20.10.1950
Efri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

7. mál, skólastjóralaun og kennara við barnaskóla

Frsm., minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur klofnað um þetta mál, eins og frsm. meiri hl. lýsti. Meiri hl. gefur út álit á þskj. 40, og þó að það sé ekki stórt atriði, þá vildi ég mega leiðrétta það, sem er í nál., að minni hl. lagði ekki til, að frv. sé fellt, eins og sagt er frá í álitinu og birt var m.a. í útvarpsfréttum. Eins og þetta er bókað í fundargerð og undirritað af form. og ritara, þá stendur það hér þannig: „3 nm. leggja til, að frv. sé samþ. óbreytt, en einn, Gísli Jónsson, getur ekki fallizt á það og gefur út sérstakt nál.“ Það er ekki mikið, sem munar, en ég vil leiðrétta þetta, það er ekki lagt til, að frv. sé fellt, heldur lagt til, að því verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram.

Þetta frv. er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út af ríkisstj. 16. júní 1950, og þau eru gefin út vegna þess, að þá kemst ríkisstj. að þeirri niðurstöðu, sem m.a. ég lagði mikla áherzlu á við umr. um þetta mál í sameinuðu þingi, að það væri ekki lögum samkvæmt að fara þannig með ríkisins fé. Brbl. voru ekki gefin út til þess að tryggja rétt skattþegnanna í landinu. Það er einmitt það alvarlega í málinu, að ekkert er hugsað um þann stóra rétt, sem hver skattþegn á heimtingu á að gætt sé út í það ýtrasta, það er ekki vegna þess, að brbl. eru gefin út, heldur af því að ríkisstj., ekki einungis sú, sem nú situr, heldur hver og ein, telur sig hafa ótakmarkað vald til þess að misbeita þessu gegn þegnunum, sem er misskilningur. Sannleikurinn er sá, að ríkisstj. hefur ekki rétt til þess að greiða fé eftir þál., sem fer beinlínis gegn fyrirmælum laga, þó að það sé tekið af þegnunum til þess að beita slíku gagnvart öðrum sérstökum aðilum. Ég benti mjög ákveðið á þetta atriði við umr., sem urðu um málið í sameinuðu þingi, en það var ekki fallizt á mín rök. Nú hefur forseti Íslands fallizt á, að þetta væri rétt, því að hann hefur orðið að gefa út þessi brbl., og brbl. eru gefin út vegna þess, að ríkisstj. gat ekki með þál. kúgað sveitarfélögin til þess að greiða þessar uppbætur og getur það ekki enn nema fá lagafyrirmæli til þess. Því er ljóst, hvað sem líður yfirlýsingu þessa ágæta lögfræðings, sem hv. frsm. talar um, þar sem hann segir, að brbl. hljóti að standast, þótt þau feli í sér, að viðkomandi verði að greiða þetta áður en l. voru gefin út og staðfest, að það er rangt, því ef það er rétt, að hægt sé með þessum lagafyrirmælum að skylda sveitarsjóðina til þess að greiða þessa uppbót á árinu 1949 og til 16. júní 1950, þá er verið að viðurkenna með þessu, að þál. felur í sér fullkominn rétt til þess að krefjast þessara útgjalda af sveitarsjóðunum. En það er viðurkennt með útgáfu brbl., að þessi réttur er ekki fyrir hendi, og kemur því ekki til mála, að þessi löggjöf, þó að hún sé samþ., geti á nokkurn hátt knúið viðkomandi sveitar- og bæjarfélög til þess að greiða þessa uppbót gegn vilja sínum fram að þeim tíma, sem l. voru gefin út, og það er m.a. þess vegna, að ég gat ekki fallizt á undir neinum kringumstæðum að leggja til, að frv. sé samþ. óbreytt. Það er allt, sem þarf að gera, að breyta því þannig, að ekki sé lengur skylda að greiða þessa uppbót heldur en fram að þeim tíma, sem l. eru gefin út á, því að allt annað er út í bláinn.

