19.10.1950
Efri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

4. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er gamall kunningi að mestu. Það er um framlengingu á l. nr. 113/1949, en þau l. hafa að efni til verið framlengd ár eftir ár nú undanfarið og síðast með þeim l., sem ég nefndi áðan fyrir árið 1949. Eitt nýmæli er þó í þessu frv. Það er um það, að ákvæði er sett um, að 50% hækkun á kaffibæti, sem hefur verið lagt á undanfarin ár samkv. öðrum l., verði nú bætt inn í þessi l., sökum þess að í öðru frv., sem hér liggur fyrir hv. d., er lagt til, að l. nr. 98/1941 verði felld úr gildi, en í þeim l. er heimild til að hækka gjald af kaffibæti um 50%. Þetta er því aðeins tilflutningur, en ekki nýmæli í sjálfu sér, og eins og menn sjá, er þetta frv. framlenging á l., sem undanfarið hafa gilt um gjald af innlendum tollvörutegundum og eru að öðru leyti sannhljóða lögum, sem gilda fyrir þetta ár og hafa gilt undanfarin ár.

Fjhn. hefur haft frv. til meðferðar og ekki orðið með öllu sammála um það. Einn nefndarmanna (hv. 11. landsk.) var fjarverandi, er málið var rætt í n.; en annar nm. (hv. 1. landsk.) kvaðst ekki geta fallizt á frv. án þess að gera nánari grein fyrir afstöðu sinni, en ekki boðaði hann þó, að hann mundi gefa út sérstakt nál. Við hinir litum hins vegar svo á, að ríkissjóður megi með engu móti missa þær tekjur, sem hér er um að ræða, og teljum sjálfsagt að framlengja lögin og leggjum til, eins og segir á þskj. 39, að svo verði gert.