16.11.1950
Neðri deild: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. minntist örlítið á það, sem ég hafði sagt hér í ræðu, sem ég hélt, síðast þegar þetta mál var til umr. Og hann virtist, eins og einstaka sinnum áður, vilja gera lítið úr því, að hér væri nokkurt hringavald eða bankavald, sem nokkuð kæmi við útveginn eða bakaði honum nokkrar búsifjar. Ég veit ekki, hvort hæstv. atvmrh. vill ekki ræða þetta mál af því, að honum finnist sér það of skylt og sér henta að slá þessu yfir í „frasa“. En ég er reiðubúinn til þess að ræða þetta mál nokkru nákvæmar en ég gerði síðast. Og ég held, að það sé óhjákvæmilegt, ef Alþ. ætlar að gera upp við sig, hverjar þess skyldur eru gagnvart sjávarútveginum og hverjum það er að kenna, hvernig sjávarútvegurinn er kominn. Ég held, að ef Alþ. ætlar að afgr. mál eins og þetta á einhverjum réttlætisgrundvelli, þá verði hv. alþm., og ekki sízt hæstv. ríkisstjórn, að vera alveg ljóst, hverja ábyrgð ríkið ber sem slíkt og hverja ábyrgð Alþ. ber sem slíkt, með löggjöf, á því, hvernig nú er komið fyrir sjávarútveginum.

Ég vil ekki tefja þetta mál, en mig langar til að rekja í stuttu máli, hvernig er komið fyrir bátaútveginum, sem er að vinna þýðingarmikil störf fyrir þjóðfélagið.

Einhverjir fyrstu aðilarnir, sem vélbátaeigendur komast í kynni við, þegar þeir þurfa að koma af stað sinni útgerð, eru þeir seljendur, sem útgerðarmenn kaupa útgerðarvörur af, t.d. þeir, sem græða mest, olíuhringarnir. Ég býst við, að það blandist engum manni hugur um, að olíuhringarnir séu einhverjir allra mestu gróðaaðilar í okkar þjóðfélagi. Og hver er afstaða Alþ. til þeirra? Hún er sú, að þessir olíuhringar hafa einokun á olíuinnflutningnum og fá að selja útgerðinni olíu og fá einokun til þess. Og útgerðin hefur enga aðra möguleika. Þessir olíuhringar hafa grætt svo millj. kr. skiptir á ári hverju á viðskiptum við útgerðina. Og það hafa legið fyrir skýrslur um seinustu rannsókn, sem gerð hefur verið um afstöðu milli olíuhringanna annars vegar og smábátaútvegsins hins vegar, sem sýna, að gróði olíuhringanna og annarra hringa, sem bátaútvegurinn hefur skipt við, hefur verið nokkurn veginn jafnmikill eins og tap bátaútvegsins. Og þetta er staðfest í skýrslum ríkisstj. Hæstv. atvmrh. þarf ekki annað en að fletta upp í bók, sem honum var handgengin á sínum tíma, svo kallaðri Rauðku, til þess að sjá það út reiknað af hv. sjálfstæðismönnum og fyrrv. þm., að þetta standist á. — Hvað verður svo það næsta fyrir bátaútveginn, þegar hann er sloppinn frá hringunum og búinn að taka við veiðarfærum o.þ.l. með okurverði? Þá kemur hann næst til bankanna og biður um lán til þess að gera út. Hvaða svar fær hann þar? Jú, hann fær kannske lán, eftir langar stöður og mikla bið. Og með hvaða kjörum? Þau eru nú með 6% og 61/2% vöxtum. Og samt er um að ræða hér aðstoð bankans eða bankanna til að framleiða þann hlut, sem eftirsóttastur er í þjóðfélaginu, gjaldeyrinn. 6% og 61/2% vextir, — hvað þýðir það fyrir smáútveginn? Það er svo um sæmilega forretningu lítils atvinnurekanda í þjóðfélaginu, að ef hún ber 4% vexti, þá þykir það sæmilegt. — Ef smáútvegurinn fengi 2% vaxta lán og þau fyrirtæki, sem við útveginn starfa, þá mundi það gefa þeim 4% mismun frá því, sem nú er í vöxtum. Og það mundi breyta miklu, stórkostlega miklu, það veit hæstv. atvmrh. Ef hæstv. atvmrh. færi eftir því, sem hann kallaði sínar góðu tilhneigingar hér áðan, ætti hann að fá þingið til þess að samþ., að vextirnir yrðu ekki nema 2–22/%. En það er Landsbankinn, sem vill hækka vextina upp úr öllu valdi. Landsbankinn hefði sannarlega efni á því að veita smábátaútveginum 2–21/2% í staðinn fyrir 6–61/2%, en það er enginn vafi á því, að vextirnir fara upp í 7% eða jafnvel meira. Hvernig er afkoma Landsbankans? Við vitum það báðir, að undanfarin ár hefur verið um að ræða 16–17–18 millj. kr. hreinan gróða hjá Landsbankanum og að hann hefur átt yfir 100 millj. kr. í skuldlausum eignum nokkur undanfarin ár. Ég held því sannarlega, að Landsbankinn hefði efni á að lækka vextina niður í 2– 21/2% og minnka svolítið þennan gróða. Á Alþ. að slá því föstu, að þegar um er að ræða annars vegar stofnun, sem ríkið á sjálft og græðir stórkostlega á þeim gjaldeyri, sem vélbátaútvegurinn skaffar honum, — á að slá því föstu, að ef annar hvor eigi að láta undan, sé það lamb fátæka mannsins, sem eigi að slátra, en ríkasti aðilinn í okkar þjóðfélagi skuli engar fórnir færa og taka allt af hinum? Ég á bágt með að skilja þessa undanlátssemi við stofnun, sem er ekki annað en nokkrir embættismenn, sem heyra undir Alþ. og ríkisstj. Að vísu var það svo á árunum 1945–46, að þá voru Íslendingar óháðir þessu bankavaldi og ríkisstj. og Alþ. þorðu að segja því til syndanna og segja fyrir um, hvernig ætti að vinna þjóðinni til gagns. Er það vegna þess, að þetta ástand er breytt nú, að látið er svona undan Landsbankanum? Ég mundi gjarnan í þessu sambandi vilja fá upplýst: Er það svo, að t.d. Kveldúlfur og S.Í.S. séu farin að fá það mikil lán hjá Landsbankanum, að bankinn sé farinn að nota sér þau tök, sem hann þannig getur fengið yfir voldugustu aðilum okkar þjóðfélags, til þess að fyrirskipa Alþ., eins og hann ætlar sér að gera með þessu frv., hvernig það eigi að leysa þessi mál? Atvmrh. segir, að hann hafi góða tilhneigingu til þess að afgr. þetta mál þannig, að það komi að sem beztum notum fyrir útvegsmenn, en biður hins vegar um að flytja hér frv., sem hann segir sjálfur, þegar hann hefur athugað það vel, að hann sé engan veginn fullkomlega ánægður með. Er það orðið svo, að Landsbankinn fyrirskipi hæstv. ríkisstj., hvernig frv. hún eigi að flytja í þinginu?

