15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

121. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég legg til, að í þessu sé höfð þriðja leiðin. Hæstv. ráðh. minntist á tvær, en þriðja leiðin er sú, að þegar hreppsnefnd gerir áætlun um sína greiðsluþörf, og það er gert nú þessa dagana, þá kemur í ljós, að viss hluti þarf að renna til þess arna. Forstöðumaður trygginganna upplýsir, að það sé 12–14% . Þegar búið er að gera þessa áætlun, þá á hvert sveitarfélag að leggja ofan á 10% fyrir óvissum útgjöldum, þess vegna er nóg hér að láta Tryggingastofnun ríkisins fá heimild til þess að taka allt að 20% af útsvörunum. Þannig fengju innheimtumenn heimild til þess að taka 20% af hverju útsvari upp í þessa skuld, og það ætti að vera nóg, og þegar kemur fram á árið, ætti Tryggingastofnunin að vera búin að fá sitt. Þess vegna er þetta millivegur, sem ætti að fara. Hinar leiðirnar, sem talað er um að fara, að láta sveitarfélögin fá forgangsrétt að útsvörum, og sömuleiðis að svipta sveitarfélög rétti til trygginganna, — þessar leiðir eru báðar óhæfar. Ég vona því, að þetta sé leið, sem allir geti sætt sig við. Ég ætla ekki að gera brtt., en það er auðvelt að gera þessa breyt., að í staðinn fyrir allt útsvarið komi allt að 20% af öllum útsvörum. Þetta ætti að verða til þess, að sveitarfélögin trassi ekki að greiða það, sem þeim ber, eins og þau hafa gert, og önnur trassi ekki að uppfylla sínar skyldur með því að trassa að jafna nóg niður.