18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

121. mál, almannatryggingar

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það væri í raun og veru nokkur freisting í sambandi við þessar umr. að ræða nokkuð tekjuöflunarmöguleika bæjar- og sveitarfélaga nú. En þeir eru ekki góðir eins og nú horfir, og svo er svo að segja daglega verið að leggja nýjar og nýjar álögur á sveitarfélögin, sem þau ekki komast hjá að greiða. Samtímis minnkar svo gjaldgeta fólksins og þá um leið erfiðara að innheimta opinber gjöld. Um leið er svo lokað fyrir alla lántökumöguleika í bönkunum, því að þau eru held ég teljandi, þau sveitarfélög, sem geta fengið lán þar, jafnvel skuldlaus sveitarfélög, sem geta lagt fram fullgilda tryggingu fyrir greiðslu.

Af þessum orsökum hafa bæjarfélög ekki getað staðið í skilum með að greiða sín gjöld til trygginganna. En þau eru ekki þeir einu, sem ekki hafa getað borgað.

Það er alveg rétt, að það eru lögð á útsvör til þess að standa undir þessum gjöldum, en þau innheimtast bara ekki. Í þeim tilfellum, sem ég þekki, hefur þessi vangreiðsla stafað af því, að þessi opinberu gjöld innheimtast ekki jafnfljótt og þyrfti. Ég get sagt sem dæmi frá Hafnarfirði, þar sem ég held, að innheimta útsvara gangi þó sízt verr en annars staðar, að nú í árslok 1950 hefur enn ekki tekizt að innheimta nema um helming álagðra útsvara, og enn eru útistandandi ógreidd gjöld svo milljónum skiptir. Þetta er ekki af því, að ekki sé ríkt eftir þessum gjöldum gengið, þar sem tveir menn eru á þönum um allan bæinn til innheimtu þeirra. Heldur fer gjaldgeta fólksins ört minnkandi, samtímis því sem ríkissjóður eykur stöðugt hina óbeinu skatta. Og nú fyrir tveimur dögum var hér til umr. frv. ríkisstj. um að smeygja fram af sér öllum kostnaði við vinnumiðlun og færa hann yfir á viðkomandi bæjarfélög. Allt er þetta til að torvelda, að tryggingunum séu greidd sín gjöld á réttum tíma, og þó að sú aðferð, sem hér er bent á, væri viðhöfð, þá er það ekki leiðin, ef sú leið er farin, sem segir í till., að ráðh. geti ákveðið að leggja hald á útsvör tiltekinna manna og stofnana. Það segir ekkert um það, hve mikið eða af hvað mörgum. Það gæti þýtt, að bærinn fengi ekki innheimt sín gjöld og kæmist í greiðsluþrot til annarra. Ég veit vel, að það eru mörg sveitarfélög miklu verr sett en það, sem ég þekki bezt til, en alls staðar gerir vart við sig vaxandi atvinnuleysi, minnkandi gjaldgeta, og hins vegar alger lokun peningastofnana landsins og auknar álögur. En þó að bæirnir hafi ekki í annað hús að venda en bankana, þá eru þeir algerlega lokaðir, jafnvel þó að fullgild trygging sé í boði og skuldir engar. Ég veit ekki, hvað þessu veldur, en þetta er svona. Og ef því er skorið á einu tekjuöflunina, útsvarsinnheimtuna, og mestöll útsvörin tekin í þetta, þá getur svo farið, að sjóðir bæjanna verði uppétnir og þeir geti ekki innt aðrar greiðslur af hendi. Ég vil því leyfa mér að beina því til hæstv. ráðh., að hann geri alvöru úr því, að málinu sé frestað og dragi till. til baka, og athugað verði fyrir næsta þing, hvort ekki sé önnur leið til heppilegri en þessi til að ná sama marki. Ég geri ráð fyrir, að það séu til aðrir möguleikar, og ég vil, að þeir séu allir athugaðir svo sem föng eru á.

Þessi hugmynd er ekki sprottin af því, að ég vilji koma í veg fyrir, að Tryggingastofnun ríkisins fái innheimt sín gjöld, heldur af því, að ég veit, við hve erfitt hlutskipti bæirnir eiga að búa, hvernig útgjöld þeirra fara sívaxandi, og sé skorið á eina tekjuöflunarmöguleika þeirra, útsvarsinnheimtuna, er hag þeirra stefnt í hreint öngþveiti.