05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

59. mál, vinnumiðlun

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hélt því ekki fram í fyrri ræðu minni, að vinnumiðlunarskrifstofurnar væru beinlínis til þess að auka atvinnu, þannig að ef hv. þm. Barð. hefur skilið mig svo, þá er það misskilningur hans, hvort sem það liggur í lélegri framsetningu hjá mér eða lélegri eftirtekt hjá honum. Þó er það nú svo, að vinnumiðlunarskrifstofurnar geta undir vissum kringumstæðum aukið atvinnuna eitthvað dálítið, ef fyrir þá stofnun lánast að fá fólk til að vinna verk, sem annars væru óunnin, og í ýmsum tilfellum má finna slíks dæmi. En hitt er rétt, að ekki er þess að vænta, að vinnumiðlunarskrifstofurnar auki verulega atvinnuna í landinu.

Hv. þm. sagði, að ástæðan til þess, að hann er með frv., sé sú, að hann telji vinnumiðlun eins vel komna í höndum sveitarstjórna eins og að því leyti í höndum ríkisstj., sem þær eru samkv. gildandi l., en samkv. gildandi l. eru þær bæði í höndum ríkisstj. og sveitarfélaga. Um þetta má kannske deila, þó hygg ég, að ekki leiki á tveim tungum, að vinnumiðlun, sem nær út fyrir einstök byggðarlög, sé betur tryggð með því, að ríkið sé þar aðili að.

En það, sem mestu skiptir í þessu sambandi, er það, að ekki er trygging fyrir því, að nokkurri vinnumiðlunarskrifstofu sé haldið uppi, ef þetta frv. er samþ. En hv. þm. virtist ganga út frá því, að vinnumiðlunarskrifstofurnar starfi áfram í öllum kaupstöðum, þó að frv. sé samþ., en ég hygg, að hann hafi ekki ástæðu til að ætla það. Ég tel víst, að á ýmsum stöðum verði þær lagðar niður; ég tel ekki líklegt, að hér í Reykjavík þori bæjarstjórnin að leggja vinnumiðlunarskrifstofuna niður, en ég fullyrði, að þeim verði ekki haldið uppi, ef þetta frv. verður að l. Breyt., sem gerð er með þessu frv. frá gildandi l., er sú, að í staðinn fyrir það, að nú getur hvor aðilinn sem er, bæjar- eða sveitarstjórn eða ríkisstj., ákveðið að starfrækja vinnumiðlunarskrifstofur, þá hefur framvegis ríkisstjórnin engin afskipti af þessum málum, það er algerlega á valdi bæjarstjórnanna sjálfra, hvort þær vilja hafa á hendi nokkra vinnumiðlun, hvernig svo sem ástandið er í atvinnumálum. Samkv. gildandi l. getur ríkisstj. ákveðið að hætta að starfrækja vinnumiðlunarskrifstofu á einhverjum stað, þ.e.a.s. ef bæjarstjórnin fellst á, að skrifstofan sé lögð niður, en ef bæjarstjórn heldur skrifstofunni áfram, þá er ríkisstj. skyldug til að taka þátt í kostnaðinum við að starfrækja hana. Það er augljóst, að engin trygging er fyrir því, ef frv. er samþ., að vinnumiðlunarstarfseminni verði haldið uppi í landinu. Allar líkur benda til þess, að sveitarstjórnirnar muni taka sér ríkisstj. til fordæmis og feta í hennar fótspor. Ríkisstj. telur ekki ástæðu til þess að halda uppi vinnumiðlun, — því skyldum við vera að því? — Ég skal ekki fullyrða, að það verði svo, ég tel ólíklegt, að það verði hér í Reykjavík eða yfirleitt, en ég tel mjög líklegt, að einhvers staðar á landinu verði það niðurstaðan, ef frv. er samþ.

