05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég get ekki séð betur en að öll ræða hv. 4. þm. Reykv. hafi verið byggð upp á þeim stóra misskilningi, að vinnumiðlunin sjálf auki atvinnuna í landinu, og sérstaklega bentu niðurlagsorð þessa hv. þm. á það, að hann gerði ekki greinarmun á þessu tvennu, þ.e. vinnumiðlunarstarfseminni og atvinnuleysinu. Ég hef ekki orðið var við, að vinnumiðlunin sjálf hafi aukið atvinnu í landinu, heldur hefur hún aðeins verið til þess að miðla vinnunni á milli aðila. Hér blandar hv. þm. þessu saman og leggur áherzlu á það, að atvinnuleysið muni verða minna í landinu, ef þessi lög haldist óbreytt. Því eru þau orð, sem hann beindi til hæstv. ríkisstj. í lok ræðu sinnar, markleysa ein. Hv. þm. veit ósköp vel, að ríkisstj. er nú að gera stórfelldar ráðstafanir til aukningar atvinnunni í landinu. Við vorum m. a. að ræða í dag um heimild til handa ríkisstj. til þess að taka lán erlendis, sem hún hyggst verja til þess að auka atvinnuna í landinu. En þetta á ekkert skylt við vinnumiðlunina. Mín skoðun er sú, að vinnumiðlunin út af fyrir sig bæti aldrei úr atvinnuleysinu í landinu. Það mesta, sem hún fær áorkað í þessu efni, er að skipta atvinnunni réttlátlega á milli manna, og þá tel ég réttast, að það sé í höndum sveitarfélaganna sjálfra, að skipta vinnunni á milli þegnanna, en ekki í höndum ríkisins.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væri ekki eðlilegt, að sveitarfélögin vildu halda uppi vinnumiðlun á milli héraða, þar sem það væri ekki í þeirra verkahring. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm. Hvers vegna ætti t.d. vinnumiðlunarskrifstofa Reykjavíkur ekki að telja sér skylt að benda fólki hér í Reykjavík á vinnu úti á landi? Ég held einmitt, að það stæði engum nær en vinnumiðlunarskrifstofunni að benda fólki úr sínu eigin bæjarfélagi á atvinnu úti á landi, og það er síður en svo ástæða til að láta ríkisvaldið koma þar nálægt. Nákvæmlega sama er að segja um Siglufjörð og aðra kaupstaði landsins. Hvers vegna ætti það ekki að vera í þeirra verkahring að fá fólk til að gegna störfum í þeirra eigin sveitarfélagi, ef þar vantar vinnukraft? Ég get ekki séð neitt óeðlilegt við það. Annars finnst mér, að hér sé verið að deila um aukaatriði.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að hér væri aðeins um heimild fyrir sveitarfélögin að ræða, og er það alveg rétt. En ég vil benda á það, að ríkisstj. getur hætt allri vinnumiðlun nú án þessara laga, en henni finnst eðlilegt og rétt, að sveitarfélögin sjálf fái heimild til að halda uppi vinnumiðlun. Í 1. gr. laga frá 1935 um vinnumiðlun segir: „Í hverjum kaupstað landsins skal stofnuð vinnumiðlunarskrifstofa, ef bæjarstjórn hlutaðeigandi kaupstaðar ákveður, eða atvinnumálaráðherra mælir svo fyrir.“ Þessi gr. mælir svo fyrir, að það er hægt, ef hlutaðeigandi bæjarstjórn ákveður, að setja á stofn vinnumiðlunarskrifstofu, og einnig getur atvmrh. þvingað bæjarstjórnir gegn vilja þeirra til að setja vinnumiðlunarskrifstofur á stofn. En úr því að heimild er til þessa, þá hlýtur líka að vera heimilt að kippa þessum skrifstofum burtu, ef hlutaðeigandi bæjarstjórn ákveður eða viðkomandi ráðh. þykir það heppilegt. Nú þykir heppilegt, að Reykjavíkurbær annist einn vinnumiðlun í bænum án íhlutunar ríkisins, vegna þess m.a., að reynsla hefur sýnt, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins hefur ekki getað annazt þessi störf ein.

Ég get ekki heldur séð, að samþykkt þessa frv. brjóti nokkuð í bága við þær samþykktir, sem gerðar voru í San Francisco 1948 og Íslendingar voru aðilar að. Ég get ekki séð nokkurn mun á því, hvort heimildin til þess að halda uppi vinnumiðlun er fyrir ríkisstj. eða bæjar- og sveitarfélögin, því að í báðum tilfellunum er ætlazt til þess, að vinnumiðlun sé haldið uppi, ef þess er óskað af þessum aðilum. Ég get því ekki séð, að þetta frv. brjóti nokkuð í bága við samkomulag á fyrrnefndri ráðstefnu erlendis. Hins vegar vil ég benda hv. 4. þm. Reykv. á það, að þetta virðist vera hreint innanríkismál, enda óeðlilegt, að fulltrúar geti bundið sínar þjóðir langt fram í tímann. Ef þarna væri um gagnkvæman samning á milli þjóðanna að ræða, þá væri það að sjálfsögðu eðlilegt. En það, sem hver þjóð er að gera nú, er það að einangra sig þannig frá öðrum þjóðum, að þær geti ekki komið og tekið atvinnuna frá henni. Svo að hugsjónin hefur þá ekki náð lengra en það, að hver þjóð hugsar út af fyrir sig í þessu efni. Það hefði sannarlega verið öðru máli að gegna um þetta atriði, ef samkomulag hefði orðið um það, að hver þjóð, sem átti þarna hlut að máli, hefði rétt til að sækja vinnu til hvaða lands sem væri og er aðili að alþjóðavinnumálastofnuninni. En um þetta var ekki samið, og því væri mjög óeðlilegt, ef við færum að binda okkur við samþykktir þessarar ráðstefnu.

