15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

121. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. telur, að með umræddri till. sé of langt gengið og Tryggingastofnuninni sé með henni fengið of mikið vald, svo að næstum sé hægt að segja, að hún geti lagt á aukaútsvör og innheimt þau. Þetta er mjög ofmælt, og sést það, ef till. er athuguð niður í kjölinn. Hitt er rétt, að það gefur undir sumum kringumstæðum og í versta tilfelli rýrt lánstraust hlutaðeigandi sveitarfélaga. Hér er svo þess að gæta, að það er ekki Tryggingastofnunin, sem fær þetta vald í hendur, heldur ráðh., sem tekur sínar ákvarðanir í samráði við skrifstofustjórann í félmrn., sem á að vera treystandi til að gera sveitarfélögunum ekki neitt til tjóns. Þá vil ég einnig benda á, að í gr. er ákvæði um það, að þessu ákvæði megi beita þá fyrst, er sveitarfélag hefur vanrækt í ár eða lengur að greiða tryggingagjöld sín. Í slíku tilfelli mundi þá Tryggingastofnunin rita félmrn. bréf og óska eftir aðstoð þess við innheimtuna, en það metur svo málavexti. En ætlunin með till. er sú, að í stað þess, að ríkisstj. þurfi að greiða ábyrgðarskuldbindingarnar, þá geti ráðh. ákveðið að leggja þetta hald á útsvörin. Og ég er ekki viss um, að í þessari gr. felist veruleg breyt. í framkvæmd, frá því sem nú er, og ótti hv. þm. sé því ástæðulaus.