18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Þessu frv. um almannatryggingar var vísað til n. síðastliðinn föstudag. Á laugardag höfðu þm. annað að gera en að sinna nefndarstörfum, þar sem afgreiðsla fjárl. stóð yfir allan daginn, þannig að sá tími, sem n. hefur haft til þess að athuga jafnstórt frv. og þetta og jafnþýðingarmikið, er ekki mikill, og ekki við því að búast, að n. hafi getað tekið frv. til nógu rækilegrar meðferðar, en á það má benda, að það hefur legið alllengi fyrir hv. Ed. og er komið þaðan og hefur verið athugað þar mjög gaumgæfilega og verið gerðar á því ýmsar breyt., að ég hygg flestar til bóta frá því, sem var, og er ekki nema gott um það að segja. En sem sagt, n. hefur athugað frv. og mælir með því, að það verði samþ., þó að einstakir nm. áskilji sér rétt til að koma með brtt. og fylgja öðrum, sem fram kunna að koma.

L. um almannatryggingar frá 1946 eru mikill lagabálkur og nýmæli í okkar landi; og eins og að líkum lætur, varð snemma að gera á þeim breyt. frá því að þau voru sett. Svo að segja á hverju ári síðan hafa verið samin viðaukalög og þeim breytt eftir því, sem þurfa þótti og við átti, og auk þess skipaði ríkisstj. mþn. árið 1949 til þess að athuga l. og koma fram með þær breyt., sem reynslan hafði sýnt, að þyrfti að gera á l. Þessi n. skilaði áliti og lagði fram frv. á Alþ. haustið 1949, sem komst þá í gegnum Ed. með dálitlum breyt., en dagaði svo uppi í hv. Nd., og þá lýsti hæstv. félmrh. því yfir, að hann mundi á næsta Alþ. — þ.e. því þingi, sem nú situr — bera fram frv. um þessi mál, og það hefur nú verið lagt fram í hv. Ed. á þessu þingi. En upp í frv. það, sem stj. lagði fram í haust, er tekið margt úr því frv., sem lagt var fyrir þingið í fyrra af mþn., en þó hafa verið tekin úr því ýmis ákvæði, sem í því frv. voru, þ. á m. þau ákvæði, sem mundu hafa haft allverulegan kostnað í för með sér. Ríkisstj. hefur litið svo á, — og það tel ég rétt, — að eins og nú standa sakir væri ekki fært að auka mjög útgjöld Tryggingastofnunarinnar frá því, sem þau eru nú, og ég býst við, að það sé álit flestra alþm., að það sé ekki fært, eftir okkar fjárhagsástæðum nú, að auka mjög útgjöldin frá því, sem nú er, en það er alveg vitað mál, að vegna sérhvers þess ákvæðis, sem leiðir til hækkunar á útgjöldum fyrir stofnunina, þarf vitanlega að afla tekna á móti og þá ekki um annað að gera en afla þeirra frá þeim aðilum, sem greiða gjöld sín þangað, en í því sambandi er þá sorglegu sögu að segja, að undanfarin ár hefur það reynzt allerfitt fyrir Tryggingastofnunina að ná inn núverandi útgjöldum, hvað þá ef þyrfti að auka þau frá því, sem nú er, nema að því leyti, sem dýrtíðin gerir það alveg nauðsynlegt. Við vitum, að það hefur reynzt örðugt fyrir ýmis bæjarfélög undanfarin ár að standa í skilum við Tryggingastofnunina, og hefur komið þar til töluverðra vanskila, en Tryggingastofnunin hefur að mínum dómi verið rekin með mikilli hagsýni óg fyrirhyggju af forstjóra stofnunarinnar, og það vill, nú svo vel til, að hún er sæmilega stæð og á þó nokkra sjóði til þess að mæta halla, sem kann að koma fyrir, enda bar það frv., sem lagt var fram af stj. í haust, þess merki, að stofnunin væri það vel á vegi stödd, að unnt væri að draga mjög úr framlögum til hennar, bæði frá ríki og bæjarfélögum, þó að hún ætti að halda uppi fullum bótum miðað við vísitöluálag.

Í þessu frv. er tekið upp nokkuð nýtt, sem samkomulag er um, t.d. um að fæðingarstyrkur verði jafn fyrir allar mæður, 600 kr. fyrir móður, sem ekki var áður, og tel ég það til bóta. Auk þessa eiga ógiftar mæður rétt á 300 kr. framlagi á mánuði í 3 mánuði, ef þær geta fengið úrskurð um það. hver sé faðirinn. — En sem sagt, þær till., sem hv. Ed. hefur gert til breyt. á frv., tel ég vera mjög til bóta, og ég vil mjög vara þessa hv. d. við því að samþ. hækkunartill., sem auka útgjöld Tryggingastofnunarinnar, því að ég tel, að eins og nú er komið, megi hún gæta að sér til að geta haldið uppi þeim bótum, sem l. nú gera ráð fyrir, þó að ekki sé bætt við neinum álögum. Við vitum, að þessi löggjöf var sett á góðum tímum, þegar mikil peningavelta var í okkar landi, bæði hjá einstaklingum og ríkinu. Nú er þetta að breytast, og ég býst við því, að það geti farið svo, að það verði erfitt að ná inn þeim tekjum, sem stofnunin þarf að hafa, þó að ekki sé bætt við nýjum gjöldum, sem afla þarf tekna fyrir. — Önnur tryggingalöggjöf er ekki fullkomnari á Norðurlöndum, og vonandi getum við haldið áfram að fullkomna hana og auka. En eins og nú standa sakir, þá verður að varast að auka útgjöld Tryggingastofnunarinnar.

Ég vil svo fyrir hönd n. mæla með því, að frv. nái fram að ganga, en hins vegar áskilur n. sér rétt til að koma fram með brtt. við 3. umr., ef svo sýnist.