15.12.1950
Efri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

127. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég þarf ekki mikið að ræða um málið sjálft, því að ég er á móti því og hef alltaf verið. Hins vegar langar mig til að fá nokkrar upplýsingar hjá hv. frsm., því að n. hlýtur að hafa athugað þetta mál.

1) Uppfyllir Eimskipafélag Íslands enn þá þau skilyrði í 3. gr. l. að veita 60 mönnum ókeypis far á ári til útlanda? — Ég er hræddur um, að þetta skilyrði hafi ekki verið uppfyllt.

2) Úr því að það liggur núna svona mikið á að veita þessi skattfríðindi, þar sem sagt er, að eignaraukaskatturinn verði svo þungur á félaginu, hefur þá félagið ekki afskrifað eignir sínar eins og löglegt er? Ef svo er, þá er skrýtið að tala um þungan eignaraukaskatt, — þegar hús félagsins er komið niður í 4 krónu og „fossarnir“ niður í 500 kr. Þetta virðast vera sæmilegar afskriftir, og ég hugsa, að félagið sleppi sæmilega við eignaraukaskatt samanborið við aðra. — Mér finnst þá lítið verða eftir af þeirri röksemd, þar sem því er haldið fram, að aðalástæðan til þessara skattfríðinda sé sú, að félagið hljóti svo þungan eignaraukaskatt.

Um þetta hvort tveggja langaði mig til að fá upplýsingar: hvernig 3. gr. laganna hefur verið haldin og hvað eignaraukaskattur félagsins mundi verða mikill og á hvaða eignir lagður.