15.01.1951
Neðri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Út af brtt. á þskj. 485 og 469 þá vil ég taka það fram, að meiri hl. n. gat ekki fallizt á brtt. á þskj. 485 og leggur til, að þær verði felldar. Um brtt. á þskj. 469 gengu ekki atkvæði í n., og litu nm. svo á, að það skyldi vera á valdi hlutaðeigandi bæjarstjórna, hvaða laun stjórnarmeðlimir fengju.

Það er fjarstæða hjá hv. þm. Ísaf., að ekki verði safnað skýrslum um þessi efni eftir sem áður, enda er tekið fram skýrum stöfum í 4. lið 4. gr., að hlutverk vinnumiðlunarskrifstofu sé m. a. að fylgjast með atvinnuháttum, eftir því sem auðið sé, og safna skýrslum og gögnum í því augnamiði, en það er ekki nægilegt að safna skýrslum um atvinnuleysi, — hitt er betra, að ekki þurfi til þess að koma, að slíkt ástand skapist. En ég held, að hv. þm. Ísaf. og hans flokkur ætti ekki mikið að tala um þessi mál, og ég held, að hann eigi líka nokkra sök á níðstönginni.