15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

59. mál, vinnumiðlun

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég hef af ýmsum ástæðum, sérstaklega af því, að ég hef verið bundinn við umr. í Ed. öðru hverju, minna getað verið við þessar umr. en ég hafði ætlað að vera, og mun ég því ekki mjög blanda mér inn í þær umr., sem orðið hafa um málið. En mér hefur virzt, þegar ég hef komið að umr., að þær hafi fjallað ekki nema að nokkru leyti um það frv., sem hér liggur fyrir, heldur væru þær hálfgerðar eldhúsdagsumr., sem nú er búið að losa okkur við fram yfir áramót. Ég vil ekki blanda mér inn í það atriði. Ég vil hins vegar segja örfá orð um málið sjálft. Það var að vísu gert við 1. umr., og þarf því ekki að segja mikið um það nú.

Því er mjög á lofti haldið, að þetta frv. sé mikil fjörráð við verkalýðinn. En það er nú orðin nokkuð löng reynsla af þessum vinnumiðlunarskrifstofum. Og reynslan er sú, þegar frá er tekinn einn staður, höfuðstaðurinn sjálfur, þá hefur gagnið af þessari löggjöf orðið afskaplega lítið. Og mér finnst þetta eðlilegt. Ég skil ekki, að á þeim stöðum, þar sem eru 2–3 þús. manns, þurfi sérstaka vinnumiðlunarskrifstofu til þess að fylgjast með atvinnuástandinu, það sé nokkuð annað, sem þurfi að gera til þess að atvinnulífið sé þar með eðlilegum hætti, eftir því sem möguleikar leyfa. Þetta er hlutur, sem bæjarstj. og starfsnefndir bæjanna geta auðveldlega gert, enda er það svo, að það mun hvergi nema í Reykjavík vera það, sem kalla mætti skrifstofu, sem annast þetta starf, heldur fer framlag ríkisins til bæjarstjórnanna, og þær sjá um þetta, og er þetta fé þá nánast styrkur til þeirra til að leysa þetta starf af hendi. En í Reykjavík er þetta svo, að þar hafa verið starfandi tvær skrifstofur, sem er alger ofrausn, enda ástæðulaust að láta svo vera, ef það er þá ekki einu sinni sæmileg samvinna milli þessara stofnana, sem ég skal ekki segja um, ég þekki það ekki, en hitt er vitað, að það er alltaf einhver togstreita hér í höfuðstaðnum um þessa starfsemi og ekki það samband á milli, sem vera ætti. Út frá þessu sjónarmiði er þetta frv. flutt — og eingöngu þessu.

Ég skal viðurkenna það, sem ég held, að hv. þm. Ísaf. hafi sagt, að það er ekki hægt að gera mjög mikið úr sparnaðinum við þessa breyt. Hér er aðeins um 100 þús. kr. að ræða, og það er upphæð, sem veltir ekki miklu. En það er þetta skipulagsleysi sem mér finnst ástæða til að breyta. (FJ: Væri þá ekki réttara að lagfæra skipulagið heldur en afnema það?) Ég kem að því síðar.

Það kom fram hjá andmælendum þessa máls, að með þessu ætti að hafa í frammi einhverja atvinnukúgun. Þeir, sem slíku halda fram, verða að gera það upp við sig, hvort það muni vera mikil hætta á því, þó að aðeins ein vinnumiðlunarskrifstofa sé starfandi á hverjum stað. Það ætti þá helzt að vera það, að bæjarstjórnarmeirihl. hér, sem er ekki mjög stór, beitti einhverri slíkri kúgun í þessu efni, en ég verð að segja, að ég hef ekki mikla trú á slíku, allra sízt þegar litið er á það skipulag, sem gert er ráð fyrir í 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar sé skipuð fimm mönnum, þrír skuli kosnir hlutfallskosningu af bæjarstjórn, og hefur minni hl. þá ávallt möguleika á því að koma þar að einum manni, því að ég get ekki ímyndað mér, að alþýðuflokksmenn séu hræddir um, að þeir tapi svo fylgi, að þeir geti ekki komið þar að einum manni með hlutfallskosningu. Þeir eiga því að geta verið öruggir hvað það snertir. Auk þess eiga að vera tveir aðrir menn í stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar, annar tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands eða fulltrúaráði verkalýðsfélaganna innan Alþýðusambands Íslands, en hinn af félagi atvinnurekenda á staðnum. Ég álít, að gegnum þessa stjórn hljóti að vera hægt að hafa þau ítök frá öllum aðilum, að allur grunur um misbeitingu ætti að vera úr sögunni.

