18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Áki Jakobsson:

Út af því, sem hv. þm. N-Þ. sagði, vil ég vekja athygli á því, að fyrsta heimild sjómanna til þess að gera aðför til að fullnægja sínum sjóveðum eru l. gefin út 31. des. 4948, og þá verkuðu þau aftur fyrir sig á allar sjóveðskröfur, sem ekki var búið að borga, og hver útgerðarmaður, sem sendi bréf, þar sem hann bað um aðstoð til skuldaskila, var kominn undir frestunarákvæði l., og þar með eru komin, eins og ég tók fram, hjá sumum útgerðarmönnum 3 ár, sem þeir ekki borguðu sínar kröfur. Hins vegar er það rétt hjá hv. þm., að veturinn 1948–1949 var samþ. að greiða úr ríkissjóði til þess að leysa inn sjóveð, og það voru leyst inn flest sjóveð frá sumarsíldveiðunum 1948, þó voru eftir einstaka skip með sjóveð frá þeim árum, enn fremur eru þau til hjá nokkrum skipum; mér er kunnugt um 2 skip, sem eiga eftir sjóveð frá vetrarvertíðinni 1948, þannig að það er rétt, sem ég hef haldið fram, að það er á þriðja ár, það sem lengst er, og þarna er sá annmarki á, að skipin fá þannig að halda áfram og geta hlaðið á sig nýjum og nýjum sjóveðum, og ný sjóveð hafa forgang fyrir þeim eldri.

Ég álít því, að við svo búið megi ekki standa. Alþ. hefur að vísu ekki sett almenn l. um, að sjómenn megi ekki ganga að skipunum, en Alþ. hefur gefið útgerðarmönnum heimild til þess að skjóta sér undan því, að gerð sé að þeim aðför til þess að fullnægja þessum sjóveðum, og gefið þeim þannig tækfæri til þess að valsa með skipin áfram, þannig að þeir geta hlaðið á þau nýjum og nýjum sjóveðum og þannig sett sjómenn í tvísýnu um það að fá nokkuð greitt. Ég veit um eitt skip, M/b Ernu, sem nú er að koma úr utanlandssiglingum, sem er með sjóveð mikið á annað hundrað þús. krónur, og þeir, sem eiga elztu sjóveðin, eru í fullkominni óvissu um það, hvort þeir geta gert gildan sinn rétt, þó upphafin yrðu einhvern tíma þessi ákvæði með framkvæmd skuldaskilanna, að skuldaskilum yrði lokið. Þetta er það, sem sjómenn hafa orðið að búa við, þeir eru í óvissu um þær sjóveðskröfur, sem þarna eru elztar orðnar, í óvissu um, hvenær þetta verður borgað. Það kemur mér ekkert undarlega fyrir, þó að hæstv. ráðh. vilji ekki hafa þetta, en ég vil benda á, að það er komið svo langt í þessu máli, að það er útilokað annað en að um þessi áramót taki verkalýðssamtökin til sinna ráða og beiti verkbanni á þau skip, sem sigla með sjóveð, og neiti að sleppa þeim úr höfn, ef þau ekki leysa af sér greiðslur til sjómanna. Þetta er alveg einstakt fyrirbrigði, að svipta þannig heila atvinnustétt þeim lagalega rétti til þess að tryggja sér kaup, og það sérstaklega vegna þess, að þessar kröfur eru annars eðlis en aðrar kröfur, að ekki er í nein önnur hús að venda.

Ég tel, að Alþ. mundi leysa af sér málið, ef það samþ. þetta, og það eru engir þeir annmarkar á þessu máli, að ekki sé hægt að greiða þessi sjóveð á svo skömmum tíma. Til bráðabirgða er hægt að leysa þetta út af ríkissjóði, og þess vegna eru engin rök fyrir því að draga þetta. Því, sem hv. þm. N-Þ. sagði um, að það væri vandasamt að finna út, hverjar sjóveðskröfurnar eru, hef ég ekki trú á, vegna þess að búið er gagnvart öllum þessum skipum, sem eiga sjóveð ógreidd, að birta kröfulýsingarfrest að viðlögðum kröfuréttarmissi, og ég hef ekki trú á öðru en að sjóveðskröfurnar séu flestar komnar fram vegna þessarar auglýsingar og hljóti að liggja fyrir hjá skuldaskilanefnd. Það er mjög einfalt að reikna þetta út, vegna þess að útgerðarmenn eiga að vera búnir að skila yfirliti um fjárhag sinn, og í því yfirliti eiga sjóveðin að koma fram. Þess vegna er mjög einfalt mál að framkvæma þetta, og það væri þinginu til sóma að reka þannig af sér ámæli, sem sjómenn réttilega hafa haft það fyrir, og það gerði það með því að samþ. þessa till., sem ég hef lagt hér fram. — Ég vil svo að lokum undirstrika, að þetta er réttlætismál, og ég býst við, að það sé ekki of mikið sagt, þó að sagt sé, að Alþ. og ríkisvaldið hafi aldrei beitt nokkra atvinnustétt í landinu annarri eins óbilgirni og sjómenn eru beittir í þessu máli.