15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

59. mál, vinnumiðlun

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls átti ég orðaskipti við hæstv. forsrh. og einnig við hv. 7. þm. Reykv. Ég tel ekki sérstaka ástæðu til þess að skipta mér af þeim umr., sem fram hafa farið í deildinni, enda þau rök flutt af fulltrúum míns flokks, hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf., sem fullnægjandi eru. Ég tel þó rétt að segja nokkur orð um þetta mál. Þó hæstv. fors- og félmrh. sé fjarstaddur, vafalaust önnum kafinn við önnur mikilvægari störf, þá vil ég víkja örfáum orðum að þeirri stuttu ræðu, sem hann hélt hér fyrir kaffihlé, einkum fyrir þær sakir, að mér fannst hæstv. ráðh. hafa merkilega fátækleg rök að flytja til stuðnings þessu máli, miklu fátæklegri en ég gæti búizt við af honum og þeim kynnum, sem ég hef haft af málflutningi hans. Rök hans voru eiginlega þau, að löggjöfin um vinnumiðlun hefði verið mjög lítið notuð til þessa og þörf væri endurbóta, þess vegna væri till. fram komin. Ég skal að vísu játa, að þessi löggjöf um vinnumiðlun, sem sett var 1935, hefur ekki verið notuð eins mikið og búast mætti við, en þær ástæður eru til þess, að á undanförnum 10 árum hefur ástandið verið þannig, að ekki hefur verið hörgull á vinnu fyrir verkamenn, þar sem meiri eftirspurn hefur verið en framboð á vinnuafli; af því leiðir, að vinnumiðlunarskrifstofan hefur verið minna notuð en ella. En nú er útlitið þannig, að búast má við umskiptum í þessu efni, og víða er þegar kominn í ljós skortur á vinnu, og þá kemur aukið og nýtt verkefni fyrir vinnumiðlunarskrifstofu til að fullnægja hlutverki sínu. Ég held því, að þessi rök hæstv. ráðh. séu lítilsvirði, sérstaklega þegar þess er gætt, að frv. er þannig vaxið, að búast má við, að dregið verði úr vinnumiðlun eftir að löggjöfin er komin á, og muni því heldur auka vandkvæðin en hitt. Mér finnast rök hæstv. forsrh. mun veikari en mætti búast við af honum og undirstrika það, að hann hafi hvorki vilja né sannfæringu til að stuðla að framgangi þessa máls, enda þótt hann af einhverjum ástæðum hafi gerzt hvatamaður að flutningi þess.

Þeir, sem hafa kynnt sér ályktanir þings alþjóðavinnumiðlunarsambandsins, sem það gerði fyrir 2 árum geta ekki dregið í efa, að þær samþykktir, sem það gerði, ganga í öfuga átt við það, sem þetta frv. gerir. Í upphafi þessarar umr. færði hv. 3. landsk. fyrir þessu fullgreinileg rök, enda má það augljóst vera, þar sem allir hv. alþm. hafa átt þess kost að kynna sér samþykktir þess og vafalaust allir gert það, þar sem þeim var útbýtt hér á hv. Alþingi sem þskj. Nú er það að vísu svo, eins og tekið hefur verið fram, að þessar ályktanir alþjóðavinnumiðlunarþingsins hafa ekki verið fullgiltar af Alþingi og hæstv. ríkisstj. ekki séð ástæðu til að fara fram á slíka fullgildingu, en ég hafði haldið, að það væri af þeirri ástæðu að þegar voru í gildi l. á Íslandi um þessi efni og þess vegna ekki brýn ástæða til fullgildingar samþykktanna. Mér er kunnugt, af svolítilli nasasjón af störfum alþjóðavinnumiðlunarsambandsins að sá háttur er víða hafður á, að þátttökuríki fullgilda samþykktir þess á þingi, en þar sem til eru l. í aðalatriðum í samræmi við þessar ályktanir, er auðvitað ekki knýjandi ástæða til fullgildingar. Ég leit svo á, er hæstv. ríkisstj. lét leggja þessar samþykktir fyrir Alþingi sem þskj., að hún teldi gildandi löggjöf í höfuðatriðum í samræmi við þessar samþykktir, og þyrfti því ekki löggildingar við. En svo skeður það, að ríkisstj. flytur frv., sem er í beinni andstöðu við samþykktir þessar, eða a.m.k. stórt spor aftur á bak. Þegar þess er gætt, að við áttum fulltrúa á þessu þingi, er galt samþykktum þess jáyrði sitt, þá er það vafalaust siðferðislega rangt fyrir þátttökuríki í alþjóðavinnumiðlunarsambandinu að leggja fram frv , sem gengur í öfuga átt við þær samþykktir. Ég tel að það sé a.m.k. siðferðislega rangt af hálfu ríkisstj., eftir að við erum aðilar að samþykktum alþjóðavinnumiðlunarsambandsins, að setja slíka löggjöf.