Það hefur komið fram skrifl. brtt. um, að stjórnin sé ólaunuð. Ég álít það út af fyrir sig ekki stórt atriði og mun að svo stöddu ekki segja neitt um það, en ég legg áherzlu á, að þessi skipan verði höfð á um stjórn stofnunarinnar, eins og ráðgert er í 6. gr. frv. Er það með það fyrir augum, að á þann hátt geti öll sjónarmið komið fram frá hálfu verkalýðssamtakanna og fulltrúa þeirra og atvinnurekenda hins vegar og bæjarstj. sjálfrar, sem rekur skrifstofuna og kostar hana og hefur meiri hl. í stj. Annað tel ég ekki sæmilegt og tel það eitt meginatriði þessa máls. Þá eru ákvæði um það í 8. gr. frv., að hægt sé að koma á meiri vinnumiðlun og jafnvel nokkurs konar kerfi úti um land, þegar rn. telur þörf fyrir og nauðsyn ber til að gera slíka hluti. Mér virðist því mjög sæmilega séð fyrir þessu í frv., eins og það er. Ég á því dálítið erfitt með að skilja það ofstæki, sem hefur gripið suma menn, sem hafa talað um þetta mál eins og einhverja sérstaka árás á verkalýðinn og fjandskap gegn honum. Mér virðist það svo fjarstætt sem nokkuð getur verið. Hér er aðeins verið að koma heppilegra skipulagi á mál, sem hefur verið í ólestri og enginn hefur neitað að væri með þessum tveimur skrifstofum í Reykjavík, sem ekkert samband hafa sín á milli. Það er skipulag eða skipulagsleysi, sem einhvern veginn verður að bæta úr, það er ég viss um, að hv. 3. landsk. þm. viðurkennir frekar en flestir aðrir. Hann hefur nú ásamt flokksbræðrum sínum hér í deildinni borið fram sérstakt frv., sem koma á í staðinn fyrir vinnumiðlunina. Það er að vísu virðingarvert að reyna að gera tilraun til þess að koma einhverju skipulagi á þessi mál, og skal ég athuga við umr. þess, hvað gott er í því, en mér sýnist við fljóta yfirferð á því, að það geri ráð fyrir nokkuð stórri stofnun. Annars skal ég ekki fjölyrða um þetta frv. að svo komnu máli.

Ég ætla nú að snúa mér að hv. 3. landsk. viðvíkjandi einu atriði, sem hann ræddi hér um í sinni ræðu og lagði mikið upp úr. Hann vildi halda því fram, að það væri óheimilt að gera þessa breytingu vegna samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hann viðurkennir að vísu, að við séum ekki bundnir þessari samþykkt, vegna þess að Alþingi hefur ekki samþ. hana, en heldur því hins vegar fram, að ráðh. hafi vanrækt að leggja hana fyrir þingið og gert sig að því leyti til brotlega við þessa stofnun. — Þetta er hin mesta firra. Hún hefur einmitt verið lögð hér fram á Alþingi, og vænti ég þess, að hv. þm. hafi fengið þingskjalið eins og aðrir þingmenn. Ríkisstjórninni er aðeins skylt að tilkynna hv. þingmönnum samþykktir stofnunarinnar, og hvaða þm. sem er getur svo borið það fram, en ríkisstj. er engan veginn skyldug til þess. En hefði ríkisstj. hins vegar vanrækt að tilkynna þessa samþykkt, þá mætti segja, að hún hefði gerzt brotleg, en mér er kunnugt um, að þessu er einmitt svona háttað í flestum löndum. Skylda ríkisstj. nær til þess eins að leggja þetta fyrir Alþingi, til þess að hver þingmanna sem vill geti sett það fram í frv.-formi. — Ég vildi aðeins leiðrétta þetta, vegna þess að hv. þm. gerði mikið úr þessu atriði.

Hv. þm. Ísaf., sem reyndar er ekki við hér sem stendur, talaði um það, að ríkisstj. væri að bora fleiri og fleiri göt á þjóðarskútuna. En mér er óhætt að fullyrða, að ef mörg göt hafa verið boruð á þjóðarskútuna í tíð þessarar stjórnar, þá voru þau ekki færri, þegar hv. þm. og hans flokksmenn stóðu við stýrið, — en mér finnst annars bezt að ræða þetta mál með rökum, en ekki sleggjudómum út í loftið.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að þessu sinni. Það er sýnilegt, að það siglir engan hraðbyr hér í deildinni og að það verður ekki að lögum fyrir þinghlé, en ég get ekki tekið ráðleggingu hv. þm. Ísaf. þess efnis, að íhuga málið vandlega aftur og taka svo frv. aftur. Ég hef lýst því áliti mínu, hvers vegna þetta eigi fram að ganga, og umr. hafa ekki breytt skoðun minni.