framdráttar. Ég mundi vilja biðja hv. 5. þm. Reykv. að skilja ekki þetta síðasta eftir, þegar hann fer að svara mér um þetta mál. Nú er það svo, að við vitum allir, utan þings og innan, að þetta er gamalt pólitískt mál Sjálfstfl., að reyna að ná vinnuúthlutun til atvinnulausra manna sem mest í hendur bæjarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, — og í hvaða tilgangi er það gert? Er það gert til þess að vera alveg viss um, að vinnunni sé rétt úthlutað, að henni sé úthlutað til þeirra, sem mesta þörf hafa fyrir vinnu? Trúir bæjarstjórnarmeirihlutinn ekki fulltrúum verkamanna eins vel til að gera þetta og sjálfum sér? Ég held, að þessar ástæður séu svo augljósar, að það þurfi ekki að rekja þær frekar. Það er ákveðinn tilgangur með þessu, eins og hv. 6. þm. Reykv. lýsti hér svo átakanlega áðan eftir margra áratuga dvöl hér í Reykjavík, og bæjarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hefur nú loks fengið Framsfl. til þess að gera þessa breyt. Af því að hv. 1. þm. Rang. var rétt áðan að tala um það, hve kært hefði verið með mér og Sjálfstfl. meðan ég sat í ríkisstj. með ráðh. Sjálfstfl., þá vildi ég segja honum, að það var mjög af hálfu Sjálfstfl., meðan þessi stjórnarsamvinna var, sótt fast eftir að fá slíka breyt., sem nú er fram borin og Framsfl. beitir sér fyrir. En þrátt fyrir þá miklu kærleika, sem voru milli mín og Sjálfstfl., þá var aldrei léð máls á að framkvæma slíkt óþurftarverk gegn verkalýðnum í Reykjavík.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist nokkuð á ástæðurnar fyrir því, að málfundafélagið Óðinn var stofnað á sínum tíma, og hv. þm. hélt því fram, að málfundafélagið Óðinn hefði verið stofnað vegna þess að Alþýðusambandið hefði verið pólitískt. Nú er það svo, að því hefur oft verið haldið fram af andstæðingum Alþfl., að Alþfl. hafi notað verkalýðshreyfinguna og stofnað hana sér til pólitísks framdráttar. Fyrir þá, sem kynnu að trúa þessu, er rétt að geta þess, að þegar Alþýðusambandið fyrst var stofnað, þá var það pólitískt, en það var verkalýðsfélagið í Reykjavík, sem stofnaði Alþfl., en ekki Alþfl., sem stofnaði til Alþýðusambandsins. Þetta vildi ég biðja hv. 5. þm. Reykv. að leggja sér á minni, svo hann fari ekki með staðreyndir, sem stangast allar við þann sögulega veruleika. Verkalýðsfélögin töldu, að þau gætu ekki komið málum sínum fram fyrir tilstuðlan þeirra pólitísku flokka, sem þá störfuðu í landinu, og stofnuðu þess vegna Alþfl., en Alþfl. ekki verkalýðsfélögin. — Hitt er svo kunnugt, að verkalýðsfélagið Óðinn var á sínum tíma stofnað fyrir áhrif, sem mjög gengu þá yfir álfuna, svokallaðar „vinnufylkingar“, sem var alþekkt frá nazistum í Þýzkalandi. En hafi á sínum tíma verið eðlilegt, að Óðinn starfaði, af því að verkalýðsfélögin hafi verið pólitísk, þá var líka eðlilegt, að Óðinn væri lagður niður um leið og Alþýðusambandinu var breytt og það tilheyrði ekki neinum stjórnmálaflokki. Sjálfstfl. hefur hins vegar kosið, einn allra flokka, að halda uppi pólitískri starfsemi og pólitískum félagsskap innan verkalýðshreyfingarinnar, og Alþfl. hefur ekki minni kröfu að gera til Sjálfstfl., um að hann leggi niður þennan pólitíska félagsskap innan verkalýðsfélaganna, heldur en Sjálfstfl. hafði á sinum tíma til þess að krefjast þess, að Alþýðusambandið yrði óháð pólitískum flokkum. [Frh.]