Ég þarf ekki að minna á þau atriði, sem þeir köstuðu á milli sín, hv. þm. Ísaf. og hæstv. forsrh., um það að bora gat á þjóðarskútuna, en vil ekki inn á þau fara. Hins vegar get ég ekki neitað því, að mér virðist ríkisstj. vera að bora göt á félagsmálalöggjöf landsins með flutningi þessa frv. og öðrum slíkum, t.d. um breyt. á l. um almannatryggingar virðist mér hún vera með ráðnum hug að bora göt á félagsmálakerfið í heild. Út af þeim umr., sem orðið hafa út af rekstri ráðningarskrifstofu Reykjavíkur og starfsemi málfundafél. Óðins, þá verð ég að undrast þau ummæli varðandi Óðin, að það félag hafi verið stofnað vegna þess að skipulagi alþýðusamtakanna hafi þurft að breyta með skipulagsbundnum samtökum svo kallaðra sjálfstæðisverkamanna. Ef það hefur verið verkefni félagsins þá er því fullnægt fyrir 10 árum og starfsemi Óðins af þeim sökum ónauðsynleg. Hitt er annað mál, að starfsemi Óðins brýtur síður en svo í bága við íslenzk lög um myndun slíkra félaga. Hins vegar hlýtur menn að greina á um nytsemi þessa félagsskapar fyrir íslenzka alþýðuhreyfingu.

Í sambandi við það, sem hv. 7. þm. Reykv. var að tala um einræðisbrölt Alþfl. í sambandi við skipulag alþýðuhreyfingarinnar, þá má geta þess, að það var með líkum hætti hér og í upphafi annars staðar. T.d. var skipulagið í Svíþjóð eins fyrstu 10 árin, en var þá breytt, vegna þess að það þótti ekki hentugt lengur. Sama hefur þróunin orðið á Íslandi. Við, sem þekkjum sögu íslenzkrar alþýðuhreyfingar, vitum, að í fyrstu tíðkaðist það, að í verkalýðsfélögunum væru eingöngu menn, sem aðhylltust jafnaðarstefnuna, hinir héldu sig utan við þau, og þegar Alþfl. var stofnaður, mynduðu þau kjarna hans. Svo gerðist það æðilöngu síðar, að það var tekið upp í samninga, að þeir menn, sem væru í verkalýðsfélögum, ættu forgangsrétt til vinnu, og þá streymdu menn, sem ekki aðhylltust jafnaðarstefnuna, inn í verkalýðsfélögin. Þangað til mátti segja, að setja mætti ekvalmerki milli verkalýðsfélaganna og Alþfl. Þetta skipulag var síður en svo óeðlilegt, og enn þann dag í dag eru til verkalýðsfélög í Svíþjóð og Bretlandi, sem eru í verkamannaflokknum. Einstakir félagsmenn þurfa ekki að ganga í flokkinn frekar en þeir sjálfir vilja, en félögin sem slík eru í flokknum. Þannig helzt þetta skipulag enn þann dag í dag í þessum löndum, og það þarf síður en svo að ásaka Alþfl. fyrir nokkurt einræðisbrölt í þessum efnum, heldur stafar þetta af þróuninni í verkalýðsmálum og stjórnmálum á Íslandi á þeim tíma.

