16.11.1950
Neðri deild: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður, enda tel ég þessar umr. hafa farið í meginatriðum út fyrir hinn eðlilega ramma málsins, og sá, sem gaf tilefni til þess, var hv. 2. landsk. þm. Það var einnig þess vegna, sem ég sagði, að ég hefði ekki áttað mig á, hvert hv. þm. var að fara í ræðu sinni. Ég hafði ekki þá ánægju að hlýða á ræðu hv. 2. þm. Reykv. um þetta mál, nema hluta af henni. Hann hóf mál sitt með því — það heyrði ég þó — að fara út fyrir eðlilegan ramma málsins, en mér hefur verið sagt, að hann hafi talað ýtarlega um landsbankavaldið og heildsalagróðann, og vil ég leyfa mér að skírskota til ræðu, sem ég hélt hér á Alþ. fyrir 2 árum til andsvara um þetta sama efni. Þau rök, sem ég færði fram þá, eru enn í gildi, og tel ég því óþarfa að endurtaka þau nú.

Hv. 2. landsk. þm. sagði, að ég hefði talið hann fara með rangmæli varðandi 2 atriði. Hann sagði, að ég hefði sagt það rangt vera, að ríkissjóður hefði skaðazt á fiskábyrgðinni um 50 milljónir kr. í 3 ár, og enn fremur að verðfallið á saltfiskinum hefði aðeins numið 6%. Hvorugt sagði ég. Ég sagði og gekk út frá, að þessar 50 milljónir væru rétt tilgreindar. Þá sagði ég: Það var um að ræða 17 milljónir króna að meðaltali á ári í þessum efnum, — og ég vildi láta hann álykta hverja viðbótarskatta við þyrftum að leggja á þjóðina, ef hún nú hefði átt að geta risið undir sams konar fiskábyrgð og áður kostaði almenning í landinu ekki nema 17 millj. króna. Sjálfur gaf hann hér upplýsingar um, að verðfallið á saltfiskinum hefði numið 6%. Þann 10. þ. m. var ég á fundi Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, þar sem hv. 2. landsk. þm. var einnig, en þar skýrði form. Sölusambandsins frá þessari niðurstöðu á athugunum, sem stjórn þess hafði látið gera í þessum efnum, og þó að ég að sönnu gæti um það í ræðu minni, sem ég flutti þar, að mér þætti mjög ósennilegt, að verðfall á fiskinum hefði ekki orðið meira, datt mér ekki í hug að véfengja þessa niðurstöðu, þótt hún kæmi mér á óvart. Hins vegar sagði ég við hv. 2. landsk. þm.: Ef verðfall á fiskinum er 6%, en gengislækkunin hefur hækkað söluverð fisksins erlendis um 74% og samt telji útgerðarmenn sig fá minna fyrir hvert kíló fiskjar í krónum og aurum heldur en þeir fengu fyrir gengislækkun, hvernig mundi dæmið þá standa, ef gengislækkunin hefði ekki verið gerð, og hvað mundu 17 millj. króna hrökkva lengi til þess að fylla það skarð, sem þar væri fyrir skildi? — Það var þetta, sem ég var að gera aths. við, en ekki að ég bæri brigður á þær tölur, sem hv. 2. landsk. þm. tilgreindi. — Ég veit að sönnu ekki, hverjir það verða, sem tapa á niðurfellingu skulda samkv. þessu frv., að svo miklu leyti sem um þvinguð skuldaskil verður að ræða, en það kemur mér á óvart, ef þeir, sem reka verzlun og iðnað, eiga ekki langmestan hluta af þeim kröfum, sem menn eiga á hendur útveginum í landinu og þá sérstaklega bátaútveginum. Það er mér einnig ný fregn, ef hætta er á því, að sjómenn fái við þessar aðgerðir stóran skell á sig. Ég held, að sjómenn eigi veðkröfur fyrir sínum skuldum, og ég veit ekki til, að þeir hafi fallið frá þeim kröfum — enda ástæðulaust að gera það. Ég held þess vegna, að það sé ólíklegt, sem hv. þm. gaf í skyn, að meginþunginn af niðurfellingu skulda samkv. frv. leggist á herðar hinna vanmáttugu í þessum efnum.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði talað um það, að gengislækkunin, sem gerð var í marz s.l., mundi sjá öllu farborða, einnig þeim vanda, sem hér er verið að etja við. Það hefur áður verið tekið fram, að þetta frv. er ætlað til þess að gera hreint fyrir dyrum útvegsins, og hv. 2. landsk. þm. veit, að mörg utanaðkomandi atvik hafa komið í veg fyrir, að þær vonir, sem bundnar voru við gengislækkunina í þágu útflutningsframleiðslunnar, hafi getað rætzt. En hefði gengislækkunin ekki verið framkvæmd og ríkissjóður hefði tekið að sér að fullnægja þörfum útvegsins, þá hefði ekki verið um annað að ræða en að leggja óbærilega þunga nýja skatta á almenning í landinu, og enginn hv. þm. hefur enn treyst sér til að benda á, hvar ætti að taka þær hundruð millj. króna, sem til þess hefði þurft. Aðaltilgangur gengislækkunarinnar var að létta undir með framleiðslunni með hækkuðu afurðaverði í krónum talið og vegna lækkaðs gengis krónunnar og svo hins vegar að færa almenningi í landinu nokkrar óbeinar bætur og aðallega með verzlunarfrelsi, sem vonir stóðu til að hægt væri að koma á, ef hallæri hefði ekki bætzt svo hörmulega ofan á þessar réttmætu fyrirætlanir og vonir, sem við gengislækkunina voru tengdar, því að ef tekizt hefði að gefa verzlunina frjálsa, hefði af því leitt aukið framboð á vörum og þar með lægra verð á innfluttum vörum.

