15.12.1950
Neðri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

89. mál, verðlag

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal gera nokkru nánari grein fyrir afstöðu okkar tveggja nm. en hv. frsm. hefur nú gert. Fyrst þegar þetta mál var rætt í allshn., þá lét ég í ljós vantrú og að sumu leyti andúð á ákvæðum frv., þegar svo að segja stöðugt er verið að gera allt eftirlit margbrotnara og skipulagninguna víðtækari. Málin virðast ganga mjög stirðlega í þessu bundna kerfi, og þá var ætlað að bæta úr þessu með nýjum eftirgrennslunum og nýjum höftum, og taldi ég slíkt óvænlegt, og bæri fremur að höggva á hnútinn og draga úr höftunum og koma á frjálsara viðskiptalífi. Þetta var eitt atriðið m. a., sem mér þótti varhugavert, ekki eingöngu í þessu frv., heldur ýmsum málum, sem við erum þessa dagana að kljást við. Ég var einnig vantrúaður á það, að þetta frv. yrði til þess að bæta úr því ástandi, sem við allir erum sammála um að sé illþolandi, en það er, að heimilin fái ekki vefnaðarvöru óunna og þurfi að kaupa hana unna fyrir miklu meira verð en hún kostaði raunverulega, ef heimilin ættu kost á að leggja fram vinnu sína sjálf. Ég áleit, að farið yrði í kringum þessi ákvæði, og væri hér jafnvel verr farið en heima setið. Ed. gerði á upphaflega frv. nokkrar breyt., og við nánari eftirgrennslan sýnist mér, að hér geti orðið af nokkur lagfæring, og það er fyrst og fremst af því, að það virðist vera samkomulag milli allra þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, um að vilja bæta úr þessu. Það liggja fyrir frá vefnaðarvörukaupmönnum, frá iðnrekendum og frá verðlagseftirlitinu yfirlýsingar um fullan vilja til að bæta úr ástandinu í þessum efnum, og þess vegna má vænta góðs árangurs af frv. En áður en þetta frv. var flutt, skrifaði Félag íslenzkra iðnrekenda fjárhagsráði og lagði þá til að taka upp sömu framkvæmd á þessu máli og þá, sem felst í þessu frv., og tel ég raunar, að þessa leið hefði mátt fara án sérstakrar lagasetningar. En afskipti Félags íslenzkra iðnrekenda eru mikið innlegg í málið, því að það eru einmitt þeir, sem hafa verið ásakaðir fyrir að taka vöruna til sín. Vil ég því með leyfi hæstv. forseta leyfa mér að lesa kafla úr bréfi iðnrekendafélagsins. Þar segir svo:

„Nýlega samþykkti félag vefnaðarvörukaupmanna ályktun þess efnis, að heimilin fengju of lítið af vefnaðarvöru og iðnaðurinn of mikið. Vegna þessa sérstaka tilefnis getum við ekki látið hjá líða að bera fram við háttvirt fjárhagsráð tillögu, sem er orðin mjög tímabær og miðar að því að bæta úr álnavöruskorti heimilanna. Vér leggjum til, að ekki verði öðrum aðilum leyft að framleiða og selja tilbúna fatnaðarvöru úr innfluttri álnavöru en þeim, sem hafa fengið gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir dúkavöru með það fyrir augum að vinna úr henni, þ.e.a.s. þeim, sem hafa iðnaðarkvóta. Framkvæmdina má hugsa sér þannig, að fulltrúum fjárhagsráðs í verðlagsmálum sé falið að synja samþykkis á verðreikningum frá öðrum fatnaðarvöruframleiðendum en þeim, sem hafa iðnaðarkvóta, og síðan mundi verðgæzlustjóri fylgjast með því, að ekki verði farið í kringum þessi fyrirmæli af þeim, sem flytja inn óunna vöru og eiga skilyrðislaust að afgreiða hana í því formi beint til neytendanna. Þessir síðasttöldu aðilar eru allir aðrir innflytjendur vefnaðarvöru en þeir, sem hafa iðnaðarkvóta.“

Þannig hljóðar bréf Félags íslenzkra iðnrekenda, og ég hef rætt við fulltrúa verðgæzlustjóra um það, hvaða framkvæmd hann hugsaði sér á málinu, ef þetta frv. yrði að l., og þá vitnaði hann í álit iðnrekendanna og gerði ráð fyrir þessari framkvæmd, að fá yfirlit yfir þetta, þegar verðreikningar liggja fyrir frá iðnrekendum. — Skal ég svo ekki orðlengja þetta, en með tilvísun til þess, sem ég nú hef sagt, leyfi ég mér að leggja til, eins og aðrir nm., að frv. verði samþ. óbreytt.