Ég skal ekkert segja um, hvaða hlutverki verkalýðsfélag sjálfstæðismanna á að gegna, fyrst það var ekki lagt niður fyrir 10 árum, eftir unninn sigur, en ég fæ ekki betur séð en það verði svo að vera eftir stjórnskipulagslögum, að það haldist, annað mál er hitt, hve starfsemi þess er heppileg fyrir íslenzka alþýðuhreyfingu.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði, að vinnumiðlunarskrifstofan hafi haft lítið hlutverk og miðað við afköst og mannahald nokkuð dýr. Sannleikurinn er, að hún hefur alltaf haft nokkurt verkefni, en ráða má af líkum, að það verkefni er ekki nærri eins mikið og ætla mætti, þar sem Rvík hefur sérstaka ráðningarskrifstofu. Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að hægt sé að spara ríkissjóði 400 þús. kr., en það getur orðið of dýr sparnaður. Mér skilst, að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæiar sé gert ráð fyrir 100 þús. kr. hækkun til þessara mála, svo þetta verður síður en svo sparnaður fyrir Reykjavík og miðað við málefni lítill og nánasarlegur sparnaður fyrir ríkissjóð........

..... En úr því varð ekki, að því er ég hygg vegna þess, að sjálfstæðismönnum hafi ekki líkað, að stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar væri með þeim hætti, sem núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Þó að ég fylgdi því á sínum tíma, að það yrði með þessum hætti væri ég reiðubúinn að ræða um breytta löggjöf í þessu efni, ef það gæti orðið til þess, að aðeins yrði ein vinnumiðlunarskrifstofa í Rvík og haldið yrði þeim vísi að vinnumiðlunarlöggjöf, sem áður var, en ekki dregið úr henni, eins og gert er með frv. hæstv. ríkisstj. Þau rök voru færð fyrir því, að félmrn. skipaði einn mann, sem væri formaður, og vinnumiðlunarskrifstofan legði fram 1/3 kostnaðar við skrifstofuna. Má segja, að þetta væri á fullum rökum byggt, en því miður hefur þessum tveimur ráðningarskrifstofum verið haldið uppi hér í Rvík um langan tíma, eða í 15 ár. Þó að gerðar hafi verið hvað eftir annað tilraunir til að sameina þetta, hefur aldrei náðst um það samkomulag. Ég lýsti því oft yfir við ráðamenn Reykjavíkurbæjar, að ég væri því samþykkur að reyna að ná samkomulagi um að sameina þessar skrifstofur í eitt, en varðandi það um ráðningaskrifstofu Reykjavíkur, að menn hafi óttazt, að hún hafi til þessa verið rekin með kannske nokkuð pólitískum blæ, þá skortir mig skilyrði til þess að dæma um það, því að ég þekki ekki rekstur skrifstofunnar, en eitt er víst, og það er það, að það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv. (SG), — og erum við þar á sama máli, þó að okkur greini annars oft á, — að verulegur hluti af reykvískum verkalýð telur það verr farið, ef hér á að koma til sögunnar eins konar framhald af ráðningarskrifstofu Reykjavíkur, þótt það yrði að vísu eftir sérstakri löggjöf, sem hér yrði sett. Ég held mér sé óhætt að segja, að við höfum báðir orðið þess varir meðal verkamanna, að þeir eru hræddir við þessa skipulagsbreytingu hér í Rvík. Hvort þessi ótti er rökstuddur, veit ég ekki, en hann er til staðar.

