16.11.1950
Neðri deild: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð í tilefni af ræðu hæstv. atvmrh. við upphaf þessarar umr., sem var frestað. Hæstv. ráðh. kaus þá aðferð, þegar hann gerði athugasemdir við mína ræðu, að slá málinu upp í grín og hagaði málflutningi sínum yfirleitt þannig sem honum væri sem minnst umhugað um málið í heild. Það kann að vera, að hæstv. atvmrh. viti ekki, hvernig málið stendur, en ég hygg, að hann viti þó betur en hann vildi vera láta í þessari ræðu sinni. Skal ég svo víkja að aths. hans.

Hæstv. ráðh. vildi gera nokkuð úr því, að það væri rangt, að fiskábyrgðin hefði kostað ríkissjóð um 50 millj. kr. í þau 3 ár, sem fiskábyrgðin var í gildi. Ég gat þess í minni ræðu, hvaðan ég hefði þessar upplýsingar, sem sé að þær væru úr blaði, sem væri talið mjög áreiðanlegt varðandi upplýsingar um sjávarútvegsmál, — blaði, sem einn af flokksbræðrum hæstv. ráðh. gefur út, með öðrum orðum blaðinu Víði, sem Einar Sigurðsson í Vestmannaeyjum gefur út. Hæstv. ráðh. þurfti því ekki að eyða í það löngu máli, að ég hefði hér farið með rangar tölur. Ég hef engar aðrar upplýsingar um þetta og hygg þær réttar, enda hef ég ekki séð þessum tölum mótmælt, og væri það að sjálfsögðu mjög auðvelt fyrir hæstv. ráðh. sjávarútvegsmála að upplýsa Alþ. um annað, ef hann hefur aðrar tölur. En kannske hefur hann ekki haft hugmynd um, hverjar þessar tölur voru frekar en annað, sem hann virðist ekki fylgjast með í sambandi við vandamál sjávarútvegsins. — Þá reyndi hæstv. ráðh. að gera gys að og tortryggja þau ummæli mín, er ég sagði, að verðfallið, sem orðið hefði á útfluttum saltfiski frá því gengislækkunin var gerð og til þessa, hefði numið 51/2 til 6% að meðaltali. Hann hefur sýnilega ekki lesið blað síns flokks, Morgunblaðið, frá viðkomandi degi, sem birti þessar upplýsingar eftir formanni Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, hr. Richard Thors, og daginn eftir hér á Alþ. verður svo flokksbróðir hæstv. ráðh., hv. þm. Vestm., að lesa þetta sama yfir honum. Þessi fala, sem ég nefndi, var því byggð á upplýsingum, sem lágu fyrir um þetta mál, og óþarfi að tortryggja þær í einu eða neinu. Hitt verða menn einnig að sjá, að þrátt fyrir það, að verðið erlendis hefur ekki breytzt meira en þetta, þá er það staðreynd, að bátaútvegsmenn fá nú minna fyrir útfluttan saltfisk en þeir hefðu fengið samkv. fiskábyrgðarl. Þeir fá nú eftir gengislækkunina kr. 2.40 fyrir kg, en hefðu átt að fá samkv. fiskábyrgðarl. um kr. 2.70 fyrir kg, og þeir, sem eiga að taka á móti þessum greiðslum, kunna að meta þessar tvær tölur. Svo getur hæstv. ráðh. verið að skopast að mínum ummælum, þegar slíkar upplýsingar liggja fyrir, en staðreyndirnar liggja eigi að síður fyrir. — Það er kannske rétt að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. ráðh. vildi gera að höfuðatriði í sinni ræðu, þar sem hann sagðist ekki skilja, hvað ég væri að tala um. En hvað er það, sem hann virðist ekki skilja í þessu máli? Hann virðist ekki skilja það, að þegar á að strika út tugi milljóna króna af skuldum bátaútvegsins, munu slíkar aðgerðir koma allþungt niður á útgerðarbæjum og útgerðarþorpum, eða þar sem bátaútvegurinn á heima. Þetta var eitt af þeim atriðum, sem ég lagði áherzlu á. Hæstv. ráðh. hélt því hins vegar fram, að þessi skuldaeftirgjöf mundi sérstaklega mæða á verzlunar- og iðnaðarstéttinni. Það er nú kannske hægt að segja mönnum slíka hluti, en sannleikurinn er sá, að það verða ekki þeir aðilar, sem tapa, sem hæstv. ráðh. talaði um, það verða viðskiptaaðilar útvegsmanna úti um land, m.a. fjöldamargir sjómenn og starfandi menn við útveginn, sem ekki hafa lagt fram sjóveðskröfur, heldur átt innieignir hjá þeim frá ári til árs og ættu að hafa forgangsrétt að þeim. Þessir menn sjá nú fyrir, að þessar innieignir þeirra verða strikaðar út samkv. þessum l., ef frv. verður samþ. Það verða einnig félagssamtökin í útgerðarbæjunum, sem hljóta að verða fyrir tapi í þessu sambandi. Sú staðreynd verður því ekki umflúin, að þessar ráðstafanir verða gífurlega þungar og til hins verra fyrir útgerðarstaði landsins og verða þess valdandi, að ýmsir aðilar á þessum stöðum hljóta að fara á höfuðið. Í stuttu máli jafngildir þetta því, að skuldamál útvegsins eigi áð leysast á þann hátt, að Alþ. segi við útgerðarstaði landsins: Það eruð þið, sem skuldið, og þið verðið því að taka við skuldasúpunni og strika skuldirnar út, og þar með er málið leyst. — Þetta skildi hæstv. ráðh. ekki eða þóttist ekki skilja.

