05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Eins og segir í nái. á þskj. 731, þá hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Við, sem myndum meiri hl., teljum, að eðlilegt sé að ríkisstj. geti, eins og ráð er fyrir gert í núgildandi l., hlutazt til um það, hvernig vinnumiðlun er háttað í landinu, og það sé verið að taka af henni nauðsynlegan rétt til slíkra afskipta, ef frv. þetta verður samþ. Samkv. gildandi l. er það á valdi ráðh. að ákveða, að vinnumiðlunarskrifstofa skuli starfrækt á einhverjum stað, og hann getur einnig ákveðið, ef hlutaðeigandi bæjarstjórnir æskja þess, að slíkar skrifstofur skuli lagðar niður. Er meiri hl. sammála um að telja slíka heimild nauðsynlega.

Eins og segir í grg. fyrir frv., þá hefur kostnaður við vinnumiðlunarskrifstofur ríkisins orðið þó nokkur, t.d. rúmar 100 þús. kr. á s.l. ári. Það má nú segja, að þetta sé ekki mikil upphæð, eins og nú er ástatt; og þá er spursmálið, hvað skrifstofan hafi skilað miklu starfi, og meginsjónarmið í þessu máli hlýtur að vera það, hvort hér sé um að ræða þarfa stofnun eða ekki. Og það má segja, að það sé a.m.k. varhugavert nú, eins og atvinnuástandi þjóðarinnar er háttað, að ríkisvaldið kasti frá sér heimild til að hlutast til um vinnumiðlun á grundvelli gildandi l. og hætti að hlaupa undir bagga með slíkri starfsemi. — Að vísu er gert ráð fyrir, að bæjarstjórnir geti sett á stofn slíkar skrifstofur, ef þær telja nauðsynlegt. En hugmyndin með núgildandi lögum er sú, að ríkisvaldíð geti hlutazt til um, að slíkar stofnanir séu starfræktar, og enn fremur, að vinnumiðlun geti haft þýðingu fyrir landið allt, en ekki einungis einstaka staði. Ég fyrir mitt leyti vil ekki, að heimild ríkisvaldsins að hlutast til um vinnumiðlun milli staða, þar sem atvinna er ýmist of lítil eða of mikil, sé felld niður.

Eins og um getur í grg., þá starfa hér tvær skrifstofur að vinnumiðlun, eða ráðningaskrifstofa Rvíkurbæjar og vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins, og var sú fyrrnefnda, eins og vitað er, stofnuð til þess að ráða starfsmenn fyrir Reykjavíkurbæ. Eins og lagt er til í hinni rökst. dagskrá, þá hlýtur að teljast æskilegt, að athugun fari fram á starfsemi vinnumiðlunarskrifstofanna, og lægi nærri, að þá væri gengið úr skugga um það, hvort vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins hafi starfað þannig, að þörf sé á annarri skrifstofu við hlið hennar. Það virðist ljóst vera, að það, sem liggur til grundvallar frv., sé óskin um sparnað, og skal það ekki lastað út af fyrir sig. En ég segi fyrir mig persónulega, að eigi að fara að spara ríkissjóði fé, þá virðist réttara að byrja þann sparnað á einhverju öðru.

Alþjóðavinnumálastofnunin, sem við erum aðilar að, gerir ráð fyrir því, að haldið sé uppi vinnumiðlun af hálfu hlutaðeigandi ríkja; og það virðast engin rök mæla með því, úr því við erum í þeim samtökum, að við fellum þá niður löggjöf, sem er í samræmi við þá kvöð, sem stofnunin leggur þátttökuríkjum sínum á herðar. Ég kann að vera ein um þá skoðun, en mér virðist, að eigi að fara að spara á þessu, þá ættum við fyrst að hætta að vera aðilar að þessari stofnun.

Ég mun svo ekki orðlengja þetta meira, en till. meiri hl. n. er sem sagt sú, að hin rökst. dagskrá á þskj. 731 verði samþ.