14.11.1950
Neðri deild: 21. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég viðurkenni, að ég fylgdist ekki almennilega með þeirri hálfleiðinlegu ræðu, sem hv. 2. landsk. flutti hér; og satt að segja, þá áttaði ég mig ekki almennilega á því, hvað hann var að fara, fyrr en ég tók eftir því, að annar maður hafði enn þá meira að gera en hann sjálfur, þ.e.a.s. sá, sem sat við hlið hans, sjálfur ritstjóri Þjóðviljans, sem skrifaði af kappi. Og þá skildi ég samhengið, er ég sá, að ræða hans var töluð beint inn í hátalara Þjóðviljans. (Rödd úr þingsal: Er hæstv. ráðh. nokkuð illa við að fá að glöggva sig betur á ræðunni þar?) — Nei, því ég eyði aldrei mjög miklum tíma í að lesa dagblöðin, og ég er fljótur að lesa Þjóðviljann eins og önnur blöð. Og ég vil segja þessum góðu vinum mínum það, að mér er aldrei illa við að sjá neitt í honum. Ég vissi bara ekki áðan, hvað hv. þm. var að fara, þar sem ræða hans snerti hvergi kjarna málsins, en ég skildi svo tilganginn, þegar ég sá, hvað sessunauturinn átti annríkt. Mig langar annars til að segja ritstjóranum, sem á að fara með handritið í blaðið, að ég ráðlegg honum að taka þar út úr einstaka liði, ef allt á að fara vel á pappírnum. Hann ætti t.d. ekki að fara nákvæmlega út í að gera grein fyrir þeim 50 milljónum, sem hv. þm. sagði, að það kostaði að standa undir fiskábyrgðinni í þrjú ár. Og áður en hann lætur þetta dæmi á pappírinn, þá held ég það væri rétt fyrir hann að reikna út hitt dæmið, að saltfiskverðið hafi lækkað um 6%, enda þótt erlendur gjaldeyrir hafi við gengisfallið hækkað um 74%. Ég hefði gaman af að sjá þessum dæmum komið saman, ef hvort tveggja er rétt, að útvegsmenn fái nú lægra en ábyrgðarverð fyrir fiskinn, enda þótt erlendur gjaldeyrir hafi hækkað um 74%, og hitt, að 17 millj. hafi þurft til að standa undir ábyrgðarverðinu á ári.

Þá vil ég einnig leyfa mér að ráðleggja ritstjóranum að fella niður þetta með embættismennina. Það eru svo hjáróma orð í hinni heilögu baráttu kommúnista fyrir bættum kjörum opinberra starfsmanna. Og ég er svo hræddur um, að margir vinir Þjóðviljans yrðu annars fyrir vonbrigðum og mundu skilja illa þetta falska hljóð úr Norðfjarðarhorninu. — Og hann ætti að strika út ýmislegt fleira — eins og þau orð, sem hann hafði um útgerðarmennina, að það ætti að hengja þá alla; það er leiðinlegt fyrir hv. þm., að þeir heyri, að hann lýsi þeim eins og mönnum, sem eru að falla í snöru. — Ég legg sem sagt til, að þetta verði leiðrétt í dálkum Þjóðviljans, þar sem þetta er talað fyrir hann. En inn á Alþingi átti þessi málflutningur ekkert erindi.