Hv. 2. landsk. þm. þarf ekki — þótt hann sé sjálfur útvegsmaður — að tala hér neitt digurbarkalega við mig um það, að ég fylgist ekki með því, hvað útgerðarmenn tali og hugsi í þessum málum. Ég held, að ég sé eins kunnugur þessum málum og hann, og það líður varla sá dagur, að útvegsmenn tali ekki við mig um sín hagsmunamál — bæði í sambandi við embætti mitt sem sjútvmrh., auk þess sem ég á fjölda persónulegra vina í þessari atvinnugrein og hef sjálfur verið virkur þátttakandi í henni um langt skeið. Ég held þess vegna, að hann hafi engan kunnugleika fram yfir mig um þeirra hag eða viti betur, hverjum augum þeir líta framtíðina, og hann má ekki rugla því tvennu saman, hvort ég sjái ástæðu til að hlæja að honum sjálfum fyrir undarlegan málaflutning í þessu máli eða hvort mér sýnist sjálft yrkisefnið hlátursefni, — það er hagur útvegsins í landinu. Ég væri ánægður með þennan hv. þm. og hans flokk, ef þeir vildu taka með eins mikilli alvöru á málum útvegsins og ég hef gert og ef þeir vildu koma til dyranna eins og þeir væru klæddir, ekki til þess að þóknast útgerðarmönnum, heldur til þess að tjá þeim, eftir hvaða leiðum unnt væri að verða við óskum þeirra og hverjum af kröfum þeirra væri ekki hægt að verða við. Þessi hv. þm. var viðstaddur á fundi Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, þar sem mjög var deilt á ríkisstj. fyrir aðgerðir hennar í málefnum útvegsins og að hún hefði ekki tryggt annað gengi á ítölsku lírunni, og hann hlustaði á mig taka á mínar herðar þá andúð útgerðarmanna, sem leiddi af þeim ráðstöfunum ríkisstj., þar sem þeim fannst hún ekki hafa litið nægilega á þarfir útvegsins, en hins vegar var sjónarmið ríkisstj. og sérstaklega mitt þannig vegna hinnar aðkallandi nauðsynjar á að stöðva verðbólguna í landinu, að ég sá mér ekki fært að verða við kröfum útgerðarmanna og sagði þeim það þá sjálfur og tók á mig persónulega óþægindi af þessu. En hins vegar var sjónarmið ríkisstj. og mitt þá, að vegna þarfar almennings í landinu, vegna nauðsynjarinnar á að stöðva verðbólgu í landinu, þá sá ég mér ekki fært að verða við kröfum útvegsins, hvað þetta snerti, og tók þess vegna á mig persónulega óþægindi af þessu, enda þótt ýmsir útgerðarmenn vildu gefa því þann blæ, að ríkisstj. væri að kenna um þetta og eiginlega helzt eins og enginn væri nema ég í ríkisstj. — En ég skal vera ánægður, ef hv. 2. landsk. þm. talar um mál útvegsins eins og hann hefur innræti til, en sleppir hinum eingöngu pólitísku sjónarmiðum flokks síns, sem oft einkenna hann og hans flokksmenn, — þó að enginn hv. þm. sé sennilega saklaus í þeim efnum.