Þegar svo ríkisvaldið er búið að beygja vélbátaútveginn undir það að verða að greiða okurrentur og láta síðan taka af honum vöruna og selja hana án þess að hann hafi nokkuð af henni að segja, þá gerist það, að gjaldeyririnn, sem með þessu móti er skapaður, er líka tekinn af fiskframleiðslunni og honum úthlutað eftir því, sem ríkisstj. þóknast, og fyrst og fremst til þeirra aðila, sem lagt hafa í kosningasjóð Sjálfstfl. (Atvmrh.: Ég heyrði ekki, hvað hv. þm. sagði. ) Ég sagði, að hugsanlegt væri, að þeim gjaldeyri, sem aflað væri að lokum með þessu móti, væri úthlutað eftir því, sem ríkisstj. þóknaðist, og fyrst og fremst til þeirra, sem lagt hefðu í kosningasjóð Sjálfstfl. Þannig fer þá um þennan gjaldeyri, þegar vélbátaútvegurinn eftir alla þessa erfiðleika, sem hann býr við sökum ráðstafana hæstv.. ríkisstj., er búinn að afla hans með ærnum erfiðismunum, gjaldeyri, sem er þjóðinni lífsnauðsyn. Er þessi gjaldeyrir þá svo eftirsóknarverður? Já, hann er það eftirsóknarverðasta í verzluninni, það er barizt um hann. Jafnvel heilir flokkar sameinast fyrst og fremst á þeim grundvelli, hvernig þeir eigi að skipta þessum gjaldeyri milli sín og sinna gæðinga. Af þessum gjaldeyri fæst svo gróði, mikill gróði. Þessi gjaldeyrir, sem vélbátaútvegurinn aflar, er undirstaðan undir aðalgróðalindunum í þjóðfélaginu, og heildsalastéttin, sem fær sinn stóra hluta af þessum gróða, vill svo náttúrlega helzt ekkert koma nærri þessari útgerð, segir meira að segja, að þessi útgerð beri sig ekki, hún sé á hausnum og það borgi sig ekki að gera út. Þetta er það álit, sem blöð Sjálfstfl. eru að reyna að skapa á útgerðinni, sem sé algert skilningsleysi á þörfum þjóðarinnar í þessum efnum. Þessir sömu aðilar, sem búnir eru að græða á tá og fingri á þessum útvegi, búnir að mergsjúga hann, þessir aðilar koma nú og segja, að þessi útvegur sé alltaf rekinn með tapi, þessi útvegur sé byrði á þjóðinni og það dugi ekkert annað við þennan útveg en að gera hann upp. Hvaða vit er nú í þessu? Hvaða vit er í því, að það bankavald, sem búið er að græða á þessari útgerð, komi hér til okkar á Alþ. með frv. eins og þetta og segi við okkur: þessi útgerð er alltaf með tap, þetta er ómögulegur rekstur og ekki víð hann talandi, það verður að gera hann upp og á þann hátt, að það vilji helzt enginn maður koma nærri þessari útgerð framar? — Alþ. verður að skapa hér einhvern réttlætisgrundvöll í afstöðu sinni gagnvart vélbátaútgerðinni. Alþ., sem er búið að beita sér svona móti útgerðinni, gefur öllum mögulegum ránfuglum í þjóðfélaginu aðstöðu til þess að kroppa svona duglega í hana á hverjum tíma, sem dreginn er fiskur úr sjó. Alþ. á að segja við þessa ránfugla: Þið verðið að láta af hendi rakna svolítið af þeim gróða, sem þið eruð búnir að gleypa af útgerðinni, lækka svolítið vextina, lækka svolítið olíuverðið, lækka svolítið gróðann. — Þetta tókst hér fyrir nokkrum árum, að fá nokkra lækkun á ýmsu því, sem að útgerðinni laut, t.d. lækkun vaxta, á meðan bankavaldið hafði ekki algerða einveldis- og einokunaraðstöðu í þjóðfélaginu, og ég held, að þeir tímar hljóti að koma, að Alþ. taki að sér enn á ný að fyrirskipa þær aðgerðir gagnvart þeim, sem á útgerðinni hafa grætt, að þeir verði nokkuð að létta undir með henni.