Hitt heilræðið, að það sé enginn vandi að halda útveginum gangandi og láta hann bera sig með því að leyfa útvegsmönnum þetta og leyfa þeim hitt, það höfum við oft heyrt áður frá kommúnistum, sem telja það aðalatriðið að losna við hraðfrysta fiskinn með einhverju móti. En það er þetta, sem ég hef nú gert, er ég leyfi hina nýju verzlun kommúnista við Austur-Evrópulönd og stuðla að því, að keypt sé í vöruskiptum hveiti, sem er 44,8% hærra í verði en það hveiti, sem fá má annars staðar í dag. En ef utanríkisverzlun landsins á að reka með þeim hætti, að einungis sé hugsað um, hvernig losna skuli við vöruna, en ekki um það, hvað fáist fyrir hana, þá er komið út á hálar brautir, og þá er fyrst og fremst verið að svíkja verkalýðinn og taka sjálfum sér gröf. Afleiðingin yrði taumlaus verðbólga í landinu, sem mest bitnaði á þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Það er vitanlega enginn vandi að segja við útgerðarmennina, að nú skuli létt af þeim öllum vanda. Kaupið þið bara þetta og seljið þið hitt! — En sá, sem vill leysa vandann með þessum hætti, eins og hv. 2. landsk., veit ekki, hvað hann er að segja eða fer með vísvitandi blekkingar. Já, ég verð víst að nota orðið blekkingar, þó það sé leiðinlegt að taka sér í munn. En hv. þm. veit, hvað hann syngur, og sér í gegnum þetta allt. Hann hefur næga þekkingu og dómgreind til að skilja þessa hluti. Það eru aðeins tveir dagar síðan ég sat með honum fund um þessi mál, og ég veit hann er þeim kunnugur. En það, sem hann hafði að segja um það mál, sem hér liggur fyrir, kafnaði allt í umbúðunum, og mér er ekki alveg ljóst, hvað fyrir honum vakti. Ég veit þannig ekki, hvort óskir hans voru þær, að ríkið greiddi allar skuldir útvegsmanna, eða hvað hann átti við, þegar hann talaði um þann hluta Sjálfstfl., sem vildi hlífa verzluninni á kostnað útvegsins. Mér fannst eins og hann vildi láta í það skína, að ég væri nú í rauninni ekki í þeim hópi, og gera það eins og af persónulegri velvild við mig, og það er auðvitað þakkarverð viðleitni. En ég gat bara ekki skilið, hvers vegna þessir vondu menn vilja sérstaklega styðja þetta frv., þar sem þessar ráðstafanir koma til með að mæða bæði á verzlun og iðnaði. Það getur verið, að rétt á einstaka stöðum, eins og t.d. Norðfirði, falli þessi dómur eða þessi niðurfelling á kröfum og skuldum með miklum þunga á félög, sem verkalýðurinn sjálfur eigi. En það er ekki hin almenna regla.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var annars ekki bara sú, að ég vildi skemmta þessum tveimur vinum mínum, sem ég hef nú vikið orðum að, heldur að svara fyrirspurnum frá hv. þm. Ísaf. Honum má ljóst vera af því, sem ég sagði, að síðasta málsgr. 1. gr. er svo orðuð sem gert er til að umlykja þá hugsun, að hinum einstöku kröfuhöfum verði ekki misívilnað. En augljóst er, að þær tvær leiðir er ekki unnt að samræma að fullu, annars vegar kröfu ríkissjóðs til frjálsra skuldaskila með fullri eftirgjöf og hins vegar að setja undir þann leka, að einum kröfuhafa sé ívilnað á kostnað annars. — Út af sjóveðs-, lögveðs- og tryggingargjöldunum vil ég svo leiða athygli hans að 7. gr., sem kveður svo á, að fjmrh. sé heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs greiðslu á láni til skuldaskilasjóðs að upphæð 20 millj. kr. Það er á allra vitorði, sem um málið hafa fjallað, samanber ummæli skilanefndar í fylgiskjali, að það verður þörf á nokkurri fúlgu til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur, bæði varðandi lögveðs- og tryggingargjöld. Má ég segja, að ég hafi tryggt það, að þetta lán fáist. En vitaskuld er ríkisstj. ljóst, að þessi lagafyrirmæli koma ekki að fullum notum nema.... Varðandi greiðsluhæfni skuldabréfasjóðs viðurkenni ég sjónarmið hv. þm. Ísaf. sem jafnrétt því, sem sett er fram í 9. gr. Það má deila um, hve langt þessi réttur til afnota á skuldabréfum skuldabréfasjóðs á að ná. Það er auðvitað rétt, að þau fyrirtæki, sem eiga að taka við þessum bréfum, óska eðlilega eftir því að geta greitt sínar skuldir til kröfuhafa með þeim. En það er matsatriði, hverjir möguleikar voru á að gefa þessum bréfum víðtækt gildi, og ríkisstj. hefur ekki talið unnt að hafa þetta á annan veg.

Ég held, að ég eigi ekki vandsvarað neinu af því, sem til mín hefur verið beint; þó það væri að vísu fleira í ræðu hv. 2. landsk., sem ástæða væri til að ræða um, þá vil ég ekki tefja umr. frekar með því, þar sem ég álít líka, að það sé utan við umræðu um þetta frv., sem hér liggur fyrir.