15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

121. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Vegna þeirra ummæla, sem fallið hafa, þykir mér skylt að leiðrétta nokkuð. Annars tek ég undir það, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta mál. En ég má til með út af orðum hv. þm. S-Þ. að leiðrétta nokkuð hans ummæli. Hann upplýsti hér í sinni fyrri ræðu, að samkv. fyrirmælum Tryggingastofnunarinnar ætlaðist hún ekki til, að lagt væri útsvar á ellilífeyri. Þetta er byggt á misskilningi. Þvert á móti hefur Tryggingastofnunin brýnt fyrir sveitarstjórnum, að hægt sé og rétt að leggja útsvar á þessar tekjur. (KK: Ég minnist bréfs frá tryggingunum, þar sem tekið er fram, að ekki sé ætlazt til, að lagt sé á ellilífeyri.) En þegar alþýðutryggingalögin gömlu voru í gildi, þá voru ellilaun eingöngu miðuð við ástæður manna og engum veitt þau nema sveitarstjórnin teldi, að viðkomandi maður gæti ekki komizt af án ellilauna, og þá var sveitarstjórnunum skrifað og gert ráð fyrir að sveitarstjórnir legðu ekki útsvar á ellilaun. En eftir að þessi l. gengu í gildi 1947, þá var sveitarstjórnunum á ný skrifað, að nú væri ekki lengur veittur þessi styrkur eingöngu sem framfærslustyrkur þeim, sem ekki gætu lifað án hans, heldur samkv. l. og því bæri að taka tillit til þess við skattaákvörðun til viðbótar öðrum tekjum, sem hlutaðeigandi hefði. Því kemur það af sjálfu sér, að ekki er skattur á lagður, ef engar aðrar tekjur eru, en ef aðrar tekjur eru, þá á að telja heildartekjur til framtals, og þá má leggja útsvar á. — Ég vildi aðeins leiðrétta þetta. Að því er snertir meðaltal þess, hversu greiða skuli til trygginganna mikinn hluta af útsvörum, vildi ég aðeins benda á, að samkv. skýrslum frá Tryggingastofnuninni fyrir árin 1947–4948 hafa framlög sveitarsjóðanna til trygginganna numið 14–15% af útsvarsupphæð, sem þykir kannske hátt, en til samanburðar var fátækraframfærslulífeyrir 50% af útsvörum áður en núverandi tryggingal. gengu í gildi 1946.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að þriðju leiðinni, þeirri leið, sem hv. 1. þm. N–M. minntist á. Það hefur verið rætt um þessa leið í sambandi við þá brtt., sem hér liggur fyrir. En gallinn að fara þá leið er sá, að mér er sagt af lögfræðingum, að þó að þessi gr. væri samþ. á þann veg, sem hv. þm. gerir ráð fyrir, þá gæti það ekki breytt ákvæðinu um skuldasöfnun. Af þessum útsvörum er ekki hægt að fá ákveðna prósentu, vegna þess að þau eru bundin með öðrum hætti, sem ekki er hægt að raska með þessu. Því er ekki fært að fara þessa leið. — Hins vegar liggur í augum uppi, að útsvör eins og hjá áfengisverzluninni og ríkisverksmiðjunum á Siglufirði er meiningarlaust að greiða í bæjarsjóð samtímis því, sem ríkissjóður leggur út stórar fúlgur fyrir sama sveitarfélag. Ég held því, eins og ég áðan sagði, að ótti hv. þm. S-Þ. í þessum efnum sé tilefnislaus.