18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

121. mál, almannatryggingar

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð í tilefni af þeim brtt., sem fluttar eru af hv. heilbr.- og félmn.

Ég er algerlega sammála hæstv. forsrh. um það, að nauðsyn sé að tryggja Tryggingastofnun ríkisins innheimtu á hennar tekjum. Og það er ekki annað óheppilegra fyrir viðkomandi bæjar- og sveitarfélög en háar vangoldnar skuldir hrúgist upp og verði því óviðráðanlegri sem vanskilunum er haldið lengur áfram. Því tel ég skynsamlegt að freista nýrra leiða til að koma í veg fyrir meiri skuldasöfnun, og að því leyti er ég sammála þeirri viðleitni, sem fram kemur í till. hv. n. En ég verð að segja það, að bæði ber þetta mál allbrátt að við þessa umr. í síðari deild, og hitt, að í þeim till., sem koma frá hv. heilbr.- og félmn., er nokkuð langt gengið og raunverulega allhart gengið fram í innheimtu gagnvart bæjar- og sveitarfélögum. — Ég hefði því talið æskilegt, að þetta mál væri athugað nánar, áður en til afgreiðslu þess kemur.

Það er alveg rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. tók fram, að útsvörin eru svo að segja einu tekjur bæjar- og sveitarfélaga í þessu landi. Og ég tel nauðsynlegt, að ríkisvaldið skyggnist eftir nýjum leiðum til að afla gjalda frá bæjar- og sveitarfélögum, og það er vissulega nauðsynlegt, að sú innheimta sé ekki höfð of væg og bæjar- og sveitarfélögum ekki látið líðast að sleppa við að greiða lögboðin gjöld. Og ég hygg, að hið háa Alþingi, sem stöðugt er að finna nýja tekjustofna handa ríkinu og stöðugt að leggja ný gjöld á bæjar- og sveitarfélög, ætti nú að finna nýjar leiðir til þess að skerpa innheimtuna.

Þetta er það, sem ég vildi sagt hafa um þetta mál. Og í raun og veru færi vel á því, ef hv. n. tæki þetta mál til nánari athugunar og hv. ríkisstjórn athugaði síðar á þessu þingi, hvernig hægt er að komast að þessu marki.