05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Það eru tvö atriði, sem ég vildi svara í ræðu hv. þm., vegna þess að það snertir kjarna þessa máls. Annað er það, að hann segir, að það séu ósæmileg vinnubrögð að afnema þessi l. eftir þá samþykkt, sem við erum búnir að gera í sambandi við alþjóðavinnumálaskrifstofuna í San Francisco. Ég vil ekki samþ., að það séu ósæmileg vinnubrögð, en ég vil taka það fram, að það var vegna þess að þetta spor hefur verið stigið, að ég gerði tilraun til að fá málið leyst á öðrum grundvelli, og það er vegna þess, að ég er honum sammála um, að það hefði verið skemmtilegra að leysa þetta mál á öðrum grundvelli en gert er. En það tókst ekki að ná samkomulagi við meiri hl. nefndarmanna um að leysa málið á þann veg. Ég tel þetta hins vegar ekki ósæmilegt fyrir okkur, — þetta er innanríkismál og það er engan veginn ósæmilegt fyrir okkur að afgr. málið eins og hér er lagt til.

Hitt atriðið er meginatriði málsins, þ.e. hvort nokkrar líkur eru til þess, að haldið verði áfram vinnumiðlun í landinu, og einmitt vegna þess að ég tel fullar líkur til þess, þá tel ég ekki heldur ósæmilegt að afgr. málið á þennan hátt. öll rök hv. 4. þm. Reykv. um nauðsyn vinnumiðlunar í landinu styðja það, að það verði að halda áfram vinnumiðlun, því ef það er raunverulega hans skoðun, að vinnumiðlun yfirleitt sé nauðsynleg til þess að draga úr atvinnuleysinu, eins og hann heldur fram, — ætlar hann þá að telja mér trú um, að sveitarstjórnir með fulla ábyrgð leggi niður vinnumiðlun hjá sér? Hvers vegna ætti bæjarstj. Rvíkur að leggja niður sína vinnumiðlunarskrifstofu, ef hin skrifstofan er lögð niður? Hvaða frambærileg rök eru til þess að halda, að hún muni þá hlaupa til og einnig leggja niður sína skrifstofu? — Sannleikurinn er sá, að ég tel, að það falli enn meiri ábyrgð á hendur sérhverju sveitarfélagi til þess að halda uppi vinnumiðlun, þegar kreppir að. Þess vegna er meiri ástæða til þess að halda áfram vinnumiðlun en þó það sé gert samkv. l., sums staðar takmarkað, sums staðar sáralítið og sums staðar í sambandi við vinnumiðlun eða við hliðina á vinnumiðlun bæjanna. Ég held einmitt, að þetta sé trygging fyrir því, að vinnumiðlun verði haldið áfram.