06.03.1951
Efri deild: 85. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

59. mál, vinnumiðlun

Haraldur Guðmundsson:

Það liggur hér fyrir till. til rökstuddrar dagskrár frá meiri hl. heilbr.-og félmn., og er ég einn af þeim meiri hl. og mun því að sjálfsögðu fylgja þessari dagskrá. Hvaða afgreiðslu hún fær, er ekki hægt að segja um fyrir fram og ekki fyrr en umr. er slitið og atkvgr. um hana fer fram. Ég verð því að leyfa mér að leggja fram nú skriflegar brtt. við frv., sem því aðeins koma til atkv., að hin rökst. dagskrá nái ekki samþykki d., sem ég vil þó vona, að verði, því að ég tel, að það sé sú eðlilegasta og sjálfsagðasta afgreiðsla á þessu máli.

Þær brtt., sem ég legg fram, eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: [Sjá þskj. 831.]

Ég tel, að eins og þessum málum er komið, eins og atvinnuástandið er í landinu, sé gersamlega óverjandi, að hæstv. ríkisstj. fleygi frá sér allri ábyrgð í þessum efnum og firri sjálfa sig rétti til þess að hafa afskipti af meðferð atvinnumála í hinum einstöku kaupstöðum landsins.