Hæstv. atvmrh. talaði um, að það væri hallæri, sem hefði komið í veg fyrir, að það hefði verið hægt að gera ýmislegt, sem hæstv. ríkisstj. hefði haft í huga. Hallærið, sem hæstv. atvmrh. er að tala um, það er skapað af hæstv. hallærisstjórn. Að vísu hefur verið síldarleysi undanfarin ár, og aflabrestur á þorskveiðunum hefur að vísu verið meiri á einstökum stöðum á landinu en áður, en það er þó ekki hann, sem hefur skapað það, að framleiðslan er miklu minni á freðfiski en verið hefur undanfarið. Ég sé, að Morgunblaðið í dag telur markaðsleysið sem hallæri. Markaðsleysið er búið til af hæstv. ríkisstj. og skipulagt, og hæstv. ríkisstj. vill ekki eða þorir ekki að gefa landsmönnum nokkra möguleika á að sýna fram á, að það sé ekki hallæri á því sviði. Það er haldið vægðarlaust í þá einokun, sem þessir voldugu aðilar hafa skapað sér á Íslandi, og síðan er reynt að telja fólki trú um, að ekki sé hægt að finna neinar leiðir út úr þessu. Ég þekki slíkan áróður, og e.t.v. þekkir hæstv. atvmrh. hann líka, því að það er sami áróður og fór fram árið 1944 í Vísi og Tímanum, að það yrði markaðsleysi og verkföll undireins og stríðinu lyki. Það voru þá vissir aðilar, sem höfðu áhuga fyrir því að lækka kaupgjald hjá fólki, það átti þá að reyna að telja fólki trú um, að markaðsleysi og verkföll væru alls staðar yfirvofandi strax í stríðslok, vegna þess að það voru ákveðnir aðilar, sem vildu þá setja allt á annan endann hér í þjóðfélaginu, og meira að segja Tíminn skrifaði í september 1944, að það væri þó betra, að allt stöðvaðist en samið væri við verkamenn um kauphækkun. Það eru samsvarandi öfl að verki núna, öfl, sem ýmist hafa ekki neina trú á, að íslenzkur sjávarútvegur geti þrifizt, eða vilja hagnýta sér atvinnuleysið, sem skapast með þessu hallærisástandi, með markaðsleysi til þess að knýja kaupið niður.