Það var sagt af hv. frsm., að ég hafi lagt til, að frv. sé fellt, vegna þess að ég hef verið á móti hækkun á launum embættismanna. Það út af fyrir sig er rétt, að ég er á móti hækkun á launum embættismanna, og ég tel, að það spor, sem þá var stigið, hafi þegar valdið og komi til með að valda miklu meiri erfiðleikum í baráttunni gegn dýrtíðinni en þá var ljóst. Þetta sýnir m.a. afgreiðsla fjárl., þar sem hver liður í embættismannalaunum er hækkaður um 33% frá því, sem var á s.l. ári, og meginástæðan fyrir því er einmitt þessi stefna, sem tekin var með þál. í desember s.l. Hér veltur á millj. fyrir ríkissjóðinn, auk þess sem það er vitanlegt nú, að þessar aðgerðir Alþ. í launamálunum hafa framkallað stórkostlegar kröfur frá öðrum aðilum í landinu. Í því sambandi má m.a. benda á það, að ekki er fyrr búið að samþ. þessa ákvörðun Alþ. en að verzlunarstéttin um allt land krafðist og fékk framgengt 15–17% launahækkun hjá öllu sínu starfsfólki, einmitt byggt á því, að laun embættismanna hækkuðu að sama skapi. Krafan frá embættismönnunum var sú, að þetta væri gert vegna þess, að aðrar stéttir væru komnar fram úr þeim, en undireins og búið var að hækka embættismennina, kom hafa frá hinum stéttunum um að byrja nýtt kapphlaup, og þess vegna voru samþ. þær kröfur, sem settar voru fram af öðrum stéttum í landinu. Það er einnig vitað, að ástæðan til þess, að ekki er hægt að leysa togaradeiluna, er einmitt þetta, að Alþingi á sínum tíma samþ. að hækka gegn ákvæðum launalaga laun embættismanna um 10–15%, og með fjárl. í ár eru þau hækkuð yfir 30%. Móti þessari stefnu hef ég verið og enn meira á móti henni í dag en nokkru sinni fyrr. Það, sem alvarlegast er í þessu máli, er það, að öll fríðindi, sem embættismönnum hafa verið veitt til að bæta laun þeirra, eru hækkuð í hlutfalli við aðallaun, en þeir, sem voru svo hyggur að hleypa skriðunni af stað, eiga nú að stöðva hana, áður en meira tjón verður að.

En það er ekki eingöngu vegna þessa, að ég er á móti því, að þetta sé samþ., heldur sérstaklega vegna þess, að ég tel, að þessi háttur á afgreiðslu málsins sé gersamlega óviðeigandi og ósamboðinn Alþingi. Ég tel ósamboðið þinginu að láta ganga út lagafyrirmæli, sem fyrir fram er vitað að standast ekki dóm, og það er vitað af dómi, sem hefur fallið, að það hefur ekki verið viðurkennt, að þingsályktunarákvæði væru tekin fram yfir ákvæði gildandi laga, en það er það, sem ætlazt er til að hér sé gert.

Ef það er ætlun hv. þm. að hækka laun þessara manna til samræmis við aðra launþega, þá á að gera þetta með breyt. á sjálfum launalögunum, og gilda þau þá að sjálfsögðu frá þeim tíma, er sú breyt. hefur verið lögfest. Þá er einnig sjálfsagt að endurskoða launalögin almennt til þess að samræma kjör fyrst og fremst launþega innbyrðis og auk þess að samræma þau við laun annarra manna í landinu. Þess vegna hef ég lagt til, að frv. verði afgr. með rökstuddri dagskrá, eins og segir á þskj. 41. Ég er þess alveg fullviss, að ef nú væri gengið í að athuga launalögin, þá mundu augu þessara manna opnast miklu frekar en hægt var að fá þá til á síðasta þingi við umr. um þetta mál, því að það liggja nú fyrir gögn um það, hvernig nú er komið þessum málum vegna hinnar vanhugsuðu till., sem samþ. var í fyrra. Ég sé því enga hættu á því fyrir ríkissjóð, að launamálin séu tekin nú til afgreiðslu og endurskoðunar, nema síður sé. Við sjáum það bezt, sem fáum í hendur gögn frá þessum mönnum til athugunar, hvað óskaplega þessi póstur hefur þotið upp síðan í fyrra. Okkur er ljóst, að það er engin leið að halda áfram á þessari braut, nema klippa niður krónuna í enn smærri parta, til þess að láta þessa menn fá þann krónufjölda, sem samþ. er hér á þingi. Það eru engir möguleikar á að halda áfram þessu kapphlaupi lengur, nema klippa krónuna í sundur, þegar á að fara að greiða þessi laun. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar þeir menn, sem hafa viljað hafa þetta kapphlaup sem mest, hafa kvartað undan því, að krónan væri lækkuð.

Ég vænti þess, að þótt fjhn. vildi ekki fallast á þetta sjónarmið, þá vilji meiri hluti n. fallast á röksemdir dagskrárinnar, því að þar er haldið fram, að fara beri þá leið að athuga launalögin hér á þingi, svo að hægt sé að athuga, hvernig greiða skuli bæði þessum mönnum og öðrum starfsmönnum ríkisins.