20.10.1950
Efri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

7. mál, skólastjóralaun og kennara við barnaskóla

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af þeirri fyrirspurn, hvort ég áliti, að þetta frv. stríddi móti stjórnarskránni, þá bar ekki að skoða ummæli mín svo, að frv. stríddi á móti sérstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Mín skoðun er sú, að 1. gr. l., eins og hún er, geti ekki staðizt, miðað við ýmsa dóma, sem fram hafa farið undanfarin ár í sambandi við slík mál. Ég get vel skilið, að það stæðist fyrir dómi, að greidd yrðu laun eftir þessum l., eftir að þau eru gefin út, en þau ákvæði geta á engan hátt gilt fyrir þann tíma, að þessi l. eru sett. Vitanlega hljóta launal. að hafa þar meira gildi en þál. Ég skal í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að 1942 er samþ. á Alþingi með miklum meiri hluta þál. um að taka af þáverandi fjmrh. valdið til að úthluta bílum.

Það er skipuð n. manna á Alþingi til að fara með þetta vald. En þegar þessir aðilar ætla að fara að starfa, lýsti ráðherrann yfir, að hann beygði sig ekki undir þetta, hann hefði stoð í gildandi l. og sér væri heimilt að beita þessu valdi og hann mundi gera það. Hér er líka þál., sem ákveður, að þriðji aðilinn, sveitarsjóður, skuli greiða hærri laun en launalög segja, og er það því alveg hliðstætt hinu dæminu. Ég skil það vel, sem hæstv. ráðh. sagði, að menn geta leitað til dómstólanna og fengið þannig úrskurð, en er það sæmandi fyrir Alþingi að haga lagasetningu þannig, að það verði að benda mönnum á hæstarétt til að fá þar vernd gegn órétti, sem fram kemur í lagasetningunni?

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að nýlega ræddi hæstv. landbrh. í Sþ. um reglugerð, sem átti ekki stoð í l., um friðun rjúpu, og lýsti yfir, að þýðingarlaust væri að gefa út slíka reglugerð, af því að enginn mundi hlýða henni, þar sem hún ætti ekki stoð í lögum.

Hvernig getur svo ríkisstj. látið lagafyrirmæli verka aftur fyrir sig, lagafrumvörp, sem gefa mönnum rétt til þess að krefjast peninga, byggð á þingsályktunum, sem brjóta í bága við gildandi lög?

Eitt dæmi ætla ég að ræða við frsm. meiri hl. í fullri vinsemd. Búið er að leggja á útsvör fyrir árið 1949 og einnig 1950. Hvað segja sveitarstj., þar sem ekki er gert ráð fyrir þessu? Eða telja þær sig hafa heimild til að taka lán til þess að greiða þetta? Ég tel, að sú heimild sé afar vafasöm. Ég mundi leita til dómstóla um þetta sem oddviti, hvort ég væri skyldugur til að leggja á þegnana, hvort sem þeir væru hátt eða lágt launaðir, fjárhæð til að greiða þetta með. Dómsmrh. minntist á margvíslega löggjöf frá síðastliðnu ári, en hún er ekki til fyrirmyndar; t.d. þegar búið er að leggja skatt á tekjur manna, og koma svo sí og æ aftan að þeim, er ekki til eftirbreytni.

Ég man eftir, að ég átti í hörðum deilum við dómsmrh. hérna í deildinni, og hann sagði: „Ég ætla ekki að láta þingmann Barðstrendinga kenna mér lögfræði né ég honum vélfræði.“ En ég hafði rétt fyrir mér um, að það mátti ekki taka skattfrelsið af áhættuþóknun sjómanna, og ríkissjóður varð að skila fénu aftur. Lögin gátu ekki náð aftur fyrir sig. Eðlilegt var, að deildin féllist á rök dómsmrh., sem var kennari í lögum við háskólann og hafði allt fram yfir lítilfjörlega persónu þingmanns Barðstrendinga. En hann hafði ekki beitt almennri skynsemi né safnað nægilegum gögnum og hafði ekki skoðað málið frá eðlilegum hliðum. Ég er sannfærður um, að margir dómar mundu falla á sömu lund, ef menn nenntu að standa í stímabraki við dómstólana.

Ég vara enn við að samþykkja þetta frv., og þó sérstaklega að ganga lengra, því að þetta yrði þá breyting á launalögunum sjálfum, og hefði ég gjarnan viljað, að formaður nefndarinnar vildi ræða við fjmrh. og dómsmrh. um þetta, hvort ekki væri rétt að breyta 1. gr., svo að þetta gengi ekki til þess tíma, sem liðinn er, hvort þetta sé rétt gagnvart kennurunum, því að leiðinlegt er að láta þetta ganga út yfir sérstaka menn. Miklu réttara er, að ríkissjóður greiddi þetta sjálfur. Alþingi hefur gert þessa vitleysu og verður að taka afleiðingunum, en ekki láta fátæk sveitarfélög borga. Og vil ég svo ekki láta núa mér því lengur um nasir, að ég sé á móti fátækum barnakennurum; það er ekki ástæðan fyrir því, að ég er á móti þessu máli.