Það er vitanlegt, að atvinnuleysi og atvinnuskortur vegur nú hart að almenningi hér í landi, og það ríkir fátækt og skortur á fjöldamörgum verkamannaheimilum hér í Rvík, sem þó hafa staðið einna bezt af verkamannaheimilum landsins. Það er reynt að telja fólki trú um, að það sé hallæri og þess vegna verði að sætta sig við allt. Sem forsendu fyrir launalækkun er nauðsynlegt fyrir valdhafana að skapa vonleysi hjá fólki, brjóta niður hjá því alla trú á því, að nokkuð sé hægt að gera. Árið 1944 átti að skapa þetta sama, skapa vonleysi og trúleysi á, að nokkuð væri hægt að gera. Það tókst ekki, meðal annars vegna þess, að hæstv. atvmrh. skildi þá, hve mikla möguleika íslendingar höfðu, þó að hann fengi ekki allan flokk sinn, ekki einu sinni allan þingflokk sinn til að skilja það og styðja þá stj., sem hann myndaði. Fyrst ekki er hægt að skapa ríkisstjórn, sem þorir að hjálpa þjóðinni, þá fer fólkið fram á leyfi til að bjarga sér sjálft, en því er bannað það, af því að einokun ríkir í þessum efnum. Þó að vélbátaeigendur og bæir úti um land vilji bjarga sér með því að flytja sjálfir út framleiðslu sína, þá fá þeir það ekki. Þeim er haldið í járngreipum, og það er gert af flokki, sem segist fylgja frjálsri verzlun og framtaki einstaklinganna. Og svo segir hæstv. atvmrh., að ástandið hjá vélbátunum hefði ef til vill verið betra, ef hægt hefði verið að gefa verzlunina frjálsa. En hvers vegna er það ekki gert? Á hverju strandar? Það strandar á þeim aðilum, sem einokunaraðstöðu hafa í þessum efnum. Það er auðvelt að gefa verzlunina frjálsa, — og hvenær væri meiri þörf á því en einmitt núna, þegar ríkisstj. er búin að skapa hallæri í landinu? En við skulum gera okkur ljóst, að hallærisástand þarf ekki að ríkja í landinu. Íslenzka þjóðin er ríkari nú en hún var 1944 eða 1945. Hún er ríkari vegna þess, að peningar þeir, sem þjóðin átti þá, voru notaðir til kaupa á tækjum, sem nú geta skapað meiri auð en þjóðin hefur nokkru sinni eignazt. Þá var deilt á okkur hæstv. núv. atvmrh. fyrir að vilja heldur kaupa atvinnutæki til landsins fyrir peninga þessa en setja þá á vexti í enskum skuldabréfum. Allir geta nú séð, hve viturlegt það hefði verið að kaupa erlend skuldabréf í stað togaranna, sem við keyptum, og eiga nú slík kaup fyrir höndum með því verðlagi, sem er á togurum erlendis núna. Íslenzka þjóðin er því ríkari nú en hún var í stríðslok og heldur en hún hefði verið, þó að hún ætti mikið fjármagn í erlendum skuldabréfum. Hún á nú togara, sem geta skapað hundruð millj. í erlendum gjaldeyri árlega, ef einokunarvaldið aðeins bannar það ekki. Við getum auðveldlega selt allt, sem við framleiðum, en einokunarvaldið hindrar það, — einokunarvaldið, sem er að brjóta niður allan sjávarútveg okkar. Ég held því, að hæstv. atvmrh., ef hann finnur einhverjar góðar tilhneigingar hreyfast í brjósti sínu, geti óhræddur lagt þær fyrir hérna, því að ef um betra frv. en þetta væri að ræða, getur hann verið öruggur um fylgi þm. við það. En ef hann lætur landsbankavaldið svæfa þessar góðu tilfinningar sínar og kæfa þær niður, þá er það illt og mun kosta harðvítuga og grimma baráttu. Ríkið getur gefið eftir sín lán, og það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því hér í Alþ., að slíkt yrði gert án stórkostlegra skilyrða. Þá væri hægt að bæta fyrir mönnum, ef út í það yrði farið að gefa út skuldabréf, með því móti að gera þau gjaldgeng upp í bankaskuldir.

Þegar gengið er að vélbátaútveginum, verður að tala við hann sem aðila, sem þjóðin hefur grætt á og á skyldum að gegna við, en það á ekki að gera á hann árás að fyrirskipan einokunarvaldsins, sem hefur brotið hann niður og vill nú láta gera hann upp.

Ég hef nú orðið langorðari um þetta en ég ætlaði, en það er nú svo með hæstv. atvmrh., að theoría er annað en praksís hjá honum, og hann sagðist ekki ætla að fara út fyrir mál það, sem hér er til umr., en fer það svo samt sem áður, og þá hef ég tilhneigingu til að feta í hans spor. Ég held, að þessar umr. hafi verið til góðs. Þær hafa sýnt þær raddir einar frá hv. þm., að þeir séu á móti svona aðgerðum við vélbátaútveginn. Þeir vilja láta meta þýðingu hans fyrir þjóðina, og hve illa og ósanngjarnlega hefur verið farið með hann af valdhöfunum til ágóða fyrir einstaka volduga aðila í landinu.