15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

121. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Mér þykir nú æði áhrifamikil till. koma hér nokkuð skyndilega inn í umr. málsins. Ég minnist þess ekki, að í nokkurri löggjöf sé gengið jafnlangt í því að taka valdið af sveitarstjórnum í meðferð útsvara. Tryggingastofnunin er ágæt stofnun, en þess er þó að gæta, að þótt hugsa þurfi fyrir hennar rétti, þá þarf líka fleira að gæta. Ef gefa á heimild til þess að fleyta þannig ofan af aðaltekjulind sveitarfélaganna, þá finnst mér satt að segja, svona í fljótu bragði, of langt gengið, og þess vegna er það, að ég get ekki greitt þessari till. atkv. Það nálgast það, að með svona tili. væri Tryggingastofnuninni gefinn réttur til þess að leggja aukaútsvar á sveitarfélögin og innheimta þannig það, sem þau eiga vangoldið. Nú er sjálfsagt að ætlast til þess, að sveitarfélögin standi í skilum, en reynslan hefur sýnt, að það getur nokkuð slegið í harðbakkann fyrir þeim í ýmsum efnum, og það ríður æði mikið á því fyrir þau að halda lánstrausti í viðskiptum, bæði heima hjá sér og við stofnanir, en þegar svona væri komið, að Tryggingastofnunin gæti gengið að því, sem auðveldast er að innheimta af útsvörunum, er enginn vafi á því, að aðrir lánardrottnar sveitarfélaganna mundu missa traust á þeim og telja, að vafasamt væri að sýna linkind eða hafa viðskipti við sveitarfélögin.

Till. ber svo bráðan að, að það er ekki þægilegt að snúast við henni með brtt. En eins og hún er lögð fyrir, get ég ekki greitt henni atkvæði mitt.