15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

121. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er aðeins aths. við það, sem hv. 4. þm. Reykv. var að fræða mig um, að sveitarfélag mætti leggja útsvar á bótaþega trygginganna. Þó að þetta sé svo, að l. heimili það, þá er hitt víst, að sveitarfélög fá ekkert í hendurnar í útsvar af þeim bótum, sem tryggingarnar veita. Þetta kemur af sjálfu sér, vegna þess að gamla fólkið, sem fær þessar tryggingabætur, og aðrir, sem illa eru settir, hefur svo lágar tekjur, að lítt er gengið eftir því, að það telji fram, og þetta kemur því ekki undir skatt.

Þess vegna er það staðreynd, að það má ekki, þegar talað er um hag sveitarsjóðanna, bera saman tölur, sem Tryggingastofnunin greiðir byggðarlaginu, og framlög sveitarsjóðs til trygginganna og ætlast til, að þetta jafni sig, þannig að sveitarsjóðirnir græði. Yfirleitt tapa sveitarsjóðirnir í þeim viðskiptum, þó hin talan sé hærri. Að lokum: Það er engin trygging fyrir því, að beztu gjaldendurnir, sem er verzlunin, mundu falla undan, ef ráðh. færi að láta velja, það er meiri tillitssemi heldur en ráðh. getur sýnt sveitarfélagi í vanskilum. Það er einmitt verzlunin, sem mundi verða látin greiða beint til ríkisins. Hitt er ekki óeðlilegt, þó að hlutfall væri tekið af því, sem innheimtist. Svo að lokum: Ég er ekki að tala vegna þess að Húsavík sé í vanskilum.