11.12.1950
Neðri deild: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þær ræður, sem hér hafa verið fluttar af hv. þm. Ísaf. og hv. 2. landsk. þm., sem komu með gagnrýni á frv., gefa ekki tilefni til langrar ræðu af minni hálfu. Ræða hæstv. atvmrh. skýrði tilgang frv. En vegna þess, sem hv. 2. landsk. þm. sagði um þvinguð skuldaskil og frjáls skuldaskil og að hann sagðist vera mótfallinn þvinguðum skuldaskilum, vil ég minna á, að enn eru í gildi lög um frjáls skuldaskil, sem sett voru í árslok 4948 um það efni. Í þeim lögum var heimilað að gefa eftir, að nokkru eða öllu leyti, viss aðstoðarlán, sem síldarútvegsmönnum voru veitt, að því tilskildu, að þeir útvegsmenn gætu náð frjálsum skuldaskilum. Skilanefnd, sem starfað hefur samkv. þeim lögum, var ætlað að ganga þá frá eftirgjöfum, að fengnum þessum skuldaskilum. Nú var það vorið 1949, sem gefinn var kostur á þessum frjálsu skuldaskilum. Margir sóttu um eftirgjöf lána og fengu greiðslufrest. Síðan hafa fleiri bætzt við, en niðurstaðan var sú, að mjög fáir höfðu sagt n., að þeir gætu náð frjálsum skuldaskilum. Þetta sýnir, að frjáls skuldaskilaleið er engan veginn einhlít og hefur ekki nægt hlutaðeigendum, því ef svo hefði verið, þá hefðu þeir lagt sig fram við að fá hana. Nú er þessi kafli laganna um skuldaskil útvegsmanna til orðinn vegna þess, að menn sáu, að hin eldri ákvæði um frjáls skuldaskil nægðu ekki. Nú hefur sú reynsla, sem ég nefndi, sýnt, að þau komu fáum að gagni. Þótt talað sé um þvinguð skuldaskil, þá er ekki um neina þvingun að ræða fyrir útgerðarmennina. Það er verið að þvinga kröfuhafa, hann verður að gefa eftir ákveðinn hundraðshluta. Er þetta nefnt þvinguð skuldaskil eftir þessari aðferð, til aðgreiningar frá frjálsum skuldaskilum. Æskilegt er, að menn geri sér grein fyrir, að lögin eru engin þvingun fyrir útgerðarmenn.

Þá vil ég lauslega minnast á fáein atriði, sem hér komu fram. Vona ég, að það gefi ekki tilefni til mikilla andmæla. Í fyrsta lagi það, sem hv. þm. Ísaf. sagði. Hann sagði, að málið hefði verið lengi til meðferðar í sjútvn. Ég vil geta þess, að það kom ekki til umr. fyrr en um miðjan nóv., en það eru nokkrir dagar síðan n. hefur lokið brtt. við frv. Tíminn milli 1. og 2. umr. er tíminn, sem útgerðarmenn og aðrir þurftu til að athuga málið. Hv. þm. gat þess, að frv. hefði breytzt síðan það var sent til Landssambands ísl. útvegsmanna. Má vel vera svo. Till. hafa verið gerðar um málið af skilanefnd. Ég veit ekki, hvort frv. hefur verið í annarri mynd í stjórn L.Í.Ú. Þegar fulltrúi L.í.Ú. kom til sjútvn. 15. nóv., var óskað breytinga á 3. gr., eða breyt. á 1., 3. og 9. gr. Ekki var óskað eftir breyt. á fleiri greinum þá. Ég vil taka fram, vegna þess, sem kom fram í umr. frá hv. þm. Ísaf. varðandi ákvæði 5. gr. um að láta í Lögbirtingablaðið, að þessir fulltrúar L.Í.Ú. kæmu með óskir um breytingu, tel ég óhætt að fullyrða, að þeir hafa ekki komið fram með neinar beinar óskir. — Hv. þm. Ísaf. ræddi um skipun stjórnar skuldaskilasjóðs. Ákvæði eru í 14. gr. frv. um að einn í stjórninni skuli skipaður af stjórn Landsbanka Íslands, tveir af stjórn Útvegsbanka Íslands og tveir af ríkisstj.

Hv. þm. Ísaf. ræddi hér um vangreiddar afborganir af stofnlánunum og ákvæði í frv. um þær. Það mun vera svo, að skipalán eru veitt til 20 ára eða a.m.k. heimild til þess, að lán sé veitt út á ný skip til 20 ára. Er ákvæði um þetta í 9. gr. l. og er annars gert ráð fyrir, að það sé veitt til fimmtán ára. Ég ætla, að þetta lán sé veitt til 20 ára og dreifist afborganir á þann tíma. Mér finnst, að það megi taka tillit til þess þegar rætt er um þetta.

Ég mun ekki tala lengi enn þá. Hv. þm. Ísaf. minntist á nýja skipan á þessu og gat þess, að hann mundi jafnvel bera fram brtt. síðar. Þetta um virðingarverð skipanna er mikið vandamál, og væri heppilegt, að ákvæðin í l. væru ekki mjög ströng, svo að það mætti hnika til. Frá sjónarmiði útgerðarmanna er það vafamál, hvort sé hagstæðara, að virðingarverð skipanna sé hátt eða lágt. Þetta þarf allt saman að athuga nánar, þegar einhverjar staðreyndir eru komnar í ljós.

Hv. þm. Ísaf. taldi æskilegt, að útgerðarmenn gætu fengið greiðslufrest á afborgunum, þó að þeir hafi ekki fengið aðstoðarlán, að mér skildist. Ég tel, að heppilegra sé að taka ekki þetta atriði til athugunar í sambandi við þessi lög, því að það eru fleiri en útgerðarmenn, sem hafa fengið þessi stofnlán, og er vandi að sjá, hvar á að greina á milli. Þeir minntust báðir á þetta atriði, hv. þm. Ísaf. og hv. 2. landsk. Ég held það beri að athuga, hvort það sé heppilegt að ræða stofnlán þessara aðila í sambandi við stofnlán annarra aðila.

Hv. 2. landsk. gerði nokkuð að umræðuefni í upphafi síns máls, hvort skuldaskilin kæmu ekki harðast niður á útgerðinni í þorpunum, og kvaðst óttast það. Mér skilst, að ýmis fyrirtæki í þessum þorpum hafi lánað útgerðinni til rekstrar, og mundi það þá lenda á þeim að gefa eftir kröfur sínar á hendur útgerðinni. Ég bendi á það, þó að skuldaskilin verði lögfest, verða þau engin þvingun. Það er alveg á valdi útgerðarmanna sjálfra, hvort þeir taka tillit til þessara fyrirtækja. Ef þeir hafa hag af því, munu þeir að sjálfsögðu gera það.

En um þetta mál má í raun og veru segja það, að það er til umr. hér á Alþingi að gefa eftir skuldir og aðstoðarlán til útvegsins, sem stafar af slæmu ástandi í atvinnumálum þjóðarinnar, og engar líkur til, að útvegurinn geti staðið í skilum með þær skuldir. Þess vegna er ekki verið að ákveða þessar eftirgjafir, heldur hvernig á að koma þeim sem haganlegast fyrir fyrir útgerðina og þjóðina í heild.