15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

121. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. undirstrikaði það, að það væri ráðh., en ekki Tryggingastofnunin, sem hefði valdið til að ganga að sveitarfélögunum, ef þetta ákvæði verður að l. Þetta er að vísu rétt. En það er jafnrétt, er ég hélt fram, að Tryggingastofnuninni er með þessu gefinn réttur á hendur sveitarfélögunum, enda þótt félmrn. hafi milligöngu. En það er svo um sveitarfélögin, að þeim þykir heimastjórn bezt, og utanstefnur vilja þau engar hafa, enda er ekki fyrir það að synja, að í höndum félagsmrh. geti þessi réttur orðið allharkalegur fyrir sveitarfélögin, t.d. á þá lund, að lánstraust þeirra verði stórlega skert, eins og hv. 4. þm. Reykv. viðurkenndi, þar sem hér er svo til ætlazt, að Tryggingastofnunin fái forgangsrétt að tekjunum í hinu auðveldasta formi, þ.e.a.s. sjálfri innheimtu útsvaranna. — Nú er það svo í landi okkar, að víða eru útsvör ekki innheimt að stórum hluta fyrr en síðari hluta árs, og fyrri hluta ársins verða sveitarfélögin að byggja á því fé til veltu sinnar, sem auðveldast er að innheimta. Og að taka af sveitarfélögunum réttinn til að fá þessar tekjur, tel ég of langt gengið. Ég held því, að till. sé vanhugsuð nema frá sjónarmiði Tryggingastofnunarinnar, en hags beggja þessara aðila verður að gæta jafnt, svo að fullnægt sé öllu réttlæti.