15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

59. mál, vinnumiðlun

Finnur Jónsson [frh.]:

Í svari mínu til hv. 5. þm. Reykv. benti ég á, að hvað sem menn segðu, þá hefði átt sér stað pólitískur félagsskapur innan verkalýðsfélaganna, en óeðlilegt væri að halda slíkum félagsskap áfram, eftir að búið væri að gera þá breyt., sem gerð hefur verið á Alþýðusambandi Íslands. Vitanlega er Óðinn innan verkalýðsfélaganna. Þetta hefur verið deild verkamanna í Dagsbrún, og hvað sem hver segir, þá er það félag stofnað til að eftirlíkja vinnufylkingu þá, sem Hitler á sínum tíma setti í gang í Þýzkalandi. Ég er ekki að segja, að félagið hafi síðan starfað í þeim anda, en af íhaldsmönnum þeim, sem stofnuðu þetta félag, var það tilætlunin.

Hv. þm. var að tala um, að það hefði ekki hafzt mikið upp úr vinnumiðlunarskrifstofunni. Mér er kunnugt um starfsemi einnar slíkrar skrifstofu, og hún var þannig, að þessi skrifstofa gat gefið bæjarstj. upp eða verkalýðsfélaginu, hvað margir menn væru atvinnulausir og hvaða tekjur verkamenn hefðu haft, það sem af var árinu. Þetta var gert upp mánaðarlega og starfi skrifstofunnar hagað samkvæmt reglugerð, sem gefin hafði verið út af ríkisstj. Hitt er svo annað mál, að hagstofan hefur á undanförnum árum verið langt á eftir tímanum með svona skýrslur, þannig að sá hagfróðleikur, sem menn í öðrum löndum telja sér nauðsynlegt að fá á hverjum tíma, hefur venjulega ekki legið fyrir nema á margra ára fresti og þá sem eins konar sögulegur fróðleikur. Nú er búið að gera þá breyt. á hagstofunni, að hún er búin að fá fullkomnar og góðar vinnuvélar og mun því geta unnið úr slíkum skýrslum á þeim tíma, sem talinn væri hæfilegur án ýkjamikils tilkostnaðar. En þegar búið er að gera hagstofunni kleift að vinna úr þeim skýrslum, sem hver menningarþjóð telur sér nauðsynlegt að fá um sitt atvinnuástand, þá telja stjórnarfl. sér sæma að flytja frv. á Alþingi um að kippa grundvellinum undan því, að slíkum skýrslum sé safnað.

Ég fór nokkrum orðum um það í gær, hversu nauðsynlegt aðrar þjóðir teldu sér að hafa glöggar vinnuskýrslur og vinna úr þeim, bæði vegna verkalýðsins og þjóðfélagsins í heild, en það er vitanlegt, að það er ekkert vit í því eða réttlæti að láta vanta menn í eina atvinnugrein í þjóðfélaginu, en hafa of marga í annarri, svo að ekki sé safnað skýrslum, sem eru undirstaða undir því, að hægt sé að hafa áhrif á, að vinnuaflið sé hagnýtt á þann hátt, sem þjóðfélaginu og verkalýðnum er fyrir beztu. Mér þykir leitt að geta ekki sannfært hv. 1. þm. Rang. um þetta, en ég er vonlaus um að geta það, því að hann skilur hvorki upp né niður í þessum málum. Þær ræður, sem hv. þm. hefur hér flutt, hafa borið vott um, að hann vill ekki, eins og hann er þó greindur og skilningsgóður, hleypa hér neinum skilningi að. Hann er búinn að taka að sér að verja vondan og óréttmætan málstað á Alþingi. Og þá finnst honum eins og gömlum og góðum glímumanni, að sjálfsagt sé að reyna að standa, hvernig sem hann þarf að bolast til þess.

