19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég er dálitið hissa á þeirri andstöðu, sem hér hefur komið fram gegn þessari brtt. Hv. þm. vilja fyrst fara þá leið að láta rannsaka fjárhagsástand bæjarfélaganna. En þetta er eingöngu heimild fyrir ráðh. að gera þetta, þegar honum sýnist, og vitanlega býst ég við, að hver, sem því embætti gegnir, muni fyrst ræða við viðkomandi bæjarfélag, ég er þess alveg fullviss. Þetta eru bara heimildarlög fyrir ráðh. ef allt annað þrýtur, og ég veit, að hann muni leita viðræðna áður en hann beitir þeim.

Ég vil enn þá einu sinni benda á, af því að það hefur verið mjög véfengt, að bæjarstjórnirnar hafi misnotað féð, að ég get nefnt þess ótal dæmi. Árið 1947 höfðu þegar safnazt skuldir hjá ýmsum sveitarfélögum, og var það ekki af því þá, að erfiðleikar væru á innheimtu, það var bara látið ganga í annað. (ÁkJ: Þetta er ekki rétt.) Það eru til fleiri staðir en Siglufjörður. Við vitum ósköp vel, að það liggur í því, að það hefur verið erfitt að fá lán í bönkum, og því hefur þetta fé verið tekið, bæði til skipakaupa og vatnsveitna. Ég ætla að vara við þeirri hættu. Þetta hefur tryggingaráði lengi verið ljóst. Við höfum reynt að kippa þessu í lag, en það hefur gengið erfiðlega. Sum bæjarfélög hafa á þessu ári verið í erfiðleikum, það hefur verið örðugra um atvinnu en fyrr, og reynslan er sú, að þegar harðnar í ári, verður ásóknin á tryggingarnar meiri en nokkru sinni fyrr. Manni, sem er veikur, batnar oft seinna, þegar hann á að litlu að hverfa. Þetta getur snert sálarlegu hliðina. Vitneskjan um að hafa að góðu að hverfa, lyftir manninum ekki lítið upp og getur haft áhrif á heilsu hans.

Mér virðist hv. þm. Ísaf. telja nóg að ausa með annarri hendinni úr þessum potti, en minna hirða um, hvað í hann kemur aftur. Hann taldi mig harðýðgisfullan og einsýnan. Ég held, að hann sé meira einsýnn, að vilja bara ausa úr pottinum, hvort sem nokkuð kemur í hann aftur eða ekki. Ef sveitarfélögin komast upp með það ár eftir ár að inna þessi gjöld ekki af höndum, þá koma hin á eftir. Þau hljóta að gera það, af því að mörg þeirra, sem hafa staðið í skilum, hafa orðið að láta ýmislegt biða, sem þau hafa þó þörf og löngun til að framkvæma. Þau hafa reynt að borga þetta undan blóðugum nöglunum, ef svo mætti segja, og ef þau sjá, að sumum bæjarfélögum ár eftir ár líðst að safna skuldum, þá taka þau upp sömu aðferð. Og hvar stöndum við þá? Einmitt nú á svona tímum fullreynir á tryggingarnar. Þær voru stofnaðar á góðum tíma og hafa gengið vel fram að þessu, en þegar fer að harðna í ári, reynir meira á þær, og þá vitanlega ríður á því, það er höfuðnauðsyn, að þeir menn, sem vilja, að þetta haldi áfram, og ég vona, að það séu sem flestir, að reyna að sjá um, að hægt sé að ná þeim tekjum, sem þær eiga samkv. l. Ég held, að ég sýni engum harðýðgi, heldur sé þetta nauðsynleg leið, sem valin er að vandlega athuguðu máli af þeim, sem um þetta mál eiga að fjalla. Ég vil benda hv. þm. Ísaf. á, að mín harðýðgi er sú, að ég er að reyna að milda þá till., sem flutt var í Ed. af hv. 4. þm. Reykv., og ég held, að óþarfi sé að bregða honum um harðýðgi. Hann hefur reynt að liðka til fyrir sveitarfélögunum eins og hann hefur getað. En við, sem viljum, að tryggingarnar haldi áfram, viljum gera þessar varúðarráðstafanir til þess að reyna að koma þessum málum í lag. Þetta er eingöngu heimild, og ráðh. er ekki skyldugur til að nota hana, og hann mun tala við viðkomandi bæjarstjórnir fyrst. Þetta er aðhald, sem ég tel, að þurfi að koma frá Alþingi og mun ef til vill verða til þess, að bæjarstjórnir reyni að standa í skilum og safna ekki skuldum, eins og sumar þeirra hafa gert undanfarin ár.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að till. verði samþ.