28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

89. mál, verðlag

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Eins og segir í nál. á þskj. 217, ræddi allshn. þetta frv. við fulltrúa fjárhagsráðs og verðlagsstjóra. En þeir höfðu áður haft málið til athugunar og óskuðu beinlínis eftir því að ræða við n. eða einhvern úr n. uni það. Og hafði fjárhagsráð sjálft tekið málið fyrir á fundi sínum, þannig að þessir menn, sem við allshn. töluðu, sem voru þá náttúrlega sérstakir fulltrúar fjárhagsráðs, voru algerlega umboðsmenn fjárhagsráðs á fundi n.

Um 1. gr. frv. segir svo í nál., með leyfi hæstv. forseta: „Í sambandi við 1. gr. frv. vill nefndin taka fram eftirfarandi: Samtímis því sem frv. þetta kom fram, hefur fjárhagsráð gefið út tilkynningu um hámarksverð á notuðum vörum, sem seldar eru í fornverzlunum. Nefndin vill ekki draga í efa heimild fjárhagsráðs samkv. gildandi lögum til að gefa út slíka tilkynningu, en telur þó eftir atvikum rétt, að sett verði skýr ákvæði um þetta efni.“

Þetta var afstaða n. til þessa. Sem sagt, tilkynning kom nú þarna frá fjárhagsráði um þetta efni, samtímis því að þetta frv. kom fram hér í þinginu. En það þótti rétt, þrátt fyrir það, að leggja til, að þessi ákvæði væru gerð skýrari.

Þá er um 2. gr. það að segja, að eftir samræðurnar í n. lagði n. til, að sá málsl., sem lagt er til að breytt verði í gildandi l., skyldi orðast eins og segir í þskj. 217. En breyt. er fólgin í tvennu: Í fyrsta lagi, að samkv. breyt. er ábyrgðin lögð á herðar iðnfyrirtækjanna, en ekki verzlananna, eins og gert er ráð fyrir í frv., og þykir það í framkvæmd eðlilegt og nauðsynlegt og ekki framkvæmanlegt öðruvísi. Svo er breyt. fólgin í því, að bætt er við garni, þar sem talað er um, að óheimilt sé að framleiða vörur til sölu í verzlunum úr innfluttri vefnaðarvöru, nema innflutningsleyfi hafi verið veitt fyrir vörunni til iðnaðar, þannig að þarna komi: vefnaðarvöru og garni. Þetta heyrir undir sama þátt atvinnulífsins. Og þessi vara, garnið, vill renna út úr verzlunum og vera tekið til vinnslu á óeðlilegan hátt.

Þess skal getið í þessu sambandi, að fjárhagsráð hefur haft þetta mál talsvert mikið til athugunar og hefur víst gjarnan viljað gefa út tilkynningu um það eitthvað í þessa átt, sem hér er gert ráð fyrir. En það var ekki talið öruggt, að heimild væri fyrir því.

Eins og mönnum er kunnugt, hafa vefnaðarvörukaupmenn mjög látið í ljós, að þeir telji, að of mikið fari til iðnaðar af vefnaðarvörum. En eins og kunnugt er, fær iðnaðurinn ákveðinn hluta af innflutningnum á hverjum tíma til sinna nota. En það. sem ekki er flutt inn beinlínis til iðnaðar, er ætlað óumdeilanlega til þess, að það sé haft í verzlunum óunnið.

Það voru allir nm. mættir á fundi, þegar mál þetta var afgreitt, og voru þeir allir samþykkir því að afgreiða málið eins og segir á þskj. 217.