Þá kem ég að hinu atriðinu. Hæstv. ráðh. virtist ekki skilja það, að þessi eftirgjöf á skuldum vélbátaútvegsins leysir í rauninni ekki þann vanda, sem nú steðjar að honum. Meginvandamál útvegsins í dag, sem þarf að leysa, er að koma málum hans í það horf, að reksturinn fái staðið undir útgjöldunum. Það er einnig staðreynd, að skuldaskilafrv. er ekki komið fram samkv. beiðni útgerðarmanna, heldur eftir beiðni Landsbankans. Það kann að vera, að hæstv. atvmrh. hafi í rauninni álitið, að vandamál útvegsins væru ekki önnur en þau að fá nokkra eftirgjöf á skuldum vegna hinna miklu aðgerða, sem hann stóð að ásamt samstarfsmönnum hans í ríkisstj. með því að samþ. gengislækkunina á s.l. vetri og að þær ráðstafanir hefðu leyst þann vanda, sem snýr að gangi rekstrarins.

Ég hygg hins vegar, ef hæstv. ráðh. fæst til þess að tala við þá menn, sem þarna eiga mest í húfi og búa við erfið kjör í þessum efnum, þá muni fara nokkuð svipað fyrir honum og hv. þm. Vestm., sem vitnaði um það hér á Alþ. í gær, að þegar hann hefði komið til sinna umbjóðenda og rætt nú við útvegsmenn í stærstu verstöð landsins, hefði hann komizt að raun um það, sem hann hefði ekki gert sér ljóst áður, þegar hann hefði mætt slíkum ugg og ótta hjá þeim, að hann fyndi sig nú knúinn til þess að vara ríkisstj. við og benda henni á, að þessi mál þyrfti að leysa á annan hátt en hún hefur lagt til fram til þessa. Ég ætla því, ef hæstv. ráðh. fæst til þess að hugleiða þessi mál í alvöru og hlýða á mál þeirra manna, sem þarna þekkja bezt til, að hann muni sannfærast um það, að sú skuldaskilaleið, sem hér er lögð til, sé ekki vænleg til að leysa þann vanda, sem steðjar að þessari atvinnugrein og kemur ómaklega niður og leysir í rauninni engan vanda. Aðrar leiðir koma hér til greina, og nokkrar þeirra minntist ég á hér í fyrradag. En ég skal taka það fram, að það Er einn þáttur í sambandi við þessi skuldaskil, sem Alþ. hefði mátt vera búið að samþ. fyrir löngu. Þar á ég við það, að ríkið gefi útvegsmönnum hreinlega eftir þau kreppulán, sem ríkið hefur veitt þeim vegna aflabrests á síldveiðum, en slíka eftirgjöf þarf ekki að tengja við þvinguð skuldaskil útvegsins. Það er afar einfalt að gera samþykkt um að veita þessar eftirgjafir, er eiga í rauninni ekkert skylt við þau þvinguðu skuldaskil, sem hæstv. ráðh. ræddi um.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni. Þetta mál liggur nú til athugunar hjá hv. sjútvn., og það mun gefast kostur á því síðar hér í d. að ræða betur um það, hver áhrif þessa frv., ef að l. verður, hljóta að verða, og hver sé afstaða útvegsmanna yfirleitt til þeirra aðgerða, sem hér á að lögleiða með þessu skuldaskilafrv.