Hv. þm. sagði, að hvorki við né önnur þátttökulönd í alþjóðavinnumálastofnuninni væru bundin um aldur og ævi samþykkt hennar. Þetta er rétt, og ég býst við, að það sé rétt, að við séum ekki einu sinni, eins og nú stendur, formlega bundnir af samþykktinni frá 1948, vegna þess að hún var aldrei staðfest hér á Alþ. En það breytir ekki því, að í augum annarra aðila að þessum samtökum verður framferði ríkisstj. í hæsta máta undarlegt. Hún hefur tilkynnt, að það þyrfti ekki að breyta íslenzkum l. til þess, því að þau væru í samræmi við þessa samþykkt, en breytir svo l. nú þannig, að við komum ekki undir ákvæði samþykktarinnar. Ef við hefðum verið búnir að staðfesta þessa samþykkt, þá gátum við ekki leyst okkur frá henni á annan hátt en þann að gera nýja alþingissamþykkt um það, að við segðum okkur frá ályktuninni, og tilkynna það með hæfilegum fyrirvara. Ekkert slíkt er gert nú. Nú er þessari stofnun bara tilkynnt, að l. sé breytt þannig, að við fullnægjum ekki ákvæðum þessarar samþykktar. Ég veit, að hv. þm. viðurkennir, að þetta sé óskemmtileg aðferð, ég vil segja ósæmileg vinnubrögð að því er snertir þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.

Ummæli hv. þm. um það, að svo hafi verið ástatt hér í Reykjavík, meðan mest var eftirspurn eftir vinnuafli á stríðsárunum, og eftir þau, að ekki hafi verið unnt að fá í gegnum vinnumiðlunarskrifstofuna mann til að vinna 1–2 tíma upp á annað en heil daglaun, er algerlega óviðkomandi starfi vinnumiðlunarskrifstofanna, þær hafa ekki nein afskipti af því, hvernig reglur eru settar um laun eða vinnutíma verkalýðsfélaga og samninga milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, — það veit hv. þm. vel. Þetta er aðeins sú frjálsa samkeppni í samskiptum milli atvinnurekenda og verkamanna, það fer eftir því, hvernig kaupin gerast á eyrinni. Þegar svo mikill hörgull er á vinnukrafti, að menn geta sett slík kjör, þá gera þeir það sums staðar, og tilsvarandi aðgerðir koma á móti af hinna hálfu, þegar þessi viðskipti eru óbundin, eins og víða hefur átt sér stað. En hvað sem um þetta atriði má segja, þá er það ekki í sambandi við starf vinnumiðlunarskrifstofanna og engan veginn til þess ætlazt, að þær hafi áhrif á samninga milli atvinnurekenda og verkamanna um kaup og kjör og vinnutíma eða annað þess háttar, enda er þeim ekki slíkt ætlað.

Hv. þm. virðist halda því fram, að sönnun þess, að vinnumiðlunarskrifstofurnar geri ekki mikið gagn sé einmitt í því fólgin, að nú skuli vera, þrátt fyrir það þó að 2 vinnumiðlunarskrifstofur starfi í Reykjavík, yfir 3300 manns í landinu, sem búa við atvinnuleysi, þar af 1/3 hér í Reykjavík. Ég sé ekki, að þetta sanni nokkuð til eða frá að því er snertir vinnumiðlunarstarfsemina. Þetta sýnir okkur, að eins og sakir standa, þá hefur atvinnupólitík ríkisstj. leitt til þess, að atvinna hefur dregizt svo saman á vissum stöðum á landinu, að hún nægir ekki fyrir þann fjölda fólks, sem hefur lífsframfæri sitt af því að stunda þá vinnu, sem þar hefur fallið til. Þetta er sorgleg staðreynd, og það er á engan hátt hægt að kenna vinnumiðlunarskrifstofunum um það, þær geta í þessu sambandi ekki gert annað en það, ef þær geta dregið úr atvinnuleysinu með því að greiða fyrir samskiptum þeirra, sem vantar fólk, og þess hóps, sem vantar vinnu. Eitthvað munu þær geta dregið úr því, en að þær geti gerbreytt atvinnuástandinu í landinu með því verksviði, sem þær nú hafa, er auðvitað fjarri sanni. Til þess að það yrði gert, þyrfti að færa út þeirra starfsemi þannig, að þær hefðu ávallt undirbúnar framkvæmdir, sem hægt væri að snúa sér að, þegar vinnu þryti, og gætu þannig létt fyrir þeim, sem við atvinnuleysi búa. Ég vil á engan hátt draga í efa, að hv. þm. fylgi sannfæringu sinni í þessu máli, ég vildi bara óska, að hans sannfæring væri þá betur undirbyggð og sterkari rökum studd en mér finnst hún vera að þessu sinni.