20.10.1950
Efri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

7. mál, skólastjóralaun og kennara við barnaskóla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil þakka dómsmrh. fyrir upplýsingar, er hann kom með, en voru alls ónógar. Hann vildi vitna í lög um tekju- og eignarskatt, sem Magnús heitinn Guðmundsson barðist fyrir á sínum tíma og þar sem tekjuskatturinn er allur lagður á tekjur næsta árs á undan. Alþingi hefur sett við þau viðauka, sem alltaf eru látnir ná yfir tekjur fyrra árs, eins og tekjuskatturinn er ævinlega reiknaður, og því verkar hann að nokkru leyti aftur fyrir sig. Eða það, sem gert var í fyrra, er þm. Barð. vildi láta hækka toll á vörum, sem búið var að selja. Þessi skattur er lagður á eignir og riftar ekki neinum samningum. Annað mál er að hækka benzín eftir á, eins og gert var í hittiðfyrra. Þá reiknuðu allir með, að þeir þyrftu ekki að borga meira. Eins er um þetta. Ef þetta er hægt, þá er hægt að segja Pétri og Páli að gera hitt og þetta, eftir að hann er búinn að verzla hingað og þangað. Þetta finnst mér siðferðislega rangt, en aldrei hafa neinir tekið undir þetta með mér hér í þinginu áður, nema þm. Barð. nú.