08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það koma nú fyrir hvert þing frv. um að selja eitthvað af þjóðjörðunum. Það má að vísu segja, að það sé nokkur bót í máli að gera þær að ættaróðulum. En við skulum gera okkur ljóst, að lögum um ættaróðul má breyta, og gætu þær því lent í braski síðar og þá eru þessar jarðir lentar út í það brask, sem annars hefur verið reynt að forðast, að jarðir kæmust í.

Ég er ekkert sérstaklega á móti því, að þessar jarðir séu seldar, sem rætt er nú um, ég býst við, að þessir bændur hafi margt fram að færa, eins og þeir hafa flestir haft undanfarin ár. En þetta stafar af því, að ríkið hefur ekki hugsað um að búa nógu vel í haginn, að það er ekki eins gott fyrir bændur að búa á þjóðjörðum eins og á jörðum. sem þeir eiga sjálfir. Að því ætti að stefna með þessu og það ætti að vera hægt að finna slíka löggjöf, ef löggjafarvaldið legði sig í framkróka til þess. Ég mun því greiða atkv. móti þessari sölu, ekki af því, að ég álíti, að þessir bændur hafi ekki rök fyrir sínu máli, heldur til að marka mína afstöðu gegn þeirri stefnu að selja þjóðjarðir.