15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

59. mál, vinnumiðlun

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það virðist enginn þeirra þremenninganna, sem helzt hafa haldið hér uppi andúð gegn þessu frv., vera viðstaddur, og verð ég því að láta skeika að sköpuðu um það, hvort þeir heyra mál mitt eða ekki.

Hv. 6. þm. Reykv. (SG), sem gegnir því starfi jafnframt að vera form. í stærsta verkamannafélagi landsins, sem sé verkamannafélaginu Dagsbrún, hélt áðan ræðu um þetta mál og kom þó lítið nálægt meginefni málsins. Aðaluppistaðan í ræðu hans var árás á eina stofnun Reykjavíkurbæjar, ráðningarstofuna. Hann fullyrti að hún væri pólítískt misnotuð af meiri hl. bæjarstj. og að fjöldi verkamanna hefði orðið fyrir uppsögn atvinnu án tillits til verkhæfni, heldur aðeins af pólitískum ástæðum, og sagðist hann tala hér af þekkingu, bæði sem form. Dagsbrúnar og einnig af því að hafa sjálfur orðið fyrir pólitískum ofsóknum af hálfu ráðningarstofunnar.

Út af þessum fullyrðingum hv. 6. þm. Reykv. hef ég leitað mér upplýsinga hjá ráðningastofunni að því er hann sjálfan snertir persónulega. Að þeim fengnum kemur í ljós, að hann hefur aldrei, hvorki fyrr né síðar, leitað til ráðningastofu Reykjavíkurbæjar um vinnu í þau 17 ár, sem hún hefur starfað, og að hún hefur aldrei komið nálægt hans atvinnumálum, hvorki að því er snertir ráðningu eða uppsögn. Það er því enginn fótur fyrir fullyrðingum hans um að hafa orðið fyrir barðinu á þeirri stofnun vegna pólitískra skoðana. Hins vegar hef ég fengið upplýsingar um það, að þegar haldið var uppi atvinnubótavinnu af bænum, mun bæjarverkfræðingur hafa ráðið þennan mann sem flokksstjóra eða verkstjóra, en hversu lengi, veit ég ekki. En við þær athuganir, sem ég lét fara fram, hefur það eitt komið í ljós, sem bendir til þess, að fullyrðingar hans séu staðlausir stafir með öllu.

Ég verð líka að segja það, að ef eitthvað væri til í því, sem hann hélt fram, hefði mátt búast við, að einhvern tíma hefði komið hljóð úr horni um þessi mál í bæjarstj. Ég hef setið í bæjarstj. í 12 ár og hef aldrei heyrt, að ráðningastofan beitti verkamenn pólitískum ofsóknum, og allir, sem ég hef spurt, hafa aldrei heyrt á þetta minnzt, fyrr en hann ber þessi ósannindi fram í þingsölunum.