Frsm. meiri hl. n., hv. 1. þm. Rang., sagði í síðustu ræðu sinni, að ef hann hefði ekki verið viss um málstaðinn, sem hann tók að sér að flytja hér sem frsm. meiri hl., þá hefði hann orðið sterkari í trúnni eftir að hafa heyrt ræður andstæðinga málsins, og þau rök færði hann fram til styrktar sinni auknu trú, að því hefði verið lýst yfir, að vinnumiðlunarlöggjöfin hefði reynzt illa, vegna þess að í skjóli hennar hefðu starfað aðrar skrifstofur. Þetta er náttúrlega mjög fjarri lagi; ráðningarskrifstofa Rvíkur hefur ekki starfað í skjóli vinnumiðlunarlöggjafarinnar, heldur þvert á móti. Þrátt fyrir þessa löggjöf mundi enginn geta bannað Reykjavíkurbæ að reka sína skrifstofu á sama hátt og verið hefur, þannig að það er fjarri öllu lagi, að í skjóli vinnumiðlunarlöggjafarinnar hafi þróazt þessi tvöfeldni, ef svo má segja, í vinnumiðlunarskrifstofu höfuðstaðar landsins. Og þetta voru eiginlega einu rökin, sem hv. 1. þm. Rang. hafði fram að flytja fyrir málstað sínum. Ég man eftir þeim tíma, þegar við stóðum saman hér á Alþ., hv. 1. þm. Rang. og ég, í harðri andstöðu við frv., sem flutt var af hæstv. aðalforseta þessarar d., hv. þm. N-Ísf., um að breyta vinnumiðlunarlöggjöfinni í dálítið svipaða átt og hér er farið fram á. Við stóðum þar hlið við hlið í andstöðu við frv. Nú hafa orðið á þessu umskipti, — ekki hvað snertir Alþfl., heldur hvað snertir Framsfl. Þeir hafa valið sér nýja samstarfsmenn í þessu máli, en Alþfl. hefur nákvæmlega sömu afstöðu til málsins og áður hefur verið. Hvort hv. Framsfl. hefur í samræðum við Sjálfstfl. öðlazt einhvern nýjan sannleika í þessu máli, get ég ekki sagt um, en staðreynd er það, að Alþfl. hefur ekki skipt um skoðun, en það hefur Framsfl. aftur á móti gert.

Ég held, að í sjálfu sér þurfi ég ekki að hafa þessi orð mín fleiri. En með tilvísun til þess, sem fram hefur komið í ræðu hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf., og með tilliti til þeirra orða, sem ég sagði við 1. umr. þessa máls, og með tilliti til þess, sem ég nú hef sagt, vil ég að lokum geta þess, að það eru fjórar höfuðstaðreyndir, sem gera það að verkum, að ég og mínir flokksbræður munum ákveðið greiða atkv. gegn frv. Það er í fyrsta lagi vegna þess, að það er dregið úr frumkvæði ríkisvaldsins og aðstoð þess við vinnumiðlun í landinu. Það er frá okkar sjónarmiði tvímælalaust spor aftur á bak í þessari grein félagsmálalöggjafarinnar íslenzku að dregið er úr frumkvæði ríkisvaldsins og aðstoð við vinnumiðlun í landinu. — Í öðru lagi er það hlægilegt yfirklór að tala um sparnað, enda mun það ekki valda því, að þetta frv. er fram borið. Þetta verður að minnsta kosti ekki sparnaður fyrir bæjarfélögin, en hæstv. forsrh. lýsti yfir því í sambandi við almannatryggingafrv., að hagur bæjarfélaganna væri þannig, að þau ættu örðugt með að standa undir greiðslum til almannatrygginganna, hvað þá að bæta því við að greiða meiri rekstrarkostnað í sambandi við vinnumiðlun. — Í þriðja lagi brýtur það í bága við siðferðislega skyldu, er hvílir á Íslendingum sökum aðildar þeirra að alþjóðavinnumálastofnuninni. Ég veit ekkert, hvernig næsti fulltrúi íslenzku ríkisstj. færi að því að skýra það á alþjóðaþingi vinnumálasambandsins hvernig á því hefði staðið, að Ísland hefði, í stað þess að endurbæta og auka sína vinnumálalöggjöf í samræmi við samþykktir alþjóðaþingsins, dregið úr henni og brotið í bága við alþjóðasamþykktir, sem gerðar voru fyrir tveimur árum, meðal annars fyrir fulltingi fulltrúa Íslands. — Í fjórða lagi má geta þess, að þessi löggjöf, ef sett verður, væri sett í hreinni andstöðu við verkalýðssamtökin. Allsherjarþing íslenzku verkalýðssamtakanna hefur lýst andstöðu sinni gegn þessari skipulagsbreytingu. Auk þess er hættulegt fyrir hvaða ríkisstj. sem er að setja löggjöf, sem er í beinni andstöðu við skipulagsbundin verkalýðssamtök í landinu. En það er einn þátturinn í samstarfi hæstv. ríkisstj. að virða að vettugi íslenzk verkalýðssamtök. Það getur gengið að vissu marki, en það er ekki hyggilegt, og það mun seinna koma á daginn, að það hefnir sín.