Hv. þm. sagði, að það sýndi mikið ábyrgðarleysi hjá hæstv. ríkisstj. að ætla nú að fara að fella þá heimild úr gildi, sem hún hefur til afskipta af þessum málum, þegar 1200 manns væru nú atvinnulausir í 11 bæjarfélögum landsins. En er þetta ástand í atvinnumálunum einmitt ekki þrátt fyrir þá tilhögun, sem hér hefur verið höfð á vinnumiðlunarstarfseminni í landinu? Ég held því, að þetta atriði sanni bezt, að það er ekki til þess að bæta úr atvinnuleysinu, þótt fleiri vinnumiðlunarskrifstofum sé haldið uppi. Til þess þarf aðrar ráðstafanir, sem nú er verið að reyna að gera. — Ég vil einnig benda á reynslu síðustu ára af vinnumiðluninni. Þegar atvinnurekendur þurftu á fólki að halda í vinnu, hvaða aðstoð fengu þeir þá? Þegar eftirspurnin eftir verkafólki var hér mest, þá var útilokað að fá menn í vinnu frá t.d. 8–12 nema borga þeim fullt dagkaup. Svo fengust þessir menn ekki til að vinna frá 1–5 öðruvísi en fyrir fullt dagkaup. Þannig var ástandið þá, þrátt fyrir tvær vinnumiðlunarskrifstofur hér í Reykjavík. Ég held, að vinnumiðlunarskrifstofurnar út af fyrir sig hafi ekki á nokkurn hátt getað bætt úr þessu atriði, vöntuninni á atvinnu annars vegar og vöntuninni á verkafólki hins vegar. Þeirra starf hefur verið að leiðbeina mönnum í sambandi við þetta mál, en þó hygg ég, að þær hafi gert það í smáum stíl, en þegar mikið atvinnuleysi hefur ríkt á einhverjum stað, þá hefur komið til þeirra kasta að úthluta vinnunni á staðnum, og einmitt vegna þess þótti nauðsynlegt að stofna aðra vinnumiðlunarskrifstofu hér í Reykjavík.

Hv. þm. mótmælti að hér væru hundruð manna ráðnir til búnaðarstarfa, án þess að það færi fram í gegnum vinnumiðlunarskrifstofuna. Ég sagði áðan, að það væri ekki annað, sem gerðist, en að þessi starfsemi flyttist inn á vinnumiðlun bæjarins, þó að ríkisskrifstofan væri lögð niður, og ég veit ekki betur en að slík vinnumiðlun fari fram hjá Búnaðarfélagi Íslands. Þar er því þriðja vinnumiðlunarskrifstofan hér í Reykjavík, sem langmest annast þennan þátt vinnumiðlunar.

Hv. 4. þm. Reykv. benti á nauðsyn þess að geta miðlað vinnu til unglinga og öryrkja. Það er annað atriði, og það mál verður ekki leyst, þó að haldið verði áfram óbreyttu því fyrirkomulagi, sem ríkt hefur í landinu síðan 1935 um vinnumiðlun almennt. Vinnumiðlunarskrifstofur ríkisins, sem starfað hafa síðan 1935, hafa á engan hátt tekið að sér það verkefni og mundu heldur ekki gera það, þó að l. yrðu óbreytt. — Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta atriði, frá mínu sjónarmiði er þetta ekki stórt mál.

Hv. þm. sagði, að ég hefði venjulega myndað mér sjálfstæða skoðun um mál, hvort sem ríkisstj. þætti það gott eða illt. Þetta er rétt, og mín skoðun á þessu máli breytist í engu, þó að l. sé breytt. Mér finnst eðlilegt, að bæirnir og sveitarfélögin annist sjálf þessa vinnumiðlun sín á milli og innbyrðis og álit hana betur komna í þeirra höndum heldur en að láta ríkið skipta sér af því, — það er mín skoðun og ég veit, að hv. 4. þm. Reykv. trúir því. Hitt er annað atriði, að ég reyndi miðlunarleið í þessu máli, ekki af því, að ég teldi málinu ekki eins vel borgið og það er nú, heldur af því að ég vildi fá samkomulag við sem stærstan hluta alþm. um þetta mál, og ég reyndi miðlunarleið, sem ég taldi, að ég gæti sætt mig við, en henni var hafnað af öðrum aðilum og mér tókst ekki að miðla þar málum eins og ég hefði viljað gera. En það er ekki af því, að ég sé hér að mæla efnislega með neinu, sem ég ekki sjálfur hef trú á að sé rétt, því að það mundi ég ekki gera fyrir neinn mann hér á hæstv. Alþingi.

Mín skoðun er sú, að þessi mál séu betur komin í höndum sveitarfélaganna sjálfra en þó að ríkisstj. sé að halda uppi stofnunum, eins og gert hefur verið undanfarið, sem kosta nokkurt fé, en hafa ekki alltaf sýnt fulla sanngirni um þau mál.