15.12.1950
Efri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

127. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Það er rétt hjá hv. frsm. fjhn., að þetta frv. er gamalt og kemur hér fram á öðru hverju þingi og er þá venjulega afgr. í flaustri. Ég hef jafnan greitt atkv. gegn þessum skattfríðindum, en ekki vegna þess, að það er E.Í, sem á í hlut, heldur tel ég, að hér sé farið inn á ranga braut. Það væri þá miklu nær að styrkja félagið á einhvern annan hátt. Upphaflega voru þessi fríðindi veitt með vissum skilyrðum, t.d. að það skyldi veita ákveðnum fjölda námsmanna ókeypis far til útlanda, — en ég held, að þessi skilyrði hafi nú verið felld brott. En þótt segja megi, að það starfi meira nú sem alþjóðarfélag en einkafélag, þá getur hæglega orðið breyting á því. Get ég því ekki fallizt á, að það eigi að veita félaginu þessi fríðindi. — Ég hygg, að skv. hinum sérstöku ákvæðum um fyrningu skipa, þá sé ástæðulaust að undanþiggja félagið tekjuskatti, a.m.k. þær afskriftir, sem þar eru heimilaðar, eru svo rúmar, að það útilokar, að eignir félagsins komi til skatts, þó að það eigi nú 4 ný skip.

Þá vil ég geta þess í sambandi við hinn mikla eignaauka félagsins, er myndaðist með sérstökum hætti, að hagnaðinn fékk félagið sem sé ekki af sínum eigin skipum. Á þessum tíma var það ríkisstj., sem gerði ráðstafanir til að fá skip á leigu og fékk þau með ákveðnum kjörum, og síðan voru þessi skip afhent E.Í., og gróðinn af þessum skipum var mikill og rann í vasa E.Í. Það hefði verið eðlilegra, að hagnaðurinn hefði runnið til ríkisins og hefði síðan mátt leggja hann til félagsins, er varið skyldi til nýbygginga. — Ég kunni betur við að láta þessa greinargerð koma fram vegna afstöðu og atkvæðis míns.