Hv. 1. þm. Rang. var að blanda ríkisútvarpinu inn í þetta mál. Og það vill nú svo til, að sú till., sem alþýðuflokksmenn fluttu um útvarpið, var ekki um að rannsaka ríkisútvarpið og fjármál þess, heldur um nefndarskipun til þess að athuga, hvort ekki væri hægt að fá meira fé til dagskrár útvarpsins. Í allshn. kemur einn ágætur þm. með till. um að bæta við till., að n. athugi um leið, hvort ekki sé hægt að koma þar við almennum sparnaði. Nú hefur hv. 1. þm. Rang. verið að dylgja um það, að þetta hefði verið flutt af alþýðuflokksmönnum vegna þess, að þarna séu ekki margir alþýðuflokksmenn í stofnuninni. En till. um athugun á þeim almenna sparnaði var ekki flutt af alþýðuflokksmönnum, heldur einum ágætum flokksmanni hv. frsm., hv. 1. þm. Árn. Hann lét þess getið, að hann, sem í mörg ár hefur verið endurskoðandi ríkisreikninganna, teldi rétt að láta þessa athugun fylgja till., sem alþýðuflokksmenn hafa borið fram. Ummæli hv. 1. þm. Rang. um það, að alþýðuflokksmenn hafi eitthvað sérstaklega verið að bekkjast til við útvarpið með sinni till., af því að þar séu svo fáir alþýðuflokksmenn, eru því algerlega ósæmileg og hitta fyrst og fremst hans eigin flokksmann, hv. 1. þm. Árn., ef þau hitta nokkurn mann, en ég vil ekki segja, að þau geri það, vegna þess að ég veit ekki annað en hv. 1. þm. Árn. hafi flutt þessa till. um sérstaka athugun á fjárstjórn útvarpsins algerlega áreitnislaust gagnvart nokkrum manni eða stjórnmálaflokki. Og sízt mundi hann sjálfur átt að hafa þann hugsunarhátt, sem hann ekki hefur, en hv. 1. þm. Rang. vill eigna okkur alþýðuflokksmönnum, og enn síður ætti hann að vilja bekkjast til við þessa stofnun, ríkisútvarpið, því að þaðan er mér sagt, að hafi komið einn maður á flokksþing Framsfl., eftir að hann hafi verið lengi villtur á villigötum kommúnista.

Sami ógeðslegi hugsunarhátturinn kom fram hjá honum, þegar hann var að drótta því að okkur alþýðuflokksmönnum, að við mundum vilja halda við ríkisstyrktri vinnumiðlunarskrifstofu, af því að við ættum svo marga menn þar í vinnu. Ég vil segja honum það, að þær 100 þús. kr., sem veittar eru til vinnumiðlunar frá ríkinu, eru ekki feitur biti handa mörgum mönnum, a.m.k. mundi hvorki ég né hv. 1. þm. Rang. fitna af þessu, ef allar vinnumiðlunarskrifstofurnar skiptu þessu milli okkar. En hv. þm. er með þessar ógeðslegu dylgjur í sambandi við þetta mál, sem er hvorki beina- né bitlingamál, heldur stórt þjóðfélagsmál, sem færi betur, að hv. 1. þm. Rang. vildi einhvern tíma skilja. Hér er ekki um það að ræða, að einhverjir menn á vinnumiðlunarskrifstofu verði atvinnulausir, heldur hvort ríkið á að hafa afskipti af þessu máli og sjá um, að hægt sé að fá glöggt yfirlit um atvinnuástandið á hverjum tíma. — Ég hefði gjarnan viljað óska, að hæstv. forsrh., sem er vanur að vera hér mjög þaulsætinn, gæti verið hér viðstaddur, en hann virðist nú horfinn úr d. Ég hefði viljað, að hann væri hér, meðan við ræðum þetta mikilsverða mál, sem kostar ríkissjóð lítið fé, en getur kostað verkalýðinn og þjóðfélagið stórfé.

Ég fer að láta máli mínu lokið, en fyrst hæstv. forsrh. er kominn í sæti sitt, vil ég láta í ljós undrun mína og hryggð yfir því, að hann skuli hafa gerzt til að flytja þetta frv. hér inn í þingið. Ég vil ítreka þau tilmæli, sem fram hafa komið frá Alþfl. áður, að taka þetta mál til nýrrar athugunar, láta þessa starfsemi nú ekki niður falla, heldur safna fullkomnum atvinnuskýrslum um alla atvinnuhætti landsmanna, eins og gert er hjá öðrum menningarþjóðum. Hagstofan með þeim möguleikum, sem hún hefur til að vinna úr þessum skýrslum, vinnur úr þeim á svo traustan hátt, að það geti komið að gagni fyrir ríkisstj. og aðra, sem vilja athuga um atvinnuástandið á þjóðfélaginu.

Hv. 1. þm. Rang. var að bjóða mér skiprúm á stjórnarskútunni, að mér skildist, með þeirri ágætu skipshöfn, sem þar væri nú til að halda landinu á floti. Þetta var ákaflega vel boðið, eins og hv. þm. var von og vísa. En ég verð að harma það, að ég get ekki tekið þátt í þessari siglingu. Og ástæðan er sú, að mér virðist hæstv. stj. ekki fara þannig að, að hún hagi sér þannig, að hún sé að halda ríkisskútunni á floti. Mér virðist þvert á móti, að sigling stjórnarskútunnar minni helzt á eina alþekkta ferð mótorskipsins Leó til Snæfellsnesshafna. Hún var á þá lund, að eigandinn lét bora göt á skipið. Mér virðist þjóðarskútan vera orðin lek og á hana sé að koma æ meiri slagsíða, án þess að reynt sé að bæta úr, og mér virðist, eins og öllu er stýrt nú, að allt hljóti að fara í kaf innan skamms. Ég get því ekki tekið því ágæta boði hv. 1. þm. Rang. að taka þátt í slíkri siglingu.