12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

127. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef við fyrri umræður þessa máls rætt nokkuð um það skattfrelsi, sem Eimskipafélaginu er tryggt með þessu, og ég hafði búizt við, að það mundu koma fram nokkrar brtt. við þetta frv. Mér hafði skilizt svo á þeirri afstöðu, sem fram kom í fjhn., að hún væri e.t.v. að hugsa um að koma með brtt. Það hefur ekki orðið af því, og þar með þykir mér sýnt, að ekki sé þess kostur að fá samkomulag um, að nokkuð af þeim gróða, sem Eimskipafélagið fær nú árlega, - m. a. vegna þess, hvernig að því er haldið öllum flutningum fyrir tilstilli ríkisins, — sé tekið til ríkisins, til þess að létta álögum af öðrum. Það ætti a.m.k. að fást samkomulag um, að ríkið fengi í staðinn fyrir skattfrelsið fleiri hlutabréf en áður í Eimskipafélaginu.

Ég álít mjög slæmt, að það skuli ekki nást samkomulag um þessa hluti. Það er áreiðanlega of langt gengið að gera þær stofnanir, sem njóta sérstakra hlunninda og fríðinda, skattfrjálsar. Þetta á ekki aðeins við með fyrirtæki eins og Eimskipafél., raunverulega er það að stefna í sömu átt með sum ríkisfyrirtækin, t.d. Landsbankann. Það er alveg ófært, þegar annar aðalatvinnuvegur landsmanna, vélbátaútvegurinn, er að kikna undir álögum, og það eru heimtaðir sívaxandi skattar í landinu til að standa undir atvinnuvegunum, að þó er ekki lagður skattur á þá vexti, sem Landsbankinn fær, eða þann farmgróða, sem Eimskipafélagið fær af freðfisksútflutningnum.

Ég býst við, að það sé ekki fjarri lagi, að 1/10 af verðmæti freðfisksins nú séu farmgjöld til Eimskipafélagsins eða. þeirra, sem flytja hann út. Hverjir vextirnir eru, vita menn. Þarna þarf að breyta til. Það er ekki hægt að láta skapast hér á landi auðfélög og auðstofnanir, sem eiga 50–100 millj. skuldlausar og eiga þar að auki að njóta skattfrelsis og safna meiri og meiri gróða af undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sem rís þó ekki undir sínum eigin rekstri. Ég hef ítrekað þetta nokkuð, bæði við 1. og 2. umr. þessa máls, og ekki fengið undirtektir. Ég hef ítrekað það um leið, að afstaða mín til Eimskipafélagsins væri ekki af því, að ég kynni ekki að meta til fulls störf þess, en ég álít, bæði vegna þeirra ástæðna, sem eru hjá almenningi, og vegna þjóðarinnar allrar, að heppilegra hefði verið að gera þarna nokkrar breytingar á. En úr því að ekki er neinn möguleiki fyrir brtt., sem yrði samþ., þá mun ég ekki bera fram brtt., heldur halda áfram að greiða atkv. móti þessum lögum til að leggja áherzlu á, að ég álít ekki stefnt í rétta átt með áframhaldandi skattfrelsi þessa auðugasta fyrirtækis landsins á sama tíma og álögur á almenning eru þyngdar.