20.10.1950
Efri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

7. mál, skólastjóralaun og kennara við barnaskóla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þetta mál. En út af því, sem beint var til mín, vil ég svara á þann veg, að það hefur verið tíðkað stundum áður að leggja skatta á menn fyrir liðinn tíma, og ég held, að hv. 1. þm. N-M. hafi ekki aðeins verið stuðningsmaður þess, heldur jafnvel hvatamaður og yfirleitt ekki talið, að of langt væri gengið við álagningu skatta yfirleitt. Ef ég hef hann hér fyrir rangri sök, þá bið ég hann afsökunar. Sama er að segja um eignaraukaskattinn, sem miðaður er við eignir, sem safnazt hafa á tilteknu árabili. Þar er verið að leggja skatt á tekjur, sem menn höfðu á þessu árabili og höfðu ráðstafað með þáverandi skattalög fyrir augum, en löggjafinn hefur síðar talið sér heimilt að breyta þessu. Það er skiljanlegt, að mönnum líki þetta ekki vel, en þetta hefur þó verið samþ. á Alþingi og talið leyfilegt. En ef menn telja sig órétti beitta, geta þeir alltaf leitað til dómstólanna, og þeir skera þá úr, hvort þessi löggjöf stenzt eða ekki. Ég tel víst, ef einstaklingar hefðu verið sammála hv. 1. þm. N-M. út af þessu, sem hann talaði um benzínskattinn, hefðu þeir borið sig upp við dómstólana og fengið þar endanlegt svar, hvað gæti staðizt í þessu efni. Það er hægt að nefna ýmis fleiri dæmi þess, að l. hafa verið látin verka aftur fyrir sig. Í sumum stjórnarskrám er bannað að láta löggjöf verka aftur fyrir sig, og ef það liggur fyrir í stjórnarskránni, þá er það augljóst. í okkar stjórnarskrá er ekkert slíkt bann, svo að það verður að benda á einhver önnur ákvæði stjórnarskrárinnar, sem þetta bryti á móti. Einnig má deila um það í ýmsum tilfellum, hvort l. verki aftur fyrir sig eða ekki. En það er ekki hægt að gefa neitt almennt svar við þessari spurningu, eins og hún er borin fram, en þetta hefur verið gert, og í flestum tilfellum hefur það staðizt, og það hefur ekki verið vefengt af þeim, sem hlut eiga að máli. Það getur staðið svo á, að önnur atvik geri þessar ráðstafanir óheimilar, og þá getur það orðið til þess, að slík lagaákvæði yrðu talin ógild.

Ég vil svo taka fram út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, að eftir að þessi l. eru sett, þá getur ekki verið deila um það, hvort lagaheimild sé fyrir þessum ráðstöfunum eða ekki. L. eru til þess að hafa það löglegt, sem hér stendur til, og það skiptir ekki máli, hvort þál. liggur þar til grundvallar. Sumt af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, hafa verið gerðar samkvæmt þál., en það er tvímælalaust, að þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, eru löglegar, ef frv. nær samþykki, svo að af þeim sökum fær það ekki staðizt, að þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, yrðu dæmdar ógildar. Hitt er annað mál, hvort slíkt er sanngjarnt eða ekki, ég skal ekki fara mörgum orðum um það. Ég var því meðmæltur, að bráðabirgðal. væru gefin út, þegar af þeim sökum, að ýmis sveitarfélög höfðu þá innt þessa greiðslu af höndum, og það hefur verið gert ráð fyrir, að öll sveitarfélög mundu inna hana af hendi, þannig að menn urðu fyrir fullkomnu misrétti, þegar sum sveitarfélög inntu þessa greiðslu af hendi, en önnur ekki. Af þeim sökum virtist mér það alveg sanngirnismál að koma í veg fyrir óþolandi misrétti og glundroða. Mér fannst þetta rétt gagnvart einstaklingum, sem höfðu tekið að sér stöður á tilteknum tímum, gerandi ráð fyrir, að sams konar löggjöf væri fyrir sams konar störf um land allt, eins og gildandi launalög gáfu þeim fullkomið tilefni til að ætla að verða mundi.