12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér láðist að svara þessari fsp. frá hv. þm. Ísaf., hvort nú þegar hafi verið ákveðnar reglur varðandi mat skipanna o.fl., sem hann gat um í því sambandi. Þetta hefur ekki verið rætt neitt milli mín og væntanlegrar sjóðsstjórnar, og er ekki ætlazt til, að hér gildi aðrar reglur en þær, sem greinir í 17. gr. frv.

Varðandi hina fsp., hvort ég vilji beita mér fyrir brtt. efnislega svipuðum þeim, sem frá greinir í b- og c-lið 1. brtt. þeirra og 3. brtt., þá ætlaðist ég til, að hv. þm. og aðrir gætu skilið það af ummælum mínum, að varðandi c-lið 1. brtt., þ.e. varðandi dráttarvextina, og 3. brtt., þ.e. varðandi sjóðsstjórnina, taldi ég, að þeir af stjórnarliðinu, sem um þetta mál hefðu fjallað, þeir væru velviljaðir þessum till. Af því leiðir, að ég mun, þó að ég vilji ekki á þessu stigi málsins taka ábyrgð á málalokum í þeim efnum, beita mér fyrir þessum tveimur till., en um 3. brtt. vil ég ekki hafa eins sterk orð á þessu stigi málsins, þó að ég hafi í minni fyrri ræðu látið orð falla um það, að mér þætti æskilegt, að hægt væri að verða við þessum óskum, sem eru sannarlega sanngjarnar, en það fylgir, eins og ég sagði, nokkur böggull skammrifi, og ég þarf að athuga þá hlið málsins í samráði við þá menn, sem að þessum málum vinna með ríkisstj. Ég hygg þó, að ekki sé rétt af þeim mönnum, sem óska eftir að sú till. nái samþykki, að láta ganga atkv. um hana nú, því að málinu er betur borgið með því, að nánari athugun fari fram á þessu. Ég ætlast til þess, að allir hv. þm. hafi skilið það af ummælum mínum, að einmitt þessi þrjú málsatriði hafa verið athuguð af stjórnarliðinu eða þeim mönnum þess, sem sérstaklega fjalla um þetta mál, og einmitt þess vegna er ég reiðubúinn nú þegar að láta þetta skýr ummæli falla um þessi málsatriði. Ég er einnig reiðubúinn að skýra frá afstöðunni til aliðar 1. brtt., því að stj. hefur tekið afstöðu til hans, og það eina, sem ég hef á þessu stigi málsins ekki viljað segja skýrt til um, er 2. brtt., þó að ég sé henni persónulega mótfallinn. — Við getum skipt þessum brtt. í þrennt: 1. brtt., sem stjórnarliðið beitir sér á móti, eftir öllum atvikum málsins. Hvort sem einstakir þm. hafa raunverulega löngun til að samþ. hana eða ekki, munum við í stj. ekki samþ. hana. — Þar næst kemur 2. brtt., sem ég hef ekki haft tækifæri til að ræða við þá menn, sem um þetta mál fjalla, en ég er persónulega mótfallinn. Og loks er svo 3. brtt., sem ég gat nú undirbúningslaust svarað vegna þess að samstarfsmenn mínir í ríkisstj. og sjútvn. hafa rætt þetta mál nægilega mikið til þess, að ég veit hug þeirra til málsins. Ég veit, að þeir hafa tilhneigingu til þess að fjölga í stjórninni, þó ekki væri til annars en að gera Landssambandinu það til geðs, og varðandi dráttarvextina vil ég geta þess, að rætt hefur verið um, að það ætti að fella þá niður á þann hátt, sem greinir í brtt., en það væri ekki rétt af mér að gefa um það skýlaust fyrirheit, að þetta ætti að fella niður, því að ég hef ekki haft tækifæri til að ræða þetta við stjórnarflokkana. Annars er ég, eins og ég sagði, reiðubúinn til að gefa þessi svör núna vegna þess, að menn hafa rætt þetta mál, áður en till. komu fram, á þá leið, að ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir efnislega þessum tveimur till. og varðandi þá þriðju. B-liður 1. brtt. er ekki eins til mergjar brotinn og hinar tvær till., en ég hygg, að það sé rétt og mælist til þess, vegna þess að ég hef löngun til að fá þá till. samþ., að hún sé tekin aftur.

Ég vona, að þetta sé nægilega skýrt til þess, að ekkert fari á milli mála um hug þeirra manna, sem fjallað hafa um þetta mál af hálfu stjórnarflokkanna.