Hv. 2. landsk. þm. vék enn að því, að æskilegt hefði verið, að ríkið gæfi eftir allar sínar kröfur á hendur útveginum, án þess að setja við því nokkur skilyrði. Og ég sé nú ekki ástæðu til að endurtaka mikið af því, sem ég um þetta sagði, þegar málið var rætt hér í hv. d. fyrir tveim dögum. En ég vil þó minna á það, að mitt sjónarmið var í öndverðu, að ég hefði ekki séð neitt eftir því fyrir hönd ríkissjóðs að leggja því máli stuðning, að svo miklu leyti sem mín orð hefðu haft þar þunga, að ríkið gæfi útgerðinni eftir þessar 181/2 millj. kr., án þess að setja við því skilyrði, ef ég hefði treyst því eða talið mig mega treysta því, að þetta kæmi útveginum að verulegu gagni. Það var einmitt vegna þess, að rannsókn málsins og framhald hallærisins leiddi í ljós, að svo litlar líkur voru til, að slík aðstoð ríkisins gæti orðið útveginum í heild að verulegu gagni, að ég taldi ekki rétt að leggja til, að þetta væri gert. Til mála kom þá, eins og ég áður hef bent á, að gefa nokkrum hluta útvegsmanna eftir kröfur ríkissjóðs, þeim, sem færu í frjáls skuldaskil, að öllu, en að láta kröfur ríkissjóðs koma inn í önnur bú útvegsins til jafns við kröfur annarra kröfuhafa. En ekki heldur þetta sjónarmið gat ég aðhyllzt, vegna þess að þar hefði kröfuhöfum verið misívilnað. — Ég býst við, að sjónarmiðin í þessu séu okkur svo kunn, að það sé í raun og veru ekki ástæða til að skýra þau frekar. Það er nokkurt álitamál, hvað á að gera í þessu. Og ég segi allan minn innri mann, þegar ég viðurkenni, að mín tilhneiging var öll í þá átt að gefa þetta allt eftir. Ég lít á það eins og þeir hv. þm., sem hér hafa rætt um málið, að æskilegast væri, að ríkið viðurkenndi, að þessar kröfur væru niður fallnar, því að a.m.k. hefðu menn gert ráð fyrir því, þegar til þeirra var stofnað eða þegar hagur þeirra versnaði enn meir, að miðað við aðgerðir ríkisins gagnvart öðrum þurfandi þegnum þjóðfélagsins þá væri engu óeðlilegri linkind sýnd, þó kröfur þessar væru felldar niður af hálfu ríkissjóðs. En rannsókn málsins, yfirvegun og rökrétt hugsun leiddu mig inn á þá braut, sem frv. ber með sér. Og ég minni hér enn á það, að eftirgjafir á þessum kröfum af ríkisins hendi eru ekki eftirgjafir til útvegsins sjálfs, nema þá í óbeinum skilningi. Ég vil ekki vera að gera því skóna á þessu stigi málsins. en við skulum hugsa okkur, að ríkið beri fram þessar kröfur sínar almennt, um 181/2 millj. kr., í frjálsum skuldaskilum. Ef gefnar væru eftir af þeim 21/2 eða 31/2 milli. kr., sem ríkið annars gæti innheimt eftir frv., ef meiri hl. væri afskrifaður almennt af skuldunum, þar sem gert væri ráð fyrir, að kröfurnar, sem ríkið ætti í þessi bú, gæfu 20% í innheimtu — og það eru einnig alveg ímyndaðar tölur — og að ríkinu þannig áskotnaðist eitthvað nálægt þrem millj. kr., eru þeir hv. þm., sem hér hafa talað um þetta mál, vissir um, að það mætti ekki verja þeim þrem millj. kr. betur, annaðhvort í þágu útvegsins sjálfs eða þeirra manna, sem minnst burðarmagn hafa, t.d. sjómanna og verkamanna, þannig að meira gagn hlytist af í þágu þessara sjónarmiða, sem frv. er borið fram fyrir. heldur en með því að láta kröfuna um þær 3 millj. kr. niður falla? Ég hef ekkert umboð til þess að bjóða upp á slíka meðferð þessa fjár, sem ríkið þarna á. En að því er míns áhrifavalds gætir í þessum efnum, er ég fyrir mitt leyti að sjálfsögðu til viðræðna um það, hvernig ætti að ráðstafa því fé, sem ríkinu áskotnaðist með innheimtu þess hluta af þessum kröfum, sem auðið reyndist að innheimta. Við fyrri skuldaskilin minnir mig, að kröfur, sem ríkið innheimti, væru látnar falla Fiskveiðasjóði og koma þannig útveginum óbeint til hagsbóta. Einhvern slíkan hátt mætti hafa á þessu nú. Og ég vil, að menn athugi þetta allt, annaðhvort undir meðferð málsins í þinginu eða á seinna stigi þessa máls. Því að ekki verður málfrelsi tekið af mönnum, þó afgreiðslu þessa frv. verði lokið á Alþ. Það er ekki eins og menn missi réttinn til þess að fjalla um þetta mál fyrir það.

Ég vil svo ekki fara um málið fleiri orðum. Aðalatriðið er, að hlutverk þessa frv. er ekki það að tryggja framtíð útvegsins að neinu leyti á líkan hátt og ætlað var með gengisbreytingarlögunum. Þá átti að koma útveginum á réttan rekstrargrunn. Tilgangur þessa frv. er meir sá að gera hreint fyrir dyrum útvegsins nú — eins og hreingerning á íbúð, áður en flutt er inn í hana. Svo er eftir að sjá, hvernig gengur að draga fram lífið í nýhreingerðu íbúðinni.

Það er að sjálfsögðu ýmislegt, sem fram hefur komið í þessum umr., sem ég er ósammála um og gæti flutt um það langar ræður og skýrt mismunandi sjónarmið. En af því að ég álít, að öllum sé fyrir beztu, að þetta mál fái fremur hraðan heldur en seinan gang gegnum hæstv. Alþ., vil ég ekki að nauðsynjalausu tefja umr. — Og ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að heldur en að ljúka ekki umr. um málið í dag verði haldinn eftirmiðdagsfundur, og ef það dugir ekki til þess, þá kvöldfundur.