16.11.1950
Neðri deild: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. endaði sína ræðu með yfirlýsingu um það, að ríkisstj. væri einhuga um að hlynna að hverjum þeim viðskiptum og hvar sem væri, sem almenningi væru til hagsbóta. Má ég nú eftir þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. leyfa mér að spyrja hann, hvernig á því stendur, að ríkisstj. og fjárhagsráð skuli ekki fást til að leyfa viðskipti við Austur Þýzkaland, t.d. með þeim skilyrðum, sem gert er ráð fyrir í frv., er ég hef flutt um þetta efni, að þeir, sem flytja inn vöru í vöruskiptum, selji hana ekki við hærra verði en því, sem almennt er í landinu um slíka vöru? Hæstv. atvmrh. hlýtur að þekkja það frv., sem ég hef lagt fram hér á þinginu, þar sem gert er ráð fyrir þessu fyrirkomulagi. En hæstv. ríkisstj. hefur bara ekki fengizt til að ræða þetta einu orði, og blöð hennar hafa ekki á málið minnzt fyrr en nú, að Morgunblaðið fer á stúfana með róg og rangfærslur, t.d. varðandi hámarksákvæðið, og lýsir því yfir, að frv. sé óraunhæft, þar sem viðskipti byggð á þessum grundvelli séu svo óhagstæð. En af hverju mega nú framleiðendur ekki reyna að selja þá vöru, sem þeir liggja með, t.d. til Austur-Þýzkalands eða Póllands í vöruskiptum gegn því skilyrði, að varan, sem þeir flytja inn í staðinn, sé síðan verðlögð eins og vörur frá frjálsum gjaldeyrislöndum, eins og t.d. Englandi? Má vera, að verðið á hinum innfluttu vörum yrði í sumum tilfellum hærra, en innflytjendurnir jafna þá þann halla sín á milli og hafa sjálfdæmi um það, hvað þeim er hagkvæmt. Hví mega fyrirtækin ekki reyna þetta? Hvers vegna má t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna ekki framkvæma slík viðskipti? Ekki er hún þó víst mitt prívat“-fyrirtæki? Ég spyr, af því mér heyrðist hæstv. ráðh. vera eitthvað ruglaður í ríminu; hann virðist t.d. halda, að ég hefði raunverulega gert þann hveiti-„bisness“, er hann talaði um. Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh.; ég hef engar tillögur gert í því efni. Hann veit raunar sjálfur, að það er allt öðruvísi til komið. Hæstv. ríkisstjórn vill gjarnan láta í veðri vaka að verið sé að reyna þessa leið af hennar hálfu — og jafnframt, að leiðin sé ekki fær. Í yfirlýsingu þeirri, sem hún gaf út til að hnekkja upplýsingum mínum um markað í Austur-Þýzkalandi lézt hún sjálf hafa reynt allt, sem hægt væri til að taka upp þessi viðskipti, og nú á að láta í það skína, að það standi svo sem ekki á tilraununum, en viðskiptin séu bara svo óhagkvæm. Og ráðh. gefur yfirlýsingu um hinn góða vilja ríkisstj. En því miður kemur það mjög undarlega fyrir að heyra slíkar yfirlýsingar, á meðan stofnanir eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna verða að ganga bónleiðar til búða fjárhagsráðs um að fá að gera slík viðskipti. — Nú veit þó hæstv. ríkisstjórn, að það er ný vertíð fram undan, og þá þyrfti að vera búið að selja sem mest af þeim fiski, sem liggur í landinu, og gera samninga um nýjar sölur. Hún veit líka, að aðrar þjóðir eru nú að reyna að gera sem stærsta samninga við Austur-Evrópulöndin, en hefst ekki að, heldur eru hendur þeirra aðila bundnar, sem taka vildu upp þessi viðskipti, og látið líta svo út sem verið sé að vernda almenningshagsmuni í sambandi við vöruverðið. En hví vill þá ríkisstj. ekki gefa þessum aðilum rétt til að selja vöru sína gegn því skilyrði, að vara, sem þær tækju í skiptum, yrði að lúta hámarksákvæðum hennar um sölu innanlands? Eða má ekki framkvæma þessi viðskipti á öðrum grundvelli en þeim, að hagstæðar sölur til Austur-Evrópu séu látnar bæta upp tapið á sölunum til Ameríku? Vill nú ekki hæstv. ráðh. upplýsa, hvaða fiskur liggur hér eiginlega undir steini?

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann væri hissa á þeim brennandi áhuga, sem ég hefði fyrir þessu viðskiptafrelsi. Hefur hann þá aldrei orðið var við það áður í öllum okkar viðskiptum? Var það ekki hann, sem lét mig fara sem fulltrúa ríkisstj. til Moskvu og Prag eftir stríðíð til að afla nýrra markaða austur þar? Og hefur þetta ekki tekizt? Og hefur það ekki gefið Íslandi mikla peninga sem hagstæðustu viðskipti, sem við höfum átt? Nú mega íslendingar hins vegar ekki reyna þessa leið lengur, ekki einu sinni sjálf sölusamtök fiskframleiðendanna. Svo viðhefur hæstv. ráðh. aðeins blekkingar og vafninga í umræðum um þessi mál. Ég verð alveg að frábiðja mér þá aðferð í umræðum, sem hann beitti hér. Það er nauðsyn, að þessi mál séu rædd af einlægni og það komi fram, hvort Íslendingar eigi að hafa eitthvert frelsi til að bjarga sér annað en tóma frasa um frelsi almennings. Er ekki unnt að þokast örlítið nær kjarna málsins? Er ekki rétt að spyrja t.d. í sambandi við söluna á hveitinu, hvaða skilyrði hæstv. ríkisstjórn setji t.d. um verð á kaffi, sem keypt er í sambandi við saltfisksöluna til Brazilíu? Er hæstv. ríkisstj. þar að miða við hag almennings? Þar eru engin skilyrði sett. En af hverju ekki að setja hámarksverð á vörur, sem fluttar eru inn úr þeirri áttinni, eins og gert er ráð fyrir í mínu frv.? Það er hægt að miða verðmæti innfluttrar vöru við kíló fiskjar og hafa hemil á verði hennar með því að miða kaupin við það. Og hvers vegna ekki að setja slíkt hámarksverð og lofa síðan þeim aðilum, sem slík innkaup vilja gera og fengið geta vörur fyrir það verð, að hafa frelsi til þess eða bera hallann, ef þeim reynast viðskiptin óhagkvæm? Hæstv. ráðh. hefur áreiðanlega margar beiðnir fyrirliggjandi um slík viðskipti. En þeim er synjað. Hæstv. ríkisstjórn vill bara ekki af einhverjum ástæðum leyfa þau eða taka upp viðskipti t.d. við Austur-Þýzkaland.

Varðandi S.Í.F., sem ráðh. sagði, að ég hefði verið að hnýta í, þá vil ég segja honum, að mér er kunnugt um sölur S.Í.F. engu síður en honum, og lagafyrirmæli, sem veita ráðh. rétt til að veita S.Í.F. einokun. En það hefur orðið að keppa frjálst, og ég sé ekki betur en það geti unað við það að vinna fyrir þá, sem í því vilja vera. Og hin hættulegu undirboð, sem hafa átt sér stað, gæti ríkisstj. ákaflega vel hindrað. Hún þarf ekki annað en setja lágmarksverð á saltfiskinn, og þá fær enginn aðstöðu til að undirbjóða S.Í.F.