Að því er snertir þau ummæli hv. 6. þm. Reykv., að ráðningaskrifstofan væri pólitískt verkfæri Sjálfstfl. og að það væri undantekningarlaust álit verkamanna, að hún beitti verkamenn hlutdrægni, sem væru í andstöðu við Sjálfstfl., þá virðist mér, að á þessu ári hefðu a.m.k. einhvern tíma átt að koma fram umkvartanir um slíkt til bæjarstj., bæjarráðs eða borgarstjóra. Mér vitanlega hafa slíkar umkvartanir aldrei komið fram, og hefði minni hl. bæjarstj. getað borið fram kvörtun yfir, ef það væri rétt, að það væri undantekningarlaust álit verkamanna, að hér sé um pólitíska hlutdrægni að ræða. — En það er annað, sem mér virðist koma hér fram. Hv. 6. þm. Reykv. hefur í 8 ár verið form. Dagsbrúnar, stærsta verkamannafélags landsins, og ef um svona svívirðilega vinnuúthlutun er að ræða hjá bænum, hefði hann fyrr átt að láta þetta mál til sín taka sem fulltrúi og trúnaðarmaður þessara samtaka. Hann hefur aldrei komið til bæjarstj., bæjarráðs eða mín út af umkvörtunum yfir, að menn hans í Dagsbrún væru beittir pólitísku misrétti af ráðningastofunni. Hann hefur komið að máli við mig út af öðru máli. Þegar rekstur stærsta verkstæðis bæjarins, áhaldahúss bæjarins, var endurskipulagður, kom í ljós, að hægt væri að spara þar mikið mannafl með því að fækka þar um 12 menn. Þá kom hv. 6. þm. Reykv. til mín og fór fram á að halda öllu í sama horfinu, þótt sannazt hefði, að unnt væri að koma sparnaði við í þessum rekstri. Mér finnast það ákaflega furðuleg vinnubrögð af þessum hv. þm., sem er þm. Reykv., að beina ekki umkvörtunum sínum til réttra aðila, þ.e. bæjarstj., en að koma hér inn á Alþ. með árásir á bæjarstj. Reykjavíkur, sem að því er hann snertir er hægt að sanna, að er fleipur eitt.

Hins vegar koma þessar ásakanir og gagnrýni frá manni, sem styður þann stjórnmálaflokk, sem á þá ósk heitasta að koma á hér á landi alræði eins flokks og vill afnema allt skoðanafrelsi og málfrelsi, en vegna þeirra ummæla, sem hann lét hér falla, taldi ég nauðsynlegt að svara hans tilefnislausu árásum, og mun ég nú fara örfáum orðum um frv. sjálft.

Hv. 3. landsk. þm. (GÞG) og hv. þm. Ísaf. (FJ) telja, að með þessu frv. sé verið að stíga stórt skref aftur á bak í félagsmálum; hér sé um enga sparnaðarviðleitni að ræða og tilgangurinn með því sé að gefa bæjarstj. yfirráð yfir vinnumarkaðnum. Við skulum athuga, hvernig þessu er varið í Reykjavík. Hér starfar ráðningastofan, sem heyrir undir bæjarstj. og er kostuð af henni. Önnur stofnun starfar hér á sama sviði, sem haldið er uppi vegna lagaboðs, vinnumiðlunarskrifstofan í Reykjavík, og hefur hún sáralítið verkefni, en kostar helmingi meira en ráðningastofa Reykjavíkurbæjar. Hvað vinnst með samþykkt þessa frv.? Hér verður þá starfandi aðeins ein vinnumiðlunarskrifstofa. Í fyrsta lagi sparast með því stórfé, bæði fyrir bæjarsjóð og ríkissjóð, þannig að gera má ráð fyrir, að með þessari sameiningu muni kostnaðurinn verða helmingi minni en nú er fyrir báða þessa aðila. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að starf þessarar einu stofnunar verði miklu ábyrgðarríkara. Það er mjög óheppilegt að hafa 2 stofnanir á sama stað, sem hafa með höndum sama verkefni, og það er allra dómur, að verkefnin vinnist miklu betur með því að hafa eina stofnun heldur en tvær. Í stað þessara tveggja skrifstofa mundi sem sé koma ein, og eftir frv. yrði hún ekki eingöngu undir bæjarstj. Reykjavíkur, eins og nú er, heldur er gert ráð fyrir, að stj. hennar skuli skipuð 5 mönnum, 3 skulu kjörnir af bæjarstj. með hlutfallskosningu, einn tilnefndur af verkalýðsfélagi og einn af félagi atvinnurekenda.

Munurinn á þessari skrifstofu eins og hún er fyrirhuguð í frv. og vinnumiðlunarskrifstofunni, sem nú starfar, er sá, að í yfirstj. hennar kýs bæjarstj. þrjá menn í stað tveggja, og kemur þriðji maðurinn í stað fulltrúa ráðh. Hér er um það að ræða, að í fyrsta lagi sparast með þessu fé fyrir ríkissjóð og bæjarsjóð, í öðru lagi kemst á betra skipulag og heppilegri vinnubrögð og í þriðja lagi fær bæjarstj. Reykjavíkur með hlutfallskosningu kjörna þrjá menn í stj. í stað tveggja áður; bæjarstj. ræður m.ö.o. meiru en áður, sem eðlilegt er, þar sem hún ber kostnaðinn, og er því furðulegt, að þm. Reykv. berjist á móti því, að Reykjavík fær meiri völd en áður í þessum efnum.

En mesta rökvilla hv. 6. þm. Reykv. er sú, að eftir að hann er búinn að lýsa yfir, að ráðningastofa Reykjavíkurbæjar sé ekkert annað en pólitískt verkfæri, þá vill hann, að þetta frv. verði drepið, þótt það geri ráð fyrir, að í stj. vinnumiðlunarskrifstofunnar eigi sæti fulltrúi verkamanna, og vill hann drepa málið til þess að það ástand, sem hann lýsti, haldi áfram.

Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, því að rökin gegn því eru svo gersamlega haldlaus. — Að vísu mætti segja, að eðlilegt væri, að ríkissjóður legði fram fé til þessara mála, en ég get vel fallizt á það, að bæjarsjóður standi fyrst og fremst undir kostnaðinum og sérstaklega með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur þann hálfan annan áratug, sem þessi starfsemi hefur hér verið rekin, að heppilegast er að fara þá leið, sem hér er lagt til, því að afskipti ríkisvaldsins af þessum málum hafa aðeins orðið til að gera vinnuskipulagið erfiðara og kostnaðinn meiri fyrir ríkissjóð og bæjarsjóðina.

Ég tel ekki þörf á að svara ýmsum þeim einstöku atriðum, sem hér hafa komið fram og hafa verið mjög utan við málið. — Hv. þm. Ísaf. vitnaði í síðustu ræðu sinni í þann góða mann, hv. 6. þm. Reykv., og vildi strika undir hans ummæli. Þeim hefur nú verið svarað og hv. þm. Ísaf. að því leyti einnig Hann réðst hér á félag sjálfstæðra verkamanna, Óðin, og krafðist þess, að það yrði lagt niður. Það er öllum vitanlegt, að það félag er fyrst og fremst stofnað til að auka lýðræðið innan verkamannasamtakanna, og það kemur því nokkuð úr undarlegri átt, þegar hv. þm. Ísaf., sem hefur verið mikill áhrifamaður í sínum flokki, telur Óðin hafa verið stofnaðan með atferli nazistanna sem fyrirmynd. Það hefur verið vitnað í einræðisbrölt í verkalýðshreyfingunni hér á landi, sem svipar til þess, þegar Alþfl. reyndi að svipta þá menn réttindum, sem vildu ekki skrifa undir yfirlýsingar hans, og það var fyrst og fremst gegn slíku ofbeldi, sem sjálfstæðisverkamenn stofnuðu sinn félagsskap. En þegar hv. þm. Ísaf. heimtar, að félag sjálfstæðisverkamanna sé lagt niður, þá er ég hræddur um, að afnám þess félags mundi koma illa niður á hans flokki, Alþfl., því að ég veit ekki betur en að áhrif Alþfl. í verkalýðssamtökunum byggist á því, að sjálfstæðir verkamenn hafa bundizt samtökum við Alþfl. til að hrinda áhrifum kommúnista. Hv. þm. Ísaf. ætti því að tala varlega um að heimta, að þessi félagsskapur verði lagður niður, því að slíkt mundi kannske fyrst lenda á Alþfl. sjálfum.

Ég tel ekki þörf á að ræða þetta mál frekar, því að það hefur verið skýrt bæði af hæstv. forsrh., hv. 5. þm. Reykv., frsm. n., hv. 1. þm. Rang., auk þess sem ég tók fram við 1. umr. málsins.