11.12.1950
Neðri deild: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. sjútvn. fyrir að athuga þetta mál og fyrir þær brtt., sem eru prentaðar á þskj. 303 og hv. frsm. hefur nú gert grein fyrir. Ég er þessum brtt. samþykkur og tel þær til bóta og til að gera ákvæði frv. greinilegri. Eins og hv. frsm. hefur skýrt, þá er hér ekki um að ræða miklar efnisbreyt. á frv., nema breytingarnar samkv. c-lið 1. brtt. við 1. gr. frv. Þar er um allmikla breyt. að ræða. Skal ég því ekki gera till. að umræðuefni, en vil þó víkja lauslega að c-liðnum í 1. brtt. Eins og hv. þm. er kunnugt, var það þrennt, sem Landssamband ísi. útvegsmanna lagði sérstaka áherzlu á, að breytt yrði í þessu frv. Í fyrsta lagi það, sem c-liðurinn fjallar um, en eins og hv. frsm. skýrði frá, þá er efnisbreytingin sú, að í stað þess, að í frv. er mælt svo fyrir, að eftirgjöf á lánum samkv. 1. gr., sem eru veðtryggð, skuli ekki nema hærri hundraðshluta en eftir verður gefinn að meðaltali útgerðarfyrirtækjunum, sem aðstoð fá samkv. lögum þessum, þá skuli samkv. brtt. þessi höft leyst af og stjórn Skuldaskilasjóðs í sjálfsvald sett, að hve miklu leyti hún gefur eftir þessar kröfur. Mér er kunnugt um, að útgerðarmenn lögðu áherzlu á þetta atriði, og ég viðurkenni og fagna þessari brtt. og hygg, að hún muni verða til að greiða fyrir skuldaskilunum og létta kröfum af ríkissjóði. Hin önnur till., sem útgerðarmenn komu fram með, var um gjaldhæfni skuldabréfa Skuldaskilasjóðs samkv. 8. gr., eins og hv. frsm. drap á. Ég fellst á, að æskilegra hefði verið, ef hægt hefði verið að verða við þessari ósk útgerðarmanna, og ég fellst einnig á það sjónarmið, að þetta er nokkuð harður kostur þeim til handa, sem eiga þessar kröfur, að fá ekki nema lítinn hluta þeirra greiddan og auk þess með bréfum, sem ekki eru hæf til greiðslu á skuldum kröfuhafanna sjálfra. Ég vil þó taka fram, að skaði þessara manna orsakast ekki af skuldaskilunum sjálfum, heldur af þeim töpum, sem leiða til skuldaskilanna. En þeir verða þó fyrir töpum þessir menn, og það væri æskilegt að geta gert gjaldhæfni þessara bréfa meiri, þótt það hafi ekki reynzt auðið nú, því að ótti er um, að ef sú leið væri farin, þá mundi það trufla þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að halda í horfinu útgáfu seðla og aðrar ráðstafanir innan vébanda lánsstofnana til að koma í veg fyrir verðbólgu í landinu. Í öðru lagi vildi ég segja þetta um bréfin: Enda þótt greiðsluhæfni bréfanna sé takmörkuð með lögum, þá hlýtur sú regla að gilda jafnt um þessi bréf eins og önnur ríkistryggð verðbréf, að þau eru ætluð til sölu, og sé ég enga ástæðu til að efast um, að bankar og aðrar lánsstofnanir muni athuga með velvilja að greiða eitthvað fyrir föstum viðskiptamönnum sínum í sambandi við þessi verðbréf. Misnotkun mætti auðveldlega útiloka, með því að skilanefnd léti lánsstofnunum á sínum tíma í té lista yfir númer og upphæð þeirra bréfa, sem hver einstakur skuldheimtumaður fær við skuldaskilin. Ég vil árétta það, að enda þótt lög takmarki greiðsluhæfni bréfanna, þá standa vonir til, að bankarnir greiði fyrir sínum viðskiptamönnum og taki við bréfum og greiði þá þær skuldir, sem móttakandi bréfanna stendur í. — Þriðja atriðið, sem útgerðarmenn lögðu mikla áherzlu á, var varðandi ógreiddar afborganir á stofnlánum, sem nema nú samtals um 71 millj. króna. Útgerðarmenn óskuðu eftir því, að allt að 3 ára afborganir færðust aftur, þannig að lánstíminn lengdist um 3 ár. Ég hefði óskað að verða við þessari ósk útgerðarmanna, en ég hef ekki séð mér það fært og því látið nægja þau ákvæði, sem felast í 3. gr. þessa frv., en þar er tryggt, að ekki verði gengið hart að mönnum vegna þessara skulda, heldur jafnist upphæð gjaldfallinna afborgana niður á þau ár, sem eftir eru af lánstímanum. Ég hef áður sagt, að þetta frv. byggðist í fyrsta lagi á samkomulagi innan stjórnarinnar, eins og önnur frv., sem stjórnin flytur. En í öðru lagi hef ég átt í samningum um þessi mál við aðra aðila, einkum þó Landsbankann, og ég geri ráð fyrir, og mun knýja á til þess að svo verði, að hann muni inna af hendi þær greiðslur í reiðu fé, sem nauðsynlegar eru til þess að frv. nái fram að ganga. Ég hef orðið að semja við Landsbankann um þessi atriði einn, og hann hefur reynt að halda fast við, að staðið verði í skilum með afborganir af lánunum. Menn verða að gera sér ljóst, að það er að sjálfsögðu eðlilegt sjónarmið banka að standa sem fastast við þá kröfu, að skuldunautarnir standi í skilum. Það er orðið algengt hér að halda með þeim, sem ekki standa í skilum, og það er ekki vinsælt, ef bankarnir ganga hart eftir sínum skuldunautum að borga. Það hlýtur alltaf að vera matsatriði, hve bankarnir ganga langt í þessum efnum. Við fjmrh. höfum ræðzt við um þetta atriði og fallizt á það sjónarmið bankanna, að ef á annað borð rætist úr fyrir útveginum, þá sé engin hætta á ferðum. En það er alltaf matsatriði, hvort skuldunautar geti staðið undir láni og borgað það á 11–14 árum eða 14–17. En um leið og ég mæli gegn því, að hann geti staðið undir láninu á 14 eða 17 árum, er enginn kominn til að segja, ef hann geti ekki staðið undir því á 14 árum, að hann geti það þá á 17. — Þetta verður alltaf matsatriði.

Ég tel svo, að þetta mál liggi ljóst fyrir hv. dm. Í fyrsta lagi af því að þetta er margrætt mál hér á undanförnum árum, till. útvegsins og úrræði honum til bjargar, í öðru lagi vegna þess, að formsatriði þessa frv. eru nokkuð shlj. eldri l. um þetta efni, og loks vegna þess, að þetta frv. var rætt hér ýtarlega við 1. umr., auk þess sem hv. frsm. n. hefur gert glögga grein fyrir þeim brtt., sem n. flytur, ásamt þeim höfuðbjargráðum, sem frv. færir útvegsmönnum. Af öllum þessum ástæðum liggur málið svo ljóst fyrir, að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar nema sérstakt tilefni gefist til. En ég vil mjög taka undir óskir hv. frsm. um, að málið fái sem skjótasta afgreiðslu í hv. d. og raunar í hæstv. Alþ., því að öll töf á frv. er til hins verra.