11.12.1950
Neðri deild: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. atvmrh. og hv. frsm. sjútvn., að æskilegt væri, að þetta mál fengi sem skjótasta afgreiðslu. Annars hefur það ekki legið hér í d. og er ekki mjög mikið rætt, heldur hefur það legið hjá hv. sjútvn. til athugunar, og að sjálfsögðu hefur sú athugun komið að nokkru gagni, en æskilegt hefði verið, að frv. hefði tekið nokkuð fleiri breyt. en það hefur gert eftir þá löngu athugun, sem það hefur fengið hjá sjútvn. Hæstv. atvmrh. gat þess að það hefði aðallega verið þrennt sem Landssamband ísl. útvegsmanna hefði lagt áherzlu á að breyta í frv., vegna þess að við fyrstu athugun, sem frv. fékk hjá L.Í.Ú., var það í nokkuð öðru formi en það er nú. M.a. kom frv. þannig frá hæstv. atvmrh. til L.Í.Ú., að gert var ráð fyrir, í staðinn fyrir jafnar afborganir af skipakaupalánum á lánstímanum, sem eftir var, að lánstíminn væri færður aftur um 3 ár. Ég veit ekki annað en að fulltrúar Landssambandsins hafi verið mjög ánægðir með þetta ákvæði frv. og talið það til bóta. Þessu er svo breytt síðar í meðförunum, og þegar Landssambandið fékk frv. næst til athugunar, þá er búið að breyta þessu í jöfn vanskilalán til enda lánstímans. Að öðru leyti hafði frv. tekið þeirri breyt. frá því sem var upphaflega, að gert var ráð fyrir, að stjórnin væri skipuð þremur mönnum, einum frá hvorum banka og einum frá ríkisstj. Þetta taldi Landssambandið yfirleitt eðlilegt og hafði ekkert við það að athuga. Síðar, þegar frv. var lagt fram á Alþ., þá er þetta þannig, að í stjórninni skuli vera 4 menn, 2 frá bönkunum og 2 þar að auki, annar frá fjmrn., en fyrir hvern 4. maðurinn er, veit ég ekki. En í sambandi við þessa nýskipun á stjórn skuldaskilasjóðs fór Landssambandið fram á, fyrst faríð væri að fjölga í stjórninni, að hún yrði ákveðin 5 menn og Landssambandið fengi 1 fulltrúa. Sá háttur hafði verið á hafður um þetta frv., að áður en það var lagt fyrir þingið, hafði það verið sent L.Í.Ú., og ég get fyrir Landssambandsins hönd verið ánægður yfir, að svo var gert. Landssambandið hafði þá fulltrúafund, og hann tók frv. til athugunar og gerði við það nokkrar aths. Eftir þennan fund var skipuð sérstök n. í málið, sem kom á fund hjá sjútvn. og fékk tækifæri til að setja fram nokkrar aths., sem nm. vildu gera fyrir hönd Landssambandsins. Eftir að frv. var svo lagt fram, var haldinn aðalfundur Landssambandsins, sem enn fékk frv. til athugunar, og eftir þá athugun voru samþ. till., sem sendar voru sjútvn., með bréfi dags. 4. des. þessa árs, og aðalatriðin í þeim aths., sem fundurinn gerði við frv., eru aðeins í 7 liðum. Það fyrsta er, að fellt verði niður ákvæði 1. gr. frv. um, að eftirgjöf samkv. henni megi ekki nema hærri hundraðshluta en eftir verður gefinn að meðaltali þeim útgerðarfyrirtækjum, sem aðstoð fá til opinberra skuldaskila. Þetta atriði hefur hv. sjútvn. tekið til greina, og vil ég lýsa ánægju minni yfir því. Aðrar aths., sem fundur Landssambandsins gerði við þetta frv., voru, að ákvæði 3. gr. um greiðslufrest á ógreiddum afborgunum af lánum til skipakaupa úr Stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóði Íslands verði færð í hið upprunalega horf frv., þannig að lánstíminn lengist um 3 ár. Á þetta ákvæði hafði Landssambandið frá byrjun lagt sitt samþykki, og verður að telja miður farið, að því var breytt á þann hátt sem gert var, þegar frv. var lagt fram á Alþ. Undanfarin 3 ár hefur verið erfitt að standa í skilum með skipakaupalán, og ég fyrir mitt leyti verð að telja, að hagur vélbátaútvegsins hljóti að breytast mjög mikið til batnaðar til þess að hægt sé að njóta hagnaðar með þær afborganir, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., að ekki hafi verið hægt að standa í skilum með undanfarin 3 ár. Það hefði að öllu leyti verið eðlilegra, að sá háttur hefði verið hafður á þessu, sem upprunalega var gert ráð fyrir í frv., að lengja lánstímann. Ef útlit yrði fyrir það, að hagur vélbátaútvegsins batnaði mikið, þá var að sjálfsögðu hægt að hafa ákvæði í gr. um það, að stjórn skuldaskilasjóðs gæti, ef hagur bátaútgerðarinnar batnaði, stytt þennan lánstíma eða lagt niður þann tíma, sem um er að ræða í frv. En fyrir fram að gera ráð fyrir því, að hagur vélbátaútgerðarinnar lagist það mikið, að hann þoli hærri afborganir en hann hefur gert undanfarin ár, tel ég ákaflega óvarlegt. Ég fæ ekki skilið, að hæstv. ríkisstj. vilji fallast á þetta, vegna þess að ef á að gera ráðstafanir á annað borð til þess að gera vélbátaútveginum fært að starfa áfram, þá þyrftu þessar ráðstafanir að vera þannig, að ekki væri tekið aftur með annarri hendinni það, sem látið er með hinni, en það tel ég, að sé gert með þessu ákvæði frv. eins og það er nú. Þriðja aths. var, að heimildin til greiðslufrests á skipakaupalánum verði látin ná til þeirra, sem síldveiðar stunduðu fyrir Norðurlandi á árunum 1945– 1950, þó menn eigi hafi fengið aðstoðarlán, ef þeir að dómi skilanefndar eiga erfitt með greiðslu. Þessi aths. er gerð eftir mjög ákveðnum tilmælum nokkurra norðlenzkra útgerðarmanna, sem bentu á, að það væru dæmi þess á Norðurlandi, að menn hefðu komizt þar af án þess að fá nokkur aðstoðarlán, en nú væri hag þeirra svo komið, að þeir ættu erfitt með sumir að standa í skilum með skipakaupalánin. Ég hygg, að þessi aths. sé alveg rétt, og eins og frv. er orðað, virðist mér vera ákaflega hæpið, að nokkrir útgerðarmenn eða útgerðarfélög geti fengið frest á stofnlánadeildarlánum eða fiskveiðasjóðslánum, nema að fá aðstoð samkv. þessum l., þ.e.a.s. skuldi ríkissjóði lán samkv. 1. gr. frv. og láti auglýsa eftir kröfum á hendur sér í Lögbirtingablaðinu samkv. 5. gr. frv. Nú fæ ég ekki skilið, ef svo kynni að vera ástatt um nokkra menn, að þeir hafi hingað til getað innt af hendi greiðslur, sem þeir áttu að greiða, en þyrftu nú að fá frest í Stofnlánadeildinni, hvers vegna ætti að fara að auglýsa þeirra bú til eins konar gjaldþrotaskipta. Ég fyrir mitt leyti vildi beina því til hv. sjútvn., að hún freisti þess að taka þessi tilmæli til greina, þar sem ekki er gert ráð fyrir því, að aðrir geti fengið frest á stofnlánadeildarlánum, þó þeir hafi stundað síldveiðar undanfarin ár, en þeir, sem áður hafa fengið aðstoð samkv. lögunum.

Fjórða aths. er á þá leið, að dráttarvextir verði ekki reiknaðir af vangoldnum lánum þessara ára. — Nú er það svo, að allur fjöldi þeirra, sem hafa átt fé hjá útgerðarmönnum, geta ekki fengið vexti af sínu fé á þessum árum, og það sýnist ekki ástæða til þess að fara með dráttarvextina upp, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., á þessum skuldum, sem sannarlega eru óinnheimtanlegar á þessum tíma, og það getur ekki gert nema hækka skuldaupphæðina, sem er nóg fyrir.

Þá er 5. aths., að stjórn skuldaskilasjóðs verði gefin heimild til að fella niður auglýsingu um innköllun, ef hún telur umsækjandann hafa gert fulla grein fyrir fjárhag sínum. Það var litið svo á af aðalfundi Landssambandsins, að ef stjórn skuldaskilasjóðs telur, að maður geri fulla grein fyrir fjárhag sínum, þá þyrfti ekki að auglýsa eftir innköllun, heldur yrði þetta á valdi stjórnar skuldaskilasjóðs. Þó að þetta sé ekki mikilsvert atriði, þá skil ég ekki annað en að það sé meinfangalaust að leggja þetta á vald skuldaskilasjóðs.

Þá er 6. atriðið, að skuldabréf skuldaskilasjóðs fái eigi minna gildi sem gjaldeyrir til greiðslu á skuldum en ákveðið var í l. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda frá 3. marz 1935. Upp úr þessu atriði var mjög mikið lagt, og ég heyrði það á hæstv. atvmrh., að hann taldi, að raddir, sem hefðu komið fram við fyrri umr. málsins um það að auka gildi skuldabréfanna, væru á fullum rökum reistar. Ég vil endurtaka, að ég geri lítið úr því, að hæstv. atvmrh. gefi hér yfirlýsingu um, að honum finnist hann hafa rökstuddar vonir fyrir því, að bankarnir mundu á einhvern hátt greiða fyrir sölu þessara skuldabréfa. En ég hygg, að ef svo kynni að fara, að þessar rökstuddu vonir brygðust eitthvað, þá mundi vera meira öryggi í því fyrir skuldareigendur, sem þurfa að afskrifa mikið af sínum skuldum, að fá eitthvert ákvæði um það, til hvers þessi bréf skuli hafa gildi. En það mundi verða erfitt að fara eftir á að semja fyrir hvern mann við lánsstofnanir, hvað þær vildu úr þessum bréfum gera, því venjulega hefur verið á það bent hér í hv. d., að ýmis fyrirtæki, sem hafa lánað vélbátaeigendum á undanförnum árum, mundu verða mjög hart úti, ef bréfin fengju ekki meira gildi en gert er ráð fyrir í l., og ef ætlazt er til þess, að þau fái meira gildi, þá fæ ég ekki skilið, hvers vegna ekki má setja ákvæði um það inn í lögin. Ef til vill mundu þau ekki þurfa að hafa eins víðtækt gildi og gert er ráð fyrir í eldri skuldaskilasjóðslögunum, en það er svo þröngur stakkur sniðinn með þessu frv., að það getur orðið mörgum, sem eiga að búa við framkvæmd þessara l., til óþæginda og tjóns.

Þá var það 7. aths. frá Landssambandinu, að stjórn skuldaskilasjóðs verði skipuð 3 mönnum eða 5, og tilnefni L.Í.Ú. einn mann í stjórnina. Ég skal viðurkenna, að með því að í stjórninni séu ekki nema 3 menn, þá er erfitt að uppfylla þessa ósk, mér finnst eðlilegt, að stjórn skuldaskilasjóðs sé skipuð einum manni frá hvorum banka og einum frá ríkisstj., en ef stjórnin er aukin úr 3 mönnum, þá er þessi till. Landssambandsins réttmæt og sjálfsögð.

Um þær aths., sem hingað hafa verið sendar, mun ég ekki fara fleiri orðum, en ein aths. kom fram sérstaklega á aðalfundi Landssambandsins, sem n., sem skipuð var af aðalfundinum, var falið að koma áleiðis til Alþ. En það var aths. um það, hvað ætti að leggja til grundvallar við mat á skipum og eignum vélbátaeigenda. Á fundinum kom fram sú skoðun, að eðlilegt væri, að skipin yrðu metin nokkuð eftir þeim aldri, sem gert er ráð fyrir í l., en farið eftir lögboðnum og löglegum afskriftum. Á það var bent, að mjög miklar afskriftir á skipum á þessu ári mundu leiða til þess, að mörg af hinum eldri skipum og nokkur af þeim yngri mundu þá verða metin svo lágt, að mikil freisting yrði fyrir veðhafa að láta leggja sér þau út, og á þann hátt mundu verða eigendaskipti á skipunum. Það var svo gerð sú aths., að ef ákvæði yrði sett inn í l. um það, að fullt tillit væri tekið til lögheimilla afskrifta, þá mætti setja ákvæði í 26. gr., „enda óski veðhafi ekki eftir kaupum á hinni veðsettu eign,“ og mætti hækka þetta matsverð að verulegu leyti. Ég hygg, að ástæðan fyrir því, að þetta kom fram á landssambandsfundinum, sé sú, að menn óski yfirleitt eftir því, að ekki yrði farið út í það að afskrifa skip neitt fyrir veðskuldum. Þeir, sem hefðu stjórn þessara mála með höndum, mundu sjá um það, að réttur veðhafa væri tryggður án þess að tillit væri tekið til þess, hvort líklegt væri, að skipaeigendur gætu nokkurn tíma borgað veðskuldir. Þessir menn færðu það fram því til framdráttar, að þeir teldu rétt, að veðskuldir væru skrifaðar eitthvað niður, að bankarnir hefðu á undanförnum árum, þegar útgerðin tapaði miklu fé, safnað mjög miklum sjóðum og hefðu þess vegna í rauninni möguleika til þess að geta afskrifað nokkuð af þessum skuldum til þess að létta undir með vélbátaútveginum og reyna að tryggja framtíðarrekstur hans. Nú er ég ekki á þeirri skoðun, að það eigi á einn eða annan hátt að ganga á rétt veðhafa með þessu uppgjöri, en ég tel, að þetta sé þó atriði, sem vel þyrfti að athuga, en það mundi frekar vera framkvæmdaratriði í skuldaskilunum en að unnt sé að setja um það ákvæði í löggjöf. Það eru að vísu í þessu frv. settar sérstakar reglur, í 17. gr., um það, hversu skuli fara um mat á fasteignum og skipum lánbeiðanda, án þess þó að sérstaklega sé farið inn á þetta atriði. En ég fyrir mitt leyti hefði talið, að hv. sjútvn. hefði þurft að taka þetta atriði sérstaklega til umr., það væri þess virði, að hún bæri sig saman við stjórn skuldaskilasjóðs eða atvmrh. um það, hvað hugsanlegt væri í þessum efnum.

Ég vil ekki tefja framgang þessa máls, en ég taldi rétt að láta þetta koma fram við þessa umr., en mun milli 2. og 3. umr. leita samkomulags við aðra hv. þm. um það að flytja brtt. við þetta frv. á þeim grundvelli, sem ég hef hér lýst. Ég geri ráð fyrir, að óskað sé eftir því, að frv. sé afgr. við þessa umr. í dag eða á næsta fundi, en mundi þá bera fram brtt. við 3. umr. á þá leið, sem ég hef sagt frá.