06.11.1950
Neðri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

61. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Með l. nr. 83 frá 1945 var heimilað að ákveða frekari takmarkanir á dragnótaveiðum í landhelgi en segir í l. frá 1937 um bann gegn þeim. Með l. frá 1945 var ráðherra heimilað samkv. till. Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar háskólans að ákveða frekara bann gegn dragnótaveiðum en segir í 1. gr. l. frá 1937. Þessi heimild hefur lítið verið notuð. En 1. marz s.l. setti atvmrn. samkv. hinum fyrrnefndu l. reglugerð um bann við dragnótaveiðum á tveimur svæðum, öðru á Vestfjörðum, í Aðalvík, en hinu hér við Faxaflóa, eða frá Sandgerðisvita að Hraunsnesi. Þessi reglugerð var sett samkv. eindregnum óskum sjómanna og útvegsmanna á báðum stöðunum. Enda er raunin sú, að átt hefur sér stað vaxandi ásókn um það undanfarið af hálfu sjómanna að fá þessa heimild notaða til algers banns við dragnótaveiði á ákveðnum stöðum. Um þetta var sem sagt sett reglugerð á s.l. vetri. — Nú er hins vegar komið í ljós, að dómsmrn. telur, að ekki sé unnt að framfylgja reglugerðinni vegna þess, að ekki hafi verið fylgt til hins ýtrasta lögunum frá 1945. En þar segir skýrt, að ráðh. sé heimilt að setja bann við dragnótaveiði á ákveðnum stöðum „samkvæmt tillögum“ Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar háskólans. Vegna bessarar afstöðu dómsmrn. hefur ekki þótt fært að halda til streitu reglugerðinni um friðun umræddra svæða, og er hún upphafin þar með.

Nú er þetta frv. flutt vegna þessa tilviks. Er þar lagt til, að heimild til að friða einstök svæði verði ekki lengur bundin algerlega við meðmæli beggja þeirra aðila, sem til eru nefndir í l. frá 1945. Því er lagt til, að fyrir orðin „samkvæmt tillögum“ í 1. gr. laganna komi orðin: að fengnum tillögum. Er þá heimildin ekki lengur bundin við það, að báðir aðilar mæli með friðuninni.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að við flm. þessa frv. þurfum að fjölyrða mjög um rökin fyrir réttmæti þess. Ég hygg, að á síðari árum hafi orðið töluvert mikil breyt. á afstöðu manna til dragnótaveiðanna. Þær hafa víða reynzt að hafa í för með sér hættulega rányrkju, sem ekki má láta viðgangast von úr viti. Auk þess munu menn telja, að rétt sé að gefa hlutaðeigendum á ýmsum stöðum rétt til að hafa áhrif á það, hvernig þessum málum er skipað og hvort veiðar skuli leyfðar uppi í landhelgi hjá þeim. Nú fækkar auk þess mjög þeim skipum, er þessar veiðar stunda, svo að dragnótaveiðarnar eru ekki lengur eins þýðingarmikill þáttur í fiskveiðunum og áður var. Auðvitað er þó rétt, að mörg hraðfrystihús eiga enn talsverðra hagsmuna að gæta í þessu efni, en þá kemur hitt líka til greina, að framleiðsla þeirra er nú að verða fjölþættari og þau taka fleiri fisktegundir til verkunar en fyrr, svo sem karfann, sem nú virðist vera að verða mikil útflutningsvara. Þetta mælir allt með því. að heimild sú til atvmrh., sem hér um ræðir til þess að ákveða friðun eða bann við dragnótaveiðum á einstökum svæðum, verði rýmkuð og að unnt verði að framkvæma þann vilja mjög margra þm. að friða einstök svæði.

Ég tel á þessu stigi málsins ekki þörf á að fara fleiri orðum um þetta frv. og